Nýr umsjónarmaður fasteigna forsetaembættisins komst að því á dögunum að steindur gluggi á stafni Bessastaðakirkju, sjálft skjaldarmerki lýðveldisins, hefði ekki verið upplýstur svo áratugum skipti. Hann kippti því snarlega í liðinn og nú sést til ferðafólks undir kirkjuveggnum að festa sér ljósmyndir af glugganum glæsilega.
Umsjónarmaðurinn er Dalvíkingurinn Friðbjörn Beck Möller Baldursson.
Friðbjörn er þriðji Svarfdælingurinn sem fer með ráðmennsku af einhverju tagi á forsetasetrinu, að því er Sýslið veit best.
Fyrstan skal að sjálfsögðu telja Kristján Eldjárn Þórarinsson frá Tjörn, þriðja forseta lýðveldisins. Hann var kjörinn með yfirburðum vorið 1968 og hlaut tæplega 66% atkvæða. Andstæðingur hans, Gunnar Thoroddsen, hlaut sneypulega útreið.
Kristján gegndi embætti í þrjú kjörtímabil eða til 1980. Ásgeir Ásgeirsson var forseti á undan honum en Vigdís Finnbogadóttir varð forseti eftir að Kristján ákvað að gefa ekki kost á sér oftar til endurkjörs.
Ingvi á Hrísum – bússtjóri á Bessastöðum
Í öðru lagi skal nefndur hér til sögu Ingvi Antonsson, sem fæddist á Dalvík 1928 og ólst upp á Hrísum í Svarfaðardal. Hann var ráðinn bússtjóri á Bessastöðum 1956, þá nýútskrifaður búfræðingur frá Ási í Noregi.
Ingvi var erlendis frá 1951 til 1955. Fyrst starfaði hann á búgörðum í Danmörku og settist síðan á skólabekk í Ási. Hann var kvæntur Valgerði Guðmundsdóttur ljósmóður úr Mosfellsveit.
Ríkið rak lengi stórbú á íslenskan mælikvarða á Bessastöðum og hafði fjölda fólks þar í vinnu. Búreksturinn var bændum nokkur þyrnir í augum, einkum þegar á leið. Þeim þótti það hreint ekki sjálfsagt mál að ríkisvaldið stússaðist í búskap í samkeppni við þá og árið 1968 var ákveðið að leggja af þennan umfangsmikla rekstur.
Á búinu var framleidd mjólk í stórum stíl og frá 1965 bættust 40 holdanaut úr Gunnarsholti í hjörðina. Þar með urðu Bessastaðir bæði stórt mjólkurbú og umsvifamikill holdanautaræktandi með tilheyrandi kjötframleiðslu.
Ekki er hlaupið að því að nálgast upplýsingar um búreksturinn á Bessastöðum og ekki virðist hafa verið um hann skrifað sérstaklega. Ekkert er til dæmis um málið að finna í fjögurra binda ritverki um sögu íslensks landbúnaðar sem út kom 2013. Þess vegna skal ekkert fullyrt hér um hvort tengsl hafi verið milli forsetaskipta í landinu 1968 annars vegar og hins vegar ákvörðunar ríkisins um að hætta búrekstri á Bessastöðum.
Ósennilegt er það samt ekki að tækifærið hafi verið gripið við húsbóndaskiptin á forsetasetrinu. Kannski hefur það líka þótt fullvel í lagt að tveir Svarfdælingar færu með húsbóndavald samtímis á Bessastöðum, annar forseti en hinn bússtjóri!
Við eftirgrennslan Sýslsins kom í ljós að Ingvi Antonsson var valinn úr hópi fjölda umsækjanda og hann var aðeins 28 ára þegar hann var ráðinn til að gegna þessu mikilvæga starfi. Fyrirrennari hans var Jóhann Jónasson. Hann sagði upp á Bessastöðum og gerðist framkvæmdastjóri Grænmetisverslunar landbúnaðarins.
Eftir breytinguna á forsetasetrinu flutti Ingvi á æskuslóðir og hóf búskap á Hrísum. Þar bjó hann næstu árin en flutti til Dalvíkur 1975 og var um skeið bæjarverkstjóri og síðar hafnarvörður og vigtarmaður við höfnina. Hann lést í janúar 1993.
- Viðbót 21. janúar 2015 samkvæmt ábendingu. Í Morgunblaðinu 23. október 2014 var rætt við aldinn Dana, Poul Henning Jensen, sem var fjósamaður á Bessastöðum 1956-1957, þ.e. á fyrsta bússtjóraári Ingva frá Hrísum. Þegar Jensen kom til starfa voru 43 mjólkandi kýr og „allmargar kvígur“ til viðbótar á Bessastöðum. Sem sagt: stórbú á íslenska vísu. Mjólkin var flutt í brúsum beint á Landspítalann því „á sjúkrahúsinu var sóst eftir að fá ógerilsneydda mjólk, sem átti að gera sjúklingunum gott.“
Friðbjörn ráðinn umsjónarmaður
Þriðji Svarfdælingurinn á Bessastöðum er Friðbjörn Baldursson frá Dalvík. Hann tók við starfi um miðjan desember 2014 og hefur umsjón með Bessastaðalandi og öllum fasteignum á vegum forsetaembættisins, þar með töldum húsum og kirkju á Bessastöðum og skrifstofuhúsi forseta Íslands að Sóleyjargötu 1 í Reykjavík.
Starfið var auglýst í ágúst 2014 og tekið fram að ætlast sé til þess að umsjónarmaður búi á Bessastöðum. Í auglýsingunni sagði svo meðal annars:
Nauðsynlegt er að umsækjandi hafi reynslu og menntun sem nýtist í starfinu, færni í mannlegum samskiptum og gott vald á enskri tungu. Forsetaritari er yfirmaður starfsmannsins og er fyrirhugað starfshlutfall 100%. Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðuneytisins og Stéttarfélags í almannaþjónustu (SFR).
Ýmis reynsla getur nýst í starfinu og má í því sambandi nefna löggæslu, húsvörslu, öryggisvörslu og akstur í atvinnuskyni.
Miðað er við að hinn nýi starfsmaður taki til starfa við fyrstu hentugleika haustið 2014.
Hvorki fleiri né færri en 134 um starfið, 119 karlar og 15 konur. Fyrir valinu varð sem sagt umsækjandi frá Akureyri, ættaður af Dalvík.
Friðbjörn er fæddur 1971, sonur hjónanna Baldurs Friðleifssonar (Baldurs Öllu) og Jónu Kr. Björnsdóttur úr Hrísey, ættaðri frá Siglufirði.
Svarfdælasýsl falaðist eftir viðtali við nýja umsjónarmanninn en komst að því að reglur forsetaembættisins heimila ekki að starfsmenn þess tjái sig ekki á opinberum vettvangi. Það gildir meira að segja um Sýslið líka, einn ábyrgðarfyllsta og lítillátasta fjölmiðil sem um getur í lýðveldinu, með lesendur í 75 löndum – sem slagar upp í helming ríkja innan vébanda Sameinuðu þjóðanna.
Sýslið virðir auðvitað starfsreglur og umferðarreglur lýðveldisins og því missa lesendur um víða veröld af viðtali hér við Dalvíkinginn nýráðna.
Stjórnarskráin tryggir hins vegar Sýslinu rétt til að stunda rannsóknarblaðamennsku um uppruna og starfsferil mannsins. Afraksturinn er eftirfarandi.
Líkamsræktarmaður og göngugarpur
Friðbjörn Baldursson var um áratugsskeið starfsmaður ISS Íslands ehf. og hafði umsjón með rekstri Borga, rannsóknahúss Háskólans á Akureyri (HA). Óopinber starfstitill hans þá var Borgarstjóri (e. Burger King!), hvorki meira né minna.
Hann hefur líka unnið að ýmsum verkefnum fyrir HA og að verkefnum fyrir MATÍS þar sem krabbaflær og þörungar komu við sögu.
Friðbjörn er fjalla- og göngugarpur, liðsmaður Ferðafélags Akureyrar (FA) og lagði til dæmis vatn að Lamba, skála þess í Glerárdal. Í kjölfarið skipaði Ingvar Teitsson, læknir og leiðtogi FA, Friðbjörn í Lambanefnd félagsins og þar verður hann svo lengi sem Ingvari sýnist.
Friðbjörn er liðtækur áhugaljósmyndari. Enn má nefna að hann var þrekþjálfari líkamsræktarstöðvarinnar Átaks við Strandgötu á Akureyri og tuskaði til karla sem þurftu á hreyfingu og auknu blóðflæði um kroppinn að halda ásamt því að vera með hjóla- og þrektíma fyrir iðkendur Átaks.
Í samtölum við félaga Friðbjörns fyrir norðan kom fram að það hefði tæpast hvarflað að honum að skipta um starfsvettvang, að því best var vitað, og þaðan af síður að flytja suður. Skólafélagi hans í sjávarútvegsfræðum benti honum á auglýsingu í dagblaði 9. september sl. þar sem fram kom að starf umsjónarmanns á Bessastöðum væri laust til umsóknar. Umsóknarfrestur rann út daginn eftir, 10. september.
Friðbjörn ákvað að sækja um, var ráðinn og nokkrum vikum síðar kominn suður ásamt eiginkonu sinni og tveimur dætrum. Hann er kvæntur Aðalheiði Guðmundsdóttur sem á föðurætt að rekja til Skarðs í Grýtubakkahreppi og móðurætt til Skútustaða í Mývatnssveit. Dætur þeirra eru Evíta Alice Möller 17 ára og Alexandra Ösp Möller 15 ára. Elsta barnið er Birgir Arnór, 24 ára. Hann bjó fyrir í Reykjavík ásamt kærustunni, Sigurdísi Björgu Jónasdóttur frá Hlöðum í Hörgárbyggð.
Upplýsta skjaldarmerkið á Bessastaðakirkju

Einar Þorsteinsson, við Bessastaðakirkju í fréttatímanum að kvöldi nýársdags. Myndirnar af honum og glugganum eru af RÚV-vefnum.
Friðbjörn lærði rafeindavirkjun og rafvirkjun á sínum tíma. Hann lauk ekki námi og aflaði sér því ekki fagréttinda sem slíkur. Þekking hans og reynsla af rafmagnsmálum kom sér hins vegar vel við húsumsjónina á Akureyri og hún varð fljótlega notadrjúg á Bessastöðum líka.
Þannig var frá því greint í sjónvarpsfréttum RÚV, á fyrsta degi ársins 2015, að nýi umsjónarmaðurinn á forsetasetrinu hefði komist að því milli jóla og nýárs að unnt væri að lýsa upp skjaldarmerki Tryggva Magnússonar frá lýðveldisárinu 1944, steindan glugga, á stafni kirkjunnar. Þetta er einn af steindum gluggum, eftir Finn Jónsson og Guðmund Einarsson frá Miðdal, sem settir voru í kirkjuna 1956.
Fréttina þefaði RÚV uppi þegar frétta- og tökulið þess var á Bessastöðum í tilefni ríkissráðsfundar á gamlársdag. Fréttin vakti mikla athygli, reyndar svo mikla að vart verður fólks á hlaði forsetasetursins sem gerir sér beinlínis ferð þangað til að sjá upplýsta skjaldarmerkisgluggann á kirkjunni.
Friðbjörn fann sem sagt ljósabúnað innan við kirkjugluggann og rafmagnstöflu tengda glugga-ljósinu. Peran var ónýt og verksummerki bentu til að þar hefði ekki logað ljós lengi, reyndar svo lengi að elstu starfsmenn á Bessastöðum minnast þess ekki að hafa séð þennan glugga upplýstan, jafnvel ekki þeir sem muna allt aftur til embættistíðar Kristjáns Svarfdælings!
Hvað um það, rafmagnsredding umsjónarmannsins féll í kram þjóðarinnar í byrjun nýs árs. Flestir landsmenn muna eftir RÚV-fréttinni um kirkjugluggann en varla nokkur maður minnist þess lengur um hvað ríkisráðsfundurinn á Bessastöðum snerist. Það er eðli máls samkvæmt.
