Garðshyrningur í austurvegi

Staðlað

IMG_2701Okkar maður í Moskvu býr við þann lúxus að geta, ef honum sýnist svo, fagnað jólum í tvígang og áramótum í þrígang, þökk sé tímamuni og deildaskiptum trúarbrögðum.

Hann fylgist með Rússum kveðja gamla árið með flugeldasýningu við Kreml og horfir svo á gömlu skaupin hans Flosa Ólafs á YouTube.

Albert Jónsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, á ættir að rekja að Hnjúki og var sumar eftir sumar í sveit í Ytra-Garðshorni.

Rússar halda jól hátíðleg 7. janúar í samræmi við gamalt tímatal Réttrúnaðarkirkjunnar sem til varð eftir klofning í kirkjunni á 11. öld. Gamlársdagur er 14. janúar.

Strangt til getið gæti sendiherrann skálað fyrir nýju ári á miðnætti að Mosvkutíma og aftur kl. 3 um nóttina, sem er miðnætti að íslenskum tíma.

Í þriðja lagi er diplómatísk kurteisi að fagna líka áramótum um miðjan janúar. Þá telst loksins komið nýtt ár um allar jarðir.

Rétttrúnaðarkirkjan hefur deildir víða í Austur-Evrópu en hún er einnig útbreidd í Grikklandi, Finnlandi og víðar. Meira að segja er deild rétttrúnaðarins á Íslandi og prestur í fullu starfi með hátt í 200 manna söfnuð sem heyrir undir patríarkann í Moskvu.

Jólaborgin Moskva

Albert og Ása Baldvinsdóttir, sendiherrahjónin í Moskvu, á Rauða torginu.

Albert og Ása Baldvinsdóttir, sendiherrahjónin í Moskvu, á Rauða torginu.

„Moskvuborg er rækilega skreytt í tilefni jólanna og mikið um dýrðir. Mér sýnist skreytingagleðin stöðugt að aukast frá því ég kom hingað fyrst,“ segir Albert.

„Rússar halda fast við jólahátíðina sína 7. janúar en þeir fagna hins vegar áramótum á sama tíma og við, þrátt fyrir að tímatal Rétttrúnaðarkirkjunnar kveði á um annað.

Þannig er mikil flugeldasýning við Kreml á gamlárskvöld í tilefni áramóta og hana ætla ég að sjá – áður en ég sest við tölvuna og horfi á áramótaskaupin hans Flosa frá fyrstu árum Sjónvarpsins!

Jólin setja svo mark sitt á þjóðlífið í fyrstu viku janúar, margir í fríum og til dæmis lokað í ráðuneytum og mörgum opinberum stofnunum.“

Allir drukku Valashið sáluga

Albert Jónsson hefur verið sendiherra í Rússlandi frá 2011 og var áður ræðismaður í Færeyjum og sendiherra í Washington. Hann var þar áður framkvæmdastjóri Öryggismálanefndar, þaðan lá leiðin til starfa í forsætisráðuneytinu, síðan utanríkisráðuneytinu og svo í utanríkisþjónustunni.

Jón Ragnar Steindórsson, faðir Alberts, er ættaður frá Hnjúki í Skíðadal og var sem strákur í Ytra-Garðshorni sumar og vetur, eins og hann greindi frá hér á Sýslinu í mars 2014. Sonurinn fetaði í spor hans og var fimm sumur í Ytra-Garðshorni, frá 1962 til 1966.

„Ég kom fyrst í Ytra-Garðshorn með pabba þegar ég var fimm eða sex ára. Tíu ára kom ég fyrst til að dvelja í nokkrar vikur og var þar síðan í sveit næstu sumrin við leik og störf: heyskap, kúarekstur, mjaltir og fleira.

valashSvo fórum við á íþróttaæfingar á Tungunum einu sinni í viku, í bíó á Dalvík eða í sund. Mér fannst vatnið í Sundskálanum alltaf vera fjári kalt, enda vanur meiri hita í laugunum fyrir sunnan.

Alltaf var eitthvað að gerast og mikið fjör, til dæmis á kappreiðum hestamanna við Arnarholt, neðan við Ytra-Garðshorn. Það voru merkilegar samkomur og þar og víðar drukkum við Valash, gosdrykk frá Sana á Akureyri sem nú er löngu horfinn af markaði en var meðal þjóðareinkenna Norðlendinga á þessum tíma!“

Breiðan, Lygnan og fleiri góðir veiðistaðir

Víkur þá sögu að veiðum í Svarfaðardalsá. Ytragarðshornsmenn voru drjúgir í þeim efnum og fengu góðan liðsauka með Alberti, enda hann með mikil veiðigen í sér. Afi hans var Albert Erlingsson, sem stofnaði verslunina Veiðimanninn við Hafnarstræti í Reykjavík 1940 og rak í áratugi. Síðar átti Albert Jónsson eftir að vinna mikið í Veiðimannum og reka meira að segja verslunina að hluta um skeið og sjá um póstverslun viðskiptavina á landsbyggðinni.

Í garðinum við sendiráðsbústaðinn. Sendiráðið sjálft er í næsta húsi, innan sömu girðingar.

Í garðinum við sendiherrabústaðinn. Sendiráðið sjálft er í næsta húsi, innan sömu girðingar.

„Ég byrjaði að veiða í Svarfaðardalsá áður en veiðifélag var stofnað um ána og við Garðshornsmenn vorum oft í ánni, mest auðvitað fyrir neðan Ytra-Garðshorn en líka landi Grundar og Bakka. Veiðin gat verið ótrúlega mikil og Halli í Garðshorni mokveiddi á góðum dögum, hann var afar fiskinn.

Áin var alltaf að breyta sér en sumir veiðistaðir eru minnisstæðari en aðrir, til dæmis Breiðan neðan Garðshorns og Lygnan í Grundarlandi.

Eftir að veiðifélagið kom til sögunnar man ég að Hjalti í Garðshorni keypti fjölda veiðileyfa handa okkur. Við héldum uppteknum hætti og vorum mest á svæði 3, frá Skakkabakkabrúnni fram að ármótum en eitthvað líka á svæði 4, bæði í Skíðadal og Svarfaðardal.

Enn einn veiðistaðurinn kemur upp í hugann og þar veiddum við oft. Sá var rétt við brúna á Skakkabakka. Ég man vel eftir Gísla á Hofsá þar í klofbússunum sínum. Hann var mikill og minnisstæður veiðimaður, nýlega fallinn frá, og ég votta honum virðingu.“

  • Sýslari var í Moskvu í október og hafði myndavélina með í malnum

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s