Skötumessa Sporsins í ranni Loka Laufeyjarsonar

Staðlað

Þórólfur Antonsson, vert á Kaffi Loka á Skólavörðuholti, er með það í genunum að föndra með fisk. Toni, faðir hans, var snar í snúningum í fiskbúðinni á Dalvík forðum og sonurinn var líka afskaplega handfljótur og sannfærandi í skötusuðunni í dag.

Skata er ekki á opinberum matseðli Loka en í tilefni Þorláksmessu var undantekning gerð, án þess að auglýst væri sérstaklega. Nokkrir liðsmenn Sporsins, líknarfélags, saumaklúbbs & gönguhóps snæddu þar til dæmis saman ásamt viðhengjum.

Ekki var stranglega skilyrt menn yrðu að vera af dalvísku eða svarfdælsku bergi brotnir til að komast í skötumessu Loka Laufeyjarsonar en það liðkaði tvímælalaust fyrir við borðapöntun ef unnt var að rekja einhverja þræði í sér á Böggvistaðasand.

Skötuborð Sporsins. Frá vinstri: Haukur, Jón, Selma, Guðrún, Flóra, Teitur, Valgerður, Sigurlína, Atli Rúnar.

Skötuborð Sporsins. Frá vinstri: Haukur, Jón, Selma, Guðrún, Flóra, Teitur, Valgerður, Sigurlína, Atli Rúnar.

Þórólfur, Hrönn og starfsfólk þeirra tóku auðvitað á móti gestum sínum eins og þeim er lagið. Boðið var upp á unaðslega síld sem forrétt að því sem koma skyldi.

Skatan sjálf var gufusoðin í ofni, sem reyndist sérlega vel lukkuð eldamennska og fiskurinn sveik ekki. Það sveið í augu og nef af ammoníakinu úr þykkustu stykkjunum. Þannig á það líka að vera.

Erlendir jólaferðamenn voru sem fyrr á rölti í blíðviðrinu á Skólavörðuholti. Hallgrímskirkja hefur meira aðdráttarafl á þá en nokkur annar staður á landi hér. Sumir runnu á skötulyktina á Loka og hættu sér alveg að rjúkandi fötunum. Lengra gengu þeir ekki, enda af nógu öðru góðmeti að taka ammoníakslausu á matseðli Loka.

Þorláksmessu er þar með bjargað og rúmlega það, enda fengu skötuvinir það á Loka sem þeir sóttust eftir og meira til.

Yfir miðborginni hvíldi skötuský um og eftir hádegi. Skötumenn gengu um glaðir en aðrir fitjuðu upp á trýnið. Þeir hinir síðastnefndu fá nóg tækifæri til að fara í dag með þvælda þulu um lykt og brælu. Þannig bjarga þeir sinni Þorláksmessu og allir geta unað glaðir við sitt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s