Siggi Árni á Brautarhóli – nýr sóknarprestur í Hallgrímskirkju

Staðlað

IMG_6609Nýr prestur í Hallgrímskirkju var sautján sumur í sveit í Svarfaðardal. Hann kom að sunnan beint í sauðburð úr vorprófum og fór ekki suður aftur fyrr en að loknum skítmokstri og öðrum haustverkum. Það á vel við í aðdraganda jóla að taka séra Sigurð Árna Þórðarson frá Brautarhóli tali í Svarfdælasýsli.

 

Samstarfsmenn í Hallgrímskirkju, sóknarpresturinn Sigurður Árni, og organistinn, Björn Steinar Sólbergsson.

Samstarfsmenn í Hallgrímskirkju, sóknarpresturinn Sigurður Árni, og organistinn, Björn Steinar Sólbergsson.

Sigurður Árni var á heimaslóðum móður sinnar á Brautarhóli sumar eftir sumar eða frá barnæsku fram að síðasta bekk í menntaskóla. Nafni hans Kristjánsson, bóndi, skólastjóri og guðfræðingur þar, taldi að frændinn ætti að finna sér eitthvað annað að fást við á sumrin að stúdentsprófi loknu.

Foreldrar Sigurðar Árna voru Svanfríður Guðný Kristjánsdóttir frá Brautarhóli og Þórður Halldórsson múrarameistari í Reykjavík, ætttaður af Kjalarnesi og úr Borgarfirði. Þórður fæddist í Litlabæ á Grímsstaðaholti í Reykjavík og Sigurður Árni býr í sama húsi ásamt fjölskyldu sinni.

Sigurður Árni hefur undanfarin tíu ár verið prestur í Neskirkju í Reykjavík en flutti sig um set núna í byrjun desember eftir að hafa verið valinn sóknarprestur safnaðar Hallgrímskirkju. Hann er þar samt á kunnuglegum slóðum eftir að hafa þjónað í afleysingum í Hallgrímskirkju síðari hluta árs 2003. Þar áður starfaði hann meðal annars sem verkefnisstjóri á vegum biskupsstofu og Þjóðkirkjunnar, fræðslustjóri þjóðgarðsins á Þingvöllum, rektor Skálholtsskóla, sóknarprestur í Staðarfellsprestakalli í Þingeyjarprófastdæmi og sóknarprestur í Ásaprestakalli í Skaftafellsprófastsdæmi.

Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands og doktorsprófi frá Vanderbiltháskóla í Nashville í Bandaríkjunum. Hann sóttist eftir því að verða biskup Íslands en beið lægri hlut fyrir Agnesi M. Sigurðardóttur.

„Kall tímans var kona,“ segir Sigurður Árni og bætir við. „Kirkjan á aldrei að vera ekkja tímans heldur fremur ljósmóðir.

Norður í sveitasæluna með Óskari Jóns

Sigurður Árni tveggja ára á Farmalnum í Brautarhóli.

Sigurður Árni tveggja ára á Farmalnum á Brautarhóli.

Sigurður Árni hefur sem sagt gengið á guðs vegum allan sinn starfsferil. Einu sinni var hann strákur í sveit á Brautarhóli og ætlaði sér að gerast bóndi í Svarfaðardal. Það gekk ekki eftir en hann segist vera bóndi í sér og fá útrás fyrir sveitamanninn með því að rækta grænmeti og ávexti í garðinum stóra heima. Hann er meira að segja sjálfbær með brenni í arininn sinn. Skógræktin á heimavelli gefur af sér nægan við til að nota í arineld á heimilinu.

Móðir hans fór sömu leið til að fá útrás fyrir sveitamanninn í sér. Hún trúði syni sínum fyrir því á gamalsaldri að hún hefði ekki þrifist í Reykjavík ef hún hefði ekki haft 1.600 fermetra lands til að rækta og selja grænmeti. Það gerði hún fram yfir nírætt. Ræktunarlandið hennar var í raun þrjár samliggjandi byggingarlóðir sem Þórður eignaðist og hefur væntanlega ætlað sér að byggja á hús en eiginkonan hafnaði því. Hún vildi ekki skipta út grænmeti fyrir steypu.

Dalurinn og himnaríki

„Mér þykir afar vænt um Svarfaðardal, hann kemst næst himnaríki á eftir kirkjunni!“ segir Sigurður Árni og leggur þunga í orð sín. „Ef fjallið Stóllinn, táknmynd Svarfaðardals, væri fótósjoppaður og teygður upp líktist hann talsvert Hallgrímskirkjuturni. Það er því ekki skrítið að Svarfdælingar finni sig heima á Skólavörðuholti.

Ég reyndi að komast í sauðburð á Brautarhóli um leið og skóla lauk á vorin. Yfirleitt fór ég norður í flutningabíl með Óskari Jónssyni. Það var gott og mikið sport að fá að sitja í hjá honum og ræða málin. Stórkostlegur maður. Meira að segja var koja í bílnum og hægt að leggja sig þar ef svo bar undir. Einu sinni fór ég með Catalína-flugbát norður. Við fórum í loftið á Skerjafirði og lentum á Pollinum á Akureyri.

Svo var ég sjálfsögðu í heyskap, göngum og réttum og reyndi að fresta því eins og framast var unnt að fara suður á haustin. Ég vildi enda á því að dreifa skít á tún og fór með síðan vélar og tæki í Svarfaðardalsá að skítmokstri loknum, þvoði allt saman og skildi eftir mig hreinar vélar og skarn á túnum.“

Sýslari skýtur því hér inn að Siggi Árni á Brautarhóli kom oft á fótboltaæfingar svarfdælskra gutta á Tungunum. Hann var jafnan valinn fyrstur þegar tveir fyrirliðar voru útnefndir til að skipa hópnum í lið. Menn vildu frekar hafa hann með sér en á móti, enda kunni sumarliðinn í Brautarhóli miklu meira fyrir sér í fótbolta en heimamenn.

Fjölsóttasti ferðamannastaður landsins

Sýslið bar að garði í Hallgrímskirkju í upphafi aðventu. Sigurður Árni var þá ekki tekinn formlega til starfa en var mættur á framtíðarvettvang sinn til að undirbúa starfsemina í desember.

Orgeltónar bárust um kirkjuna, Björn Steinar Sólbergsson var við æfingar og allt um kring voru erlendir ferðamenn á vappi. Túristum líkaði lífið og þeir ljósmynduðu af kappi. Organistann er örugglega að finna í tugþúsundum fjölskyldualbúma um víða veröld.

Margir gera sér ekki grein fyrir því en satt er það samt, Hallgrímskirkja er fjölsóttasti ferðamannastaður Íslands. Talið er að yfir hálf milljón manna komi þangað árlega til að skoða kirkjuna sjálfa og/eða fara upp í turninn til að njóta útsýnis yfir höfuðborgina.

Þessi staðreynd gerir Hallgrímskirkju sérstaka en fleira mætti til taka. Guðshúsið mikla, sem Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði 1937, var lengur í byggingu en nokkurt annað mannvirki á Íslandi. Framkvæmdir hófust 1945 og kirkjan var vígð 1986 á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar.

Aðeins Smáraturn er hærri á höfuðborgarsvæðinu

Hallgrímskirkja er eitt helsta kennileiti Reykjavíkur og turn hennar, 74,5 metra hár, er eitt hæsta mannvirki landsins. Turninn í Smáranum í Kópavogi er fimm metrum hærri og svo er auðvitað fjarskiptamastrið á Gufuskálum á Snæfellsnesi margfalt hærra en þessar byggingar tvær.

Kirkjan gæti rúmað 1.200 manns og í henni eru bekkirnir þannig að hægt er að snúa bökum fram eða aftur allt eftir því hvort á við messur og athafnir eða tónleika.

Það vekur líka athygli að gluggar kirkjunnar eru ekki steindir, eins og algengt er í kirkjum. Það kom til tals að hafa þarna steinda gluggana en frá því var horfið til að hindra ekki flæði ljóss inn í húsið. Þess vegna nýtur dagsbirtu óvenju vel í kirkjunni og það er til dæmis eitt af því sem erlendir ferðamenn taka eftir.

„Sumir erlendir ferðamannavefir kynna Hallgrímskirkju sem eina af merkilegustu kirkjum veraldar. Íslendingum leiðist ekki að eiga eitthvað á „topp-tíu listum“. Þessi kirkja er þar á meðal,“ segir Sigurður Árni. „Það þykir sérstök og sterk upplifun að koma hingað og skynja stórfengleika landsins í byggingunni sjálfri og í ljósi og litum innan dyra.

Útlendingar halda að kirkjan sé mun eldri en hún er og þeim kemur til dæmis á óvart þetta ljósahaf. Hallgrímskirkjusöfnuður vill ekki hafa kirkjuna sína myrka, dulræna og dularfulla, heldur bjarta – „katedral ljóssins“. Þess vegna eru hér ekki steindir gluggar.“

Í Hallgrímskirkju eru veislur alla daga

Fráfarandi og verðandi! Séra Jón Dalbú Hróbjartsson og séra Sigurður Árni Þórðarson. Jón Dalbú lét af prestsembætti í Hallgrímskirkju um mánaðarmótin nóvember/desember 2014 og séra Sigurður Árni tók við.

Séra Jón Dalbú Hróbjartsson var prestur í Hallgrímskirkju í 17 ár og kvaddi söfnuð sinn í október 2014.  Séra Sigurður Árni tók við embætti í kirkjunni í byrjun desember 2014.

Vissulega eru umskipti að koma úr Neskirkju í Hallgrímskirkju en ekki að öllu leyti. Til dæmis er líka mikill gestagangur alla daga í Neskirkju. Þar er mannlíf mikið og fjölbreytilegt, rekið kaffihús og súpueldhús. Sá er munurinn að í Hallgrímskirkju streyma að erlendir ferðamenn daginn langan og svo eru þar stanslaus veisluhöld. Svo segir að minnsta kosti nýi sóknarpresturinn.

„Veislurnar eru í öllu, bæði í listalífi og helgihaldi. Þeirri stefnu er fylgt að lyfta öllu upp og leyfa öllu þessu stórkostlega að koma inn, líka hvunndags. Veislan, borðhaldið, er grundvallaratriði kristninnar.

Ég hef þjónað hér áður og þekki rytmann; var hér í afleysingum 2003 og messaði þá um jól. Alls staðar er yndislegt að þjóna á jólum og alveg sérstaklega í Hallgrímskirkju.

Mér er sérstaklega minnisstæð miðnæturmessan á jólanótt 2003. Kirkjan var sneisafull, hátt í þúsund gestir. Þeir voru komnir til að taka þátt í helgihaldinu af innlifun og sungu með allan tímann. Þegar ég kom í predikunarstólinn fann ég bylgju rauðvínsgufu koma á móti mér. Það var svo eðlilegt, notalegt og heilagt!“

Fjölmenningarsamfélag miðborgarinnar

Hallgrímskirkjusöfnuður er fjölmenningarsamfélag. Sama á við um söfnuð Dómkirkjunnar. Það er nákvæmlega sama sagan og á við um borgir annars staðar á Norðurlöndum og víðar. Aðfluttir setjast að í miðborgum og aðhyllast gjarnan aðra trú. Breiðholtshverfin eru nokkuð blönduð að þessu leyti líka.

„Bakland Hallgrímskirkju er merkilegt og sérstakt þegar horft er til þess að einungis 52% fólks í hverfinu eru í Þjóðkirkjunni, mun lægra hlutfall en til dæmis í hverfi Neskirkju. Hingað koma múslimar, hindúar, búddistar og trúleysingjar í viðtöl, fólk sem treystir mér til að ræða við sig í einlægni og veit að Þjóðkirkjan er ekki ágeng.

Múslimar frá Tyrklandi voru með samkomu í Neskirkju á dögunum, sem er bæði eðlilegt og sjálfsagt. Ég er staðfastlega á þeirri skoðun að Þjóðkirkjan eigi einmitt að vera breið, kærleiksrík og slök. Hún axlar ábyrgð með því að vera víðfeðm.

Þjóðkirkjan þolir að segja við fólk sem kemur hingað og sest að: Verið velkomin til Íslands, við viljum vera bræður ykkar og systur.

Ég er málsvari þess að kirkjan lifi algjörlega í nútíðinni og sé tengd samtíma sínum. Hún á að vera málsvari réttlætis, til dæmis gagnvart málefnum samkynhneigðra, og taka þátt í baráttu fyrir umhverfisvernd.“

Breyttur heimur, breytt viðhorf

Fáum blöðum er um að fletta að þau sjónarmið, sem Sigurður Árni hér lýsir, eru umdeild innan þjóðkirkjunnar og voru notuð gegn honum í biskupskjörinu 2012. Kostuðu frjálslynd viðhorf hans það að hann er ekki biskup Íslands nú?

„Nei, nei. Mér var ekki hafnað. Samfélagsviðhorfin voru á þann veg að tími konu væri upp runninn og það er vel skiljanlegt. Kall tímans var kona! Ég vil veg kvenna sem mestan innan kirkjunnar og utan hennar. Nú er biskupskjörið hins vegar bara liðin tíð.

Þetta snerist ekki og snýst ekki um bókstafstrú, rétttrúnað eða frjálslyndi. Slíkar andstæður eru ekki fyrir hendi lengur. Heimurinn er breyttur. Verkefnið er að þjóna lífinu og þær áherslur aðhyllist ég.

Vissulega fékk ég á mig merkimiða róttækni, jafnvel í flokkspólitískum skilningi. Slíkt á bara ekki við, ég er handan-pólitískur og því ópólitískur. Trúin tengist lífinu, stendur með fólki, leitar réttláts samfélags og verndar náttúruna. Ég tengi mig við rót trúarinnar og vil þjóna Jesú.

Afstöðu annarra dæmi ég ekki. Þjóðkirkjan er stór og á að vera stór. Hún verður að þola mismunandi skoðanir og hefta hvorki skoðanir né umræður.

Prestar eiga fyrst og fremst að þjóna í krafti afstöðu sinnar til réttlætis og gefa fólki tæki og tól til að hugsa.“

Þingeyingar og altarisgangan

IMG_6619Er munur á kristnihaldi í sveit á Íslandi og á Skólavörðuholti í Reykjavík? Býr sóknarprestur í Hallgrímskirkju að reynslu úr Svarfaðardal, Þingeyjarsýslu og Skaftafellssýslu sem nýtist í lífi og starfi í stórum söfnuði í höfuðborginni?

„Já, hiklaust. Ég þekki lífið í dreifbýlinu afar vel eftir að hafa þjónað Bárðardal, Köldukinn og Ljósavatnsskarði frá Hálsi í Fnjóskadal og Álftaveri, Meðallandi og Skaftártungu frá Ásum í Skaftártungu. Ég þjónaði líka litlu samfélagi á Þingvöllum og var í Skálholti í nokkur ár, að ógleymdri dvölinni í Svarfaðardal.

Samfélagið til sveita er þéttriðið og þar þekkir presturinn flesta ef ekki alla. Nándin í dreifbýlinu er það sem ég vil gjarnan að sé fyrir hendi líka í starfinu í Reykjavík. Einstaklingurinn er algert dýrmæti og hefur mikið gildi. Hann verður að hafa á tilfinningunni að hann skipti öllu máli í tilverunni og að presturinn hafi næði og tíma til að sinna sér eins og þarf, jafnvel í smæstu málum. Þetta reyndi ég að taka með mér í starfið í borginni.

Ég fékk þjálfun og þroska hjá öllu þessu fólki og mótaðist í sveitamenningunni. Svo skrifaði ég doktorsritgerð um íslenska trúarhefð og fékk tækifæri til að spegla og prófa margt í siðfræði og trúarhugmyndum í því sem fólkið upplifði.

Kristnihaldið er svipað alls staðar á landinu. Fólkið iðkar trú sína með fegursta móti, án allra stæla. Blæbrigðamun er samt að finna. Til dæmis var afskaplega gaman að glíma við Þingeyinga. Bárðdælingar sögðu við mig þegar ég kom að Hálsi í Fnjóskadal: Prestur minn, við viljum fáar messur en góðar! Það þýddi í raun ekki annað en að þeir vildu góð tengsl við prestinn sinn og að kirkjulífið væri gefandi en ekki íþyngjandi.

Þingeyingar voru í fyrstu tregir til að ganga til altaris og virtust hafa þá unglingslegu trú að altarisganga væri einhvers konar ígildi mannáts með vísan til þess að messuvínið táknar blóð Krists og opblátan líkama Krists.

Eftir fyrstu altarisgönguna bað ég menn um að hjálpa mér að klára úr kaleiknum, enda vildi ég vera ökufær á heimleiðinni! Þingeyingar voru meira en til í það og sögðu að messuvínið væri bara ansi gott. Þar með var ísinn brotinn. Þeir voru bara ekki vanir altarisgöngu og viðhorf þeirra breyttist í kjölfarið.“

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s