Býr Sigurður í Brautarhóli eða á Brautarhóli? Áleitin spurning kviknaði eftir að viðtal birtist hér á Sýslinu um jólin við séra Sigurð Árna Þórðarson Hallgrímskirkjuprest af Brautarhólskyni. Skrifar Sýslsins, fæddur og uppalinn vestan Svarfaðardalsár, skrifaði „í Brautarhóli“ en viðmælandinn kannaðist ekki við annað en forsetninguna á framan við Brautarhól. Þetta kallar á meiri pælingar í forsetningum, bæjarnöfnum og málvenju í Dalnum.

Lena í eða á Laugabóli? Lena frá Atlastöðum fyrir miðri mynd sem Þórir Jónsson frá Jarðbrú tók 1956 á Höfða. Vinstra megin við hana eru Helga á Bakka (með hönd fyrir andliti!) og Sigrún í Bakkagerði. Hægra megin Anna Kristín í Hofsárkoti, Erla á Atlastöðum og Sigrún í Hánefsstöðum.
Skrifari af Jarðbrúarkyni skrifaði sem sagt „í Brautarhóli“ samkvæmt málvenju sinni, án hiks eða umhugsunar. Þannig stóð þetta í Sýslinu þar til í dag, eftir að Sigurður Árni sendi tölvupóst um tvö smáatriði í texta sem færð voru til betri vegar þegar í stað. Svo bætti hann við:
„ … við Brautarhólsfólk þekkjum ekki í framan við Brautarhól heldur bara á. Kannski eru það forsetningar og Svarfaðardalsá sem skilja að Vesturhjálka og Austurkjálka?“
Í framhaldi af þessari ábendingu var „í Brautarhóli“ breytt í „á Brautarhóli“ í textanum, sem eðlilagt er. Málvenja viðmælandans hlýtur að ráða!
Í framhaldinu var leitað í smiðju frænda í Ólafsfirði, Þóris Jónssonar frá Jarðbrú. Þar var ekki komið að kofanum tómum frekar en fyrri daginn. Hann sendi um hæl skjal, dagsett í apríl 2014, eigin samantekt um notkun forsetninga með bæjarnöfnum í Svarfaðardal.
Hann bar samantektina undir Björn Daníelsson frá Syðra-Garðshorni og Sökkuhjónin Þorgils og Olgu. Þorgils leitaði svo álits systur sinnar, Jónu Snævarr frá Völlum.
Kemur þá á daginn að munur er á málvenju austan- og vestanmegin ár varðandi nokkur bæjarnöfn.
- Björn og Þórir segja „Sigurður í Brautarhóli“ en Olga, Þorgils og Jóna „Sigurður á Brautarhóli“.
- Þeir segja „Fíi í Hánefsstöðum“ en þau „Fíi á Hánefsstöðum“.
- Sami munur á við um Uppsali og Skeggstaði.
Sýslið fékk góðfúslegt leyfi Þóris til að birta hér skjalið hans um forsetningar og bæjarnöfn. Honum myndi ekkert leiðast að fá ábendingar og athugasemdir, enda er þetta vinnuskjal og örugglega hægt að prjóna við þennan skemmtilega og merkilega fróðleik!
Neðst í skjalinu er að finna heimasímann hans og tölvupóstfang.