Vatnsleka í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu var lýst í morgun með svo dramatísku orðfæri í Bylgjufréttum að búast mátti við því að mæta varðskipi á siglingu í kjallara hússins í kvöld. Þar var hins vegar ekki svo mikið sem krókabátur og hreinlega ekki dropi vatns á gólfi.
Um kjallarann bárust himneskir tónar. Kristjana Arngríms á Tjörn og áhöfn hennar æfðu fyrir Fríkirkjutónleikana annað kvöld, 17. desember.
Dívan á Tjörn hefur þar með tekið lagið í Hörpu og þar ætti hún auðvitað heima með tónleikana sína en í Fríkirkjuna liggur leiðin annað kvöld og þaðan fara menn ekki nema glaðir út aftur. Því má lofa.
Magnað var að hlýða á æfinguna í sal í kjallara í Hörpu þar sem trommur og alls kyns ásláttarhljóðfæri voru í hillum upp um alla veggi. Enn magnaðra verður þetta í kirkjunni við Reykjavíkurtjörn.
Eitthvað súrrealískt var við umgjörð æfingarinnar, hún hæfði á sinn hátt bílskúrsbandi en tónlistin var öllu hljómfegurri og fágaðri en berst úr bílskúrum svona yfirleitt.
Þetta verða í senn útgáfu- og jólatónleikar Kristjönu. Efnisskráin er að miklu leyti lög af nýja diskinum hennar sem kominn er í sölu og er spilaður mikið á báðum rásum Ríkisútvarpsins og víðar. Diskurinn er sérlega vel heppnaður í flottum umbúðum þar sem glerlistaverk Valgerðar Hafstað í gluggum Tjarnarkirkju og stjörnuloft kirkjunnar ramma allt saman inn.
Hver veit nema stjörnurnar í kirkjuloftinu hafi verið kveikjan að titillaginu á diskinum, Stjarnanna fjöld. Lag og texti er eftir Kristjönu sjálfa. Hvoru tveggja er afskaplega vel gert, grípandi og hátíðlegt.
Örn Eldjárn, sonur Kristjönu, útsetti tónlistina á diskinum, er tónlistarstjóri á tónleikunum og leikur á gítar. Ösp, systir hans, kemur fram líka og syngur með móður sinni. Dúettsöngur mæðgnanna er meira en næg ástæða til að mæta á þessa tónleika, hann var hreint gæsahúðardæmi á æfingunni í Hörpukjallara.
- Tónleikarnir hefjast í Fríkirkjunni kl. 20:30 miðvikudagskvöldið 17. desember.
- Aðgöngumiðar verða seldir þar við innganginn og í Kaffi Loka á Skólavörðuholti og diskurinn seldur á báðum stöðum.
- Lokahjónin Hrönn og Þórólfur bjóða Svarfdælingum að hita upp fyrir tónleikana með því að fá sér hátíðarplatta með fíneríi (hangikjötstartar og kaniljólasíld á rúgbrauði, reyktan silung með dillsósu, sjávarréttagratín og rúgbrauðsís ofan á allt saman. Þetta kostar skitnar 2.800 krónur á Svarfdælagengi íslenskrar krónu og svo fæst Jólakaldi með fyrir 700 krónur).
- Seinni jóla- og útgáfutónleikar Kristjönu verða í Dalvíkurkirkju á föstudagskvöldið kemur, 19. desember, kl. 20:30. Forsala aðgöngumiða í Samkaupi Úrvali á Dalvík og Pennanum á Akureyri.
Jón Rafnsson bassaleikari er í bandinu sem spilar með Kristjönu & Co á tónleikunum. Hann er líka útgefandi disksins hennar nýja eða öllu heldur útgáfufyrirtækið hans, JR music ehf. Fyrirtækið Jóns verður verður tíu ára á næsta ári og jóladiskur dívunnar á Tjörn er númer 12 í útgáfuröðinni.
Aðrir hljóðfæraleikarar í Fríkirkjunnu verða Frank Aarnink á slagverk, Rúnar Vilbergsson á fagott, Emil Friðfinnsson á horn, Örnólfur Kristjánsson á selló og Lára Sóley Jóhannsdóttir á fiðlu. Þrír úr hópnum eru fastráðnir í Sinfóníuhljómsveit Íslands: Frank, Rúnar og Emil.
Það verður því valinn maður í hverju rúmi … koma svo!