Gagnrýnendur halda ekki vatni yfir Hundi í óskilum

Staðlað

litilSýning Öldin okkar í Borgarleikhúsinu fær þvílíkt hól leikhúsgagnrýnenda að langminnugir kannast ekki við neitt sambærilegt í háa herrans tíð, ef þeir þá minnast einhverrar hliðstæðu yfirleitt.

Hundur í óskilum fylgdi velgengni sinni með Sögu þjóðar eftir með nýju sýningunni, Öldinni okkar. Ef að líkum lætur verða Eiríkur og Hjöri í óskilum á svölum leikhússins um hverja helgi til vors og lengur. Boðað er framhald sýningarhalds þeirra þar í haust.


Hundur í óskilum
sýndi Sögu þjóðar alls 80 sinnum á sviði á leikárinu í fyrra, þar af 10 sinnum á Akureyri og 70 sinnum í Reykjavík. Þessi sýning náði svo til allrar þjóðarinnar núna að kvöldi nýársdags og plægði jarðveg fyrir nýju sýninguna.

Öldin okkar var frumsýnd á Akureyri og sýnd þar tólf sinnum fyrir jól. Það er samt ekki fyrr en í kjölfar fyrstu sýninga í Borgarleikhúsinu, 9. og 10. janúar, að gagnrýnendur dagblaðanna fjalla um verkið.

Hjörleifur Hjartarson, óskilahundur frá Tjörn, hlær kvikindislega:

„Auðvitað hjálpar okkur að gagnrýnendur fyrir sunnan skyldu ekki nenna til Akureyrar í desember. Við gátum slípað sýninguna í næði fyrir þeim nyrðra. Nú mættu þeir loksins á sýningar númer þrettán og fjórtán þegar rennslið var orðið skínandi gott!“

Borgarleikhúsið hefur nú auglýst fimmtán næstu sýningar frá 16. janúar til 1. mars. Það má öruggt telja að sýningum fjölgi enn frekar þrátt fyrir að fleiri áhorfendur komist í salinn nú en þann sem hundarnir gjömmuðu í þegar þeir sýndu Sögu þjóðar í fyrra.

Eitt er að sjálfsögðu skoðun atvinnugagnrýnenda, annað er álit leikhúsgesta en víst er að nú er þar rakinn samhljómur. Gagnrýnendur halda ekki vatni og gestir í sal ekki heldur.

Sjaldgæft er að upplifa aðra eins stemningu í leiksal og ríkti í Borgarleikhúsinu um síðustu helgi. Fólk missti sig í fögnuði hvað eftir annað og hélt um kvið sér gólandi og skríkjandi.

Myndunum með greininni var stolið purkunarlaust úr leikskrá.

Öldin okkar er mun meira leikhús en Saga þjóðar.

  • Eiríkur kemur út úr skápnum sem stórbrotinn leikhundur.
  • Hjöri fer meira á kostum í kveðskap og uppistandi en dæmi eru um áður.
  • Sýningin öll er vel gerð, frumleg og yfirgengilega fyndin. Hún er satt að segja alveg fáránlega skemmtileg.

Algjörlega hlutlaust mat er reyndar það að framlag óskilahunda að norðan komi sterklega til álita sem sýning ársins á yfirstandandi leikári þegar spekingar gera það upp í vor …

Jón Viðar Jónsson gaf Sögu þjóðar fimm stjörnur af fimm mögulegum í DV í fyrra. Það þótti tíðindum sæta af þeim mikla sýningabana. Nú er hann flúinn frá DV líkt og aðrir góðir menn en var mættur á fyrstu sýningu á Öldinni okkar í Borgarleikhúsinu. Hann sáldrar því stjörnum sínum nú á einhverjum öðrum vettvangi eða heldur kæti sinni bara fyrir sig.

 

Silja Aðalsteinsdóttir kallaði Hjöra og Eirík með réttu „mikla grínmeistara“ í dómi á vefmiðli Forlagsins, Tímariti Máls og menningar, og sagði sýninguna vera „dæmalaust góða skemmtun.“

Sigríður Jónsdóttir gaf óskilahundunum fimm stjörnur af fimm mögulegum í Fréttablaðinu 12. janúar og orðaði niðurstöðu sína þannig:

 „Áhorfendur eiga eftir að veltast um úr hlátri. Stórskemmtileg sýning þar sem hugmyndaauðgi og beittur húmor ráða ríkjum.“

 

Davíð Oddsson fær duglega á baukinn í sýningunni en Morgunblaðið hans strýkur samt hundunum í hrifningarvímu og kjassar þá umbúðalaust. Silja Björk Huldudóttir skrifar þar m.a. í dómi sínum 13. janúar:

 „Hugmyndaauðgi þeirra félaga virðist engin takmörk sett eins og birtist best í þeim hugvitsamlegu hljóðfærum sem þeir hafa smíðað gegnum tíðina en hljóðfærunum fjölgar enn í nýju sýningunni. Öldin okkar er sýning sem enginn ætti að missa af sem langar að hlæja dátt heila kvöldstund.“

  •  Dómur Morgunblaðsins um Öldina okkar í heild sinni:

Sagt er að hláturinn lengi lífið og í því ljósi má reikna með að áhorfendur hafi lengt líf sitt allnokkuð þegar hljómsveitin Hundur í óskilum tróð upp á Nýja sviði Borgarleikhússins sl. föstudag með sjóntónleika sína Öldin okkar. Verkið var upphaflega sýnt í Samkomuhúsinu á Akureyri í samstarfi við Leikfélag Akureyrar í október sl. en ráðgert er að sýna það a.m.k. næstu þrjár helgar sunnan heiða.

Félagarnir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson sem eru hljómsveitin Hundur í óskilum setja þetta nýja leik- og tónverk upp í tilefni af 20 ára afmæli sveitarinnar og taka hér upp þráðinn þar sem frá var horfið í yfirreið sinni um Íslandssöguna. Í stað þess að fara yfir atburði nokkurra alda líkt og í verðlaunasýningunni Saga þjóðar, sem sýnd var við góðar viðtökur á árunum 2012 og 2013, er hér horft til atburða frá aldamótum 2000 fram á okkar dag. Og þar er svo sannarlega af nógu af taka.

Engum hlíft

Í upphafi kynna þeir félagar sýningu sína með þeim orðum að til hafi staðið að vera með megastórt „sjóv“ en þeir hafi hreinlega ekki haft efni á að leigja sér sinfóníuhljómsveit, 20 dansmeyjar og vera með flott búningaskipti eftir að Hundur í óskilum Group fór á hausinn eftir að hafa tekið þátt í útrásinni og m.a. verið fyrst íslenskra sveita til að troða upp í Royal Albert Hall. Í staðinn eru þeir mættir á sviðið í einföldum spariklæðnaði með mörg og fjölbreytt hljóðfæri sín, sviðssjarma og húmorinn að vopni. Undir styrkri stjórn Ágústu Skúladóttur leikstjóra fara þeir yfir ris og fall fjármálakerfisins, búsáhaldabyltinguna, umdeildar ákvarðanir eins og byggingu Kárahnjúkavirkjunar, hvalveiðar, Kristnitökuhátíðina, flutning Keikós til Íslands, komu skákmeistarans Bobbys Fischer og ýmsar áberandi byggingar eins og Menningarhúsið Hof sem þeir kalla „stalíntertu“ og tónlistarhúsið Hörpu sem þeim finnst eins og „biluð diskóbrauðrist“.

Þeir hlífa engum, hvort heldur það eru stjórmálamenn eða útrásarvíkingar, og allra síst sjálfum sér. Allt er þetta borið á borð með gleðibrosi á vör í anda trúðsins sem gerði undirliggjandi ádeilu mun áhrifameiri fyrir vikið. Úr verkfæraboxi trúðsins kom líka endurtekningin sem virkaði sérdeilis vel og batt sýninguna iðulega mjög skemmtilega saman.

Áhorfendur skemmtu sér konunglega yfir upprifjun þeirra félaga á því fjármálasukki sem hér hefur ríkt, óhóflegri bjartsýni landans á ýmsum sviðum og fáránlegum mótsögnum í orði og gjörðum landsmanna. Að mati undirritaðrar hefði að ósekju mátt stilla neðanbeltishúmornum aðeins í hóf, sérstaklega fyrir hlé, en þess ber að geta að salurinn var augljóslega ekki sammála þeirri skoðun og hló innilega.

Mikil leikgleði

Leikmynd Axels Hallkels Jóhannessonar samanstendur af vörubrettum sem komið hefur verið fyrir með haganlegum hætti þannig að þau minna m.a. á háhýsi og mynda líka svið með tröppum, auk þess sem brettin nýtast vel til að geyma hin mörgu hljóðfæri hljómsveitarinnar. Fjórir litlir byggingarkranar setja sterkan svip á umhverfið og ekki skemmir fyrir að Eiríkur leikur á einn þeirra með skemmtilegum hætti. Lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar þjónaði sýningunni vel og kom skemmtilega á óvart undir lokin.

Hjörleifur og Eiríkur keyra sýninguna áfram af miklum krafti og leikgleði þannig að tveggja klukkustunda sýning þýtur hjá nánast á augabragði. Hjörleifur er uppistandari af guðs náð, enda hefur hann gott vald á tímasetningum auk þess að vera frábær eftirherma, eins og sést best undir lok sýningar þegar hann dregur boðskap verksins saman með því að rifja upp þekkt barnaleikrit í gervi eins ástælasta leikara þjóðarinnar.

Eiríkur fór á kostum í laginu „Háska-þroska-miska-raska-rof“ þegar hann datt út úr spilamennskunni og gleymdi sér við að ýmist telja áhorfendur eða vinka þeim. Einnig var hann þrælskemmtilegur í fyrirlestri um fjármál sem fluttur var í anda bandaríska rapparans 50 Cent, sem skemmti sem kunnugt er gestum í fertugsafmæli Björgólfs Thors á Jamaíka árið 2007.

Ótakmörkuð hugmyndaauðgi

Einn af hápunktum kvöldsins var flutningur þeirra á eftirmælum sömdum í þulustíl. Líkt og áður eru textarnir, sem byggjast á rími og réttri stuðlasetningu, í aðalhlutverki hjá þeim félögum. Iðulega tekst þeim Hjörleifi og Eiríki að koma áhorfendum sínum á óvart með því að tengja saman ólíklegustu hluti eins og t.d. þegar lagið „Bohemian Rhapsody“ er flutt í danskri þýðingu á melódiku, rafgítar og trompet eða þegar lagið „Manchester, England, England“ úr söngleiknum Hárinu hljómar á íslensku sem „Keflavík, Njarðvík, Hafnir“. Auk þess var óborganlegt að heyra flutning þeirra og túlkun á 26. grein stjórnarskrárinnar.

Hugmyndaauðgi þeirra félaga virðist engin takmörk sett eins og birtist best í þeim hugvitssamlegu hljóðfærum sem þeir hafa smíðað gegnum tíðina, en hljóðfærunum fjölgar enn í nýju sýningunni. Öldin okkar er sýning sem enginn ætti að missa af sem langar að hlæja dátt heila kvöldstund.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s