Sigríður Jódís Gunnarsdóttir tók í mars 2014 við starfi verslunarstjóra í kvennadeild Gallerí 17, flaggskipi viðskiptaveldis sem Svava Johansen lagði grunn að á sínum tíma. Sigríður Jódís auglýsir sjálf vörurnar í versluninni. Síðast en ekki síst er hún alveg augljóslega ættuð úr Ytra-Garðshorni.

Gallerí 17 í Kringlunni. Verslunarstjórinn fjær á miðri mynd sem tekin var að morgni þegar verið var að opna. Nokkru síðar var allt orðið fullt af viðskiptavinum …
Athafnakonan Svava Johansen lagði grunn að stórveldi sínu í viðskiptum með föt, skó og margt fleira með því að taka við rekstri Gallerí 17 í Reykjavík, ásamt Bolla Kristinssyni, þáverandi eiginmanni sínum, árið 1983 og rífa þann rekstur upp. Gallerí 17 var þá lítil verslun sem starfrækt hafði verið frá 1976.
Síðan þá hefur drjúgt af vatni runnið til sjávar og Gallerí 17 er nú hluti af NTC, samstæðu sem á og rekur sextán verslanir í Kringlunni, Smáralind og við Laugaveg, saumastofu í Reykjavík, eigin fataframleiðslu erlendis og heildverslun sem sér mörgun tískuvöruverslunum á landsbyggðinni fyrir fatnaði.
Gallerí 17 er tvímælalaust flaggskip og langþekktasta rekstrareining NTC-samstæðunnar. Svava Johansen er oftar en ekki kennd við Sautján þegar hennar er getið í fjölmiðlum eða manna á meðal. Það er henni síður en svo á móti skapi, enda minnir hún sjálf á þennan uppruna sinn með því að aka um á bíl með skráningarnúmerinu S17.
Langyngst í snyrtifræðinni
Sigríður Jódís er mjög meðvituð um sterka ímynd Gallerí 17 í viðskiptaflóru landsins og leggur sjálf beinlínis lóð á vogarskálar í þágu þess að skerpa þá ímynd enn frekar með því að sitja fyrir á myndum til að kynna og auglýsa föt sem seld eru í versluninni. Sterkt svipmót Garðshyrnings fangar athygli og selur.
Hún er Svarfdælingur og Siglfirðingur til helminga, ef fylgt er ströngustu reglum upprunavottunar, dóttir Önnu Sigríðar Hjaltadóttur frá Ytra-Garðshorni og Gunnars Aðalbjörnssonar frá Siglufirði. Þau eru búsett í Vestmannaeyjum og starfa bæði sem yfirmenn í Vinnslustöðinni en eiga jafnframt heimili í Haukafelli á Dalvík.
Sigríður Jódís ólst upp á Dalvík og lauk þar grunnskóla. Þaðan lá leiðin í Menntaskólann á Akureyri en nám í snyrtifræði fyrir sunnan togaði í hana. Ekki var hlaupið að því að komast að til að stúdera snyrtifræðin en svo fór að hún var tekin inn á óskanámsbrautina sína í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Þaðan lauk hún stúdentsprófi árið 2012.
„Ég hafði einfaldlega mestan áhuga á að læra snyrtifræði og var heppinn að komast að í Breiðholti, þar ég langyngsti nemandinn í faginu. Á Akureyri vann ég með skóla hjá Steina í Gallerí og þegar ég flutti suður lá beint við að leita eftir verslunarvinnu með skólanum.
Fljótlega fékk ég starf í Smash í Smáralind, verslun sem NTC á. Þaðan fór ég í Gallerí 17 í Smáralind og svo hingað í Gallerí 17 í Kringlunni fyrir næstum því tveimur árum og er orðinn verslunarstjóri kvennamegin í búðinni.
Ég hef alltaf haft áhuga fyrir fötum og gat að minnsta kosti unnið fyrir eigin klæðnaði með því að taka vaktir aðra hverja helgi á meðan ég var í Fjölbrautarskólanum!“
Markaðurinn stækkaður með vefverslun
Sigríður Jódís var að opna verslunina klukkan 10 að morgni fimmtudags 4. desember, þegar Sýslið bar að garði. Morgnar eru jafnan rólegir tímar, jafnvel á aðventunni. Þegar líða tekur á daginn fyllist verslunin af fólki að skoða, máta og kaupa. Opið er til kl. 18:30 en 21 á fimmtudagskvöldum. Bráðum verður daglegur afgreiðslutími lengdur til 22 fram að jólum og þá fer að hitna verulega í verslunarkolunum.
Jólaverslunin er komin á þungan skrið í Kringlunni og langir vinnudagar starfsfólks verslana en það lætur sig hafa’ða. Aðventuerlinum fylgir nefnilega stemning og notalegheit sem menn hlakka árið um kring til að upplifa aftur og aftur.
Verslunarstjórinn notar auðvitað tækifærið til að koma því á framfæri að þeir sem komist ekki inn á gólf til sín í Kringlunni geti einfaldlega farið á Vefinn í tölvunni og keypt þar föt og fleira á ntc.is, vef sem NTC opnaði núna í byrjun desember.
„Við ákváðum að taka þjónustu við landsbyggðina föstum og markvissum tökum með því að opna vefverslun og stækka þar með markaðssvæðið okkar. Þetta kunna viðskiptavinir okkar utan höfuðborgarsvæðisins greinilega vel að meta.
Það skiptir reyndar verulegu máli að nýta samfélagsmiðla til að kynna vörurnar okkar og þjónustu yfirleitt. Þess vegna notum við Instagram mikið til þess að sýna nýjustu vörurnar.
Margir eru farnir að nota þessa leið til að velja gjafir handa börnum og barnabörnum. Krakkarnir koma jafnvel og máta og foreldrarnir vita þá réttu stærðirnar. Þeir sjá flíkurnar í tölvunum og geta síðan komið og keypt föt sem vitað að falli í kramið.
Á dögunum vorum við með kjól sem hékk á slá og hreyfðist ekki í fjóra daga en um leið og við sýndum hann á Instagram seldust ein tíu stykki samdægurs.
Þessi kynningarleið gagnast bæði okkur og viðskiptavinum. Við náum til miklu fleira fólks en hefur tök á að koma hingað í heimsókn.“
Glimmertíminn fer í hönd
Sigríður Jódís er komin í þá stöðu að taka þátt í að kaupa inn erlendis frá það sem hún síðar selur í versluninni. Svo eru dæmi um flíkur í Gallerí 17 sem eru hannaðar innan fyrirtækisins og framleiddar aðallega í Frakklandi til sölu hér heima. Íslenski fatnaðurinn er markaðssettur undir merkinu MOSS; „klassískar flíkur sem henta öllum konum,“ segir verslunarstjórinn.
„Við fáum mikið af vörum frá Danmörku og Svíþjóð en þær koma víðar að. Verslunarstjórar Gallerí 17 í Kringlunni og Smáralind velja það sem við seljum ásamt rekstrarstjóra NTC. Sumt kaupum við eftir myndum og upplýsingum sem berast að utan en annars förum við til út til innkaupa, oft til Kaupmannahafnar en líka til Lundúna, Berlínar og Parísar.“
Svo mikið veit Sýslið um fatabransann að tískustraumar eru kenndir við árstíðir. Það hét í sveitinni að klæða sig eftir veðri en í tískuheiminum er lífið ekki alveg svo einfalt.
Á daginn kemur svo að til er nokkuð sem heimfæra má upp á jólatísku.
„Já, já. Pallíettur og glimmer. Margir verða mjög heitir fyrir pallíettum og alls kyns glingri um jól og áramót. Það má kallast jólatíska. Svo er loð um háls og höfuð vinsælt til jólagjafa, sígildar vörur en sérstaklega eftirsóttar á þessum árstíma.“
– Föt kosta skildinginn, þarf ekki að hafa fulla vasa fjár til að hlýða kalli tískunnar í klæðaburði árið um kring?
„Nei,“ svarar verslunarstjórinn að bragði MJÖG ákveðið.
„Það er auðvitað vandalaust að finna dýr merkjaföt en þú finnur líka auðveldlega ódýr föt hérna ef þú lítur í kringum þig.
Aðalatriðið er að vera skynsamur í fatakaupum. Ég vel sjálf þægindi og gæði framar öðru og þá segir krónutalan ekki endilega nema hálfa söguna og varla það.
Þegar upp er staðið er mun hagstæðara að kaupa til dæmis flíkur sem hægt er að þvo aftur og aftur án þess að sjái á þeim frekar en að að spara þúsundkalla með því að kaupa ódýrari flíkur sem verða orðnar þvældar, lúnar og ósjálegar eftir þrjá þvotta.“