
Gleði á Tungurétt. Ingi Baldvinsson á Bakka og Ásdís Pálmadóttir frá Odda. Hún flutti frá Dalvík til Ólafsfjarðar, hann flutti frá Ólafsfirði í Svarfaðardal.
Þorrablót á Rimum, svarfdælskur mars á Þinghúsinu 1980 og viðtal við Sigríði Jódísi Gunnarsdóttur, verslunarstjóra í Sautján í Kringlunni, fangaði athygli flestra lesvina Sýslsins af því efni sem birtist hér á árinu 2014. Sýslið rataði á tölvuskjái ótrúlega víða um veröldina á árinu. Skráðar er heimsóknir frá 75 ríkjum, langflestar að sjálfsögðu frá Íslandi.
Notendur WordPress-vefkerfisins fá í lok ársins sendan margvíslegan fróðleik um hvernig heimasíðurnar eru notaðar. Þegar horft er yfir lengri tíma, til dæmis á heilt ár, má fá glögga vísbendingu um hvers konar efni gestir sækjast helst eftir að lesa og skoða í máli og myndum.
Alls bættust við yfir 40 pistlar á Sýslið á árinu sem er að líða. Hér er listinn yfir það sem flestar heimsóknir hlaut. Þess má geta að mesti gestastraumurinn á einum sólarhring var eftir að myndir frá Tungurétt birtust.
- Þorri krossblótaður á Rimum – þorrablót í Svarfaðardal.
- Svarfdælskur mars og fjör á Þinghúsinu 1980 – einstök upptaka af dansi á Þinghúsinu að Grund.
- Við stýrið í brú flaggskips klæða og tísku – Sigríður Jódís Gunnarsdóttir, verslunarstjóri í Sautján.
- Tungurétt í september – réttarstemningin eina og sanna.
- Neminn úr Skíðadal bakaði meistarana – Íris Björk Óskarsdóttir.
- Bakarabræðurnir Hólm við Bæjarlind – Guðni og Einar Stefánssynir.
- Blótað og brosað allan hringinn – þorrablót Suðursvarfdælinga í Víðidal.
- Hollustuverk með dalvískar rætur – afkomendur Huldu & Stefáns í hollustubissness.
- Jaxl og fjölfræðingur – Þorsteinn Helgi Guðbjörnsson fjölfræðingur.
- Laugardagsspeki og svarfdælskt manneldi – Júlíus J. Daníelsson frá Syðra-Garðshorni.
Svo er gaman að velta fyrir sér hvaðan gestirnir koma …
Fólk í 75 löndum hefur heimsótt Sýslið á árinu. Hér er listi yfir 20 lönd sem fóstra flesta gesti. Skemmst er frá að segja að þar er heimurinn allur undir.
Til gamans má nefna að Írak var ekki á listanum fyrr en skömmu fyrir jól, þá voru allt í einu skráðar heimsóknir þaðan dag eftir dag. Heimur batnandi fer, líka í Írak.
- Ísland
- Noregur
- Danmörk
- Svíþjóð
- Bandaríkin
- Þýskaland
- Bretland
- Spánn
- Kanada
- Tyrkland
- Holland
- Austurríki
- Sádí-Arabía
- Sviss
- Brasilía
- Frakkland
- Ungverjaland
- Rússland
- Japan
- Færeyjar
-
Svarfdælasýsl sendir vinum sínum bestu kveðjur í tilefni áramótanna og þakkar samfylgdina 2014. Megi árið 2015 verða farsælt og flott.