Jólin komu til Heiðmerkur með Dalvíkurtrénu

Staðlað

1-litlaBrostin eru á jól í Heiðmörk, þökk sé félagsskap með löngu nafni, Gönguhópnum Sporinu – líknarfélagi og saumaklúbbi. Að lokinni hefðbundinni gönguferð að morgni laugardags var heiðurstré Sporsins fært í jólabúninginn.

IMG_6837Þetta mun vera í tíunda sinn sem gönguhópur brottfluttra Dalvíkinga og viðhengja þeirra skrýðir fósturgrenitré sitt nálægt borgarstjóraplaninu í Heiðmörk. Gæti verið níunda skipti, gæti verið ellefta skipti; sagnfræðin er ekki alveg á hreinu svo við segjum bara að áratugur sé liðinn frá fyrsta uppátækinu af þessu tagi.

Sagnfræðilega er hins vegar alveg á hreinu að frumkvöðull Sporsins fór upphaflega að ganga af sér brennivínsþorsta, einn síns liðs í Heiðmörk fyrir fjórtán árum. Svo fékk frumkvöðullinn frænda sinn með sér og lét hann ganga af sér aukakíló.

Þorsti og flesk gufuðu upp á stígum Heiðmerkur og einn góðan göngudag ákváðu frændurnir að taka í fóstur ræfilslegt grenitré við farinn veg, gáfu því skít að nærast á og sögðu því ýkjusögur af Svarfdælingum. Tréð braggaðist hratt og vel af hvorutveggja.

Verkefni fyrir gæsluþyrluna í framtíðinni

IMG_6820Í upphafi náði tréð frumkvöðli Sporsins í nef en nú er það orðið svo hátt að ferja þarf tröppur og stiga úr bænum til að ná til topps og binda þar rauða slaufu. Í ár var og fenginn nær tveggja metra maður af svarfdælskum meiði til að föndra við skreytingar í efstu greinum.

Vandræði blasa við í náinni framtíð. Eftir fáein ár verður þyrla Landhelgisgæslunnar ræst út til skreytingarstarfa. Þar er flugmaður starfandi, ættaður frá Dalvík. Ábyggilega vel þegið æfingaverkefni fyrir Gæsluna að hengja kúlur á jólatré úr lofti. Vélbyssur óþarfar.

Barnabarnaviðrun

Skreyting í Heiðmörk er umfangsmikið verkefni og tekur drjúgan tíma. Tjágreinum fjölgar ár frá ári og jólakúlum fjölgar að sama skapi.

Yfirlýst markmið er að ofhlaða tréð skrauti og við það var staðið í ár.

Verkið hófst í þreifandi myrkri en endaði í björtu. Þessi vettvangur er kjörinn til að viðra barnabörn og það var gert í dag. Ungviðið kann vel að meta jólaundirbúning af þessu tagi.

Eini fjórfætti Sporsliðinn, Geisli hundur, var sérlega upprifinn og glaður, enda úðuðu börnin í hann laufabrauði og sætindum af aðventuborði Sporsins. Geisli er nú vafalaust með innantökur og steinsmugu í tilefni dagsins. Honum var nær.

Að sjálfsögðu tilheyrir að dekka borð og bjóða upp á súkkulaði með rjóma, smákökur og laufabrauð – sem var með kúmeni og fær fyrstu ágætiseinkunn.

Norðurlandsrjóður

Grímseyjarhríslan. Sú mun braggast í umsjá Sporsins.

Grímseyjarhríslan. Sú mun braggast í umsjá Sporsins.

Brotið var blað í dag með því að skreytt voru alls þrjú tré. Dekurtré Dalvíkinga fékk að sjálfsögðu alla athygli og skraut sem máli skiptir en hengdar voru líka nokkrar kúlur á mjóslegið granntré og það tileinkað Hríseyingum.

Innar í rjóðrinu stendur veimiltítuleg hrísla sem langar til að fullorðnast og verða alvöru tré. Á hana voru sömuleiðis hengdar kúlur og hún tileinkuð Grímseyingum.

Dalvíkingar færa því út kvíar frekar en hitt í Heiðmörk. Dalvík, Hrísey og Grímsey í sama rjóðri. Gleðileg aðventa þar og blasir við öllum sem um stíginn fara.

Sporið óttast hvergi djúpar lægðir

Dalvík til vinstri, Hrísey til hægri og innar, mitt á milli kúrir Grímsey.

Dalvík til vinstri, Hrísey til hægri og innar, mitt á milli kúrir Grímsey.

Spáð er fárviðri víða um land á næsta sólarhring og einhverjir lesendur velta fyrir sér hvað verði þá um skrautið á Norðurlandstrjám Heiðmerkur. Eitthvað fýkur kannski en bætt verður úr því.

Dalvíkurtréð er í staðfastri gæslu árið um kring en á aðventunni og fram til þrettánda dags jóla vakir Sporið sérstaklega vel yfir þessum þögla liðsmanni sínum. Þá er tréð nánast í gjörgæslu.

Höggvi óveður skörð í skrautið fyllir Sporið í þau þegar lygnir á nýjan leik.

Líknarfélagið óttast ekki djúpar lægðir.

  • Uppfært fullveldisdaginn 1. desember kl.13:00

IMG_3254Dalvíkurtréð stóð af sér storminn með glæsibrag. Lægðin djúpa reitti samt af því ögn af skrauti, eins og við mátti búast. Þetta kom ljós þegar trésins var vitjað í dag.

Alls fundust hátt í 20 kúlur og fleira skraut í snjónum hingað og þangað. Grímseyjarhríslan stóð nakin eftir bálviðrið, af henni fauk allt, enda ungviði og veikburða eftir því.

Eitthvað hafði kúlum fækkað á Hríseyjartrénu en aðallega á flaggskipinu í rjóðrinu, sjálfu Dalvíkurtrénu. Kom sér vel að það var ofhlaðið glingri á laugardaginn og yfirdrifið nóg hangir á því enn, þrátt fyrir allt.

Framar öllu hefur hefur snjóað í Heiðmörk og við blasir alvöru jólatré í fullum skrúða, keikt eftir fullveldisfárviðrið.

2 athugasemdir við “Jólin komu til Heiðmerkur með Dalvíkurtrénu

  1. Gott kvöld,
    Gróa heiti ég og er leiðsögumaður hjá Ferðafélagi Íslands. Við erum að fara að auglýsa aðventugöngu hjá FÍ og mig vantar mynd/ir frá Heiðmörk. Mætti ég fá að nota eitthvað af þessum myndum hér fyrir ofan?
    Kær kveðja,
    Gróa Másdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s