Syngur og hrærist í veröld séra Bjarna

Staðlað

petur_litilPétur Húni Björnsson var löngum stundum eini strákurinn í Kór Dalvíkurskóla og lærði söng hjá Jóhanni Dan. Hann snarþagnaði laust eftir fermingu og hóf ekki upp raust sína aftur fyrr en á fertugsaldri en þá svo munaði.

Nú er hann útlærður óperusöngvari og í forsöngvarahlutverki á nýjum diski Kórs Dalvíkurkirkju.

 

 

diskurinnKór Dalvíkurkirkju ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Hann hefur hljóðritað og gefið út Íslenskan hátíðasöng séra Bjarna Þorsteinssonar, prest Siglfirðinga í 47 ár, frá 1888 til 1935, verk sem Pétur Húni segir að sé einstakt í íslenskri tónlistarsögu. Sá ætti að vita hvað hann syngur eftir að hafa pælt fræðilega í verkinu og uppbyggingu þess og reynt að meta hvernig höfundur samdi það og hugsaði í upphafi.

Pétur Húni tenór og Helena G. Bjarnadóttir sópran eru forsöngvarar á nýja diskinum og hann skrifar um Íslenskan hátíðasöng í afar fróðlegu bókarkorni sem diskinum fylgir.

Þjóðfræðiritgerð um þjóðlagasöfnun Siglufjarðarprests

bjarni

Séra Bjarni Þorsteinsson.

Fjarri fer því að Pétur hafi þar með sagt skilið við höfund hátíðasöngsins því hann hyggst skrifa BA-ritgerð í þjóðfræði í Háskóla Íslands um þjóðlagasafnarann Bjarna Þorsteinsson. Hann hyggst rýna vel í vinnu Siglufjarðarprests og aðdraganda að útgáfu þjóðlagasafns hans, bókar upp á um þúsund blaðsíður!

„Séra Bjarni var auðvitað stórmerkilegur maður og í raun heppinn að fá embætti á Siglufirði, 300 manna sjávarþorpi sem óx og dafnaði gríðarlega og var orðið um 3.000 manna pláss þegar hann lést. Bjarni var stórhuga og gat raunar gert það sem honum sýndist í krafti stöðu sinnar. Útgáfa þjóðlagasafnsins var ekkert smáræðis þrekvirki. Alþingi Íslendinga vildi ekki koma nálægt því ævintýri með fjárstuðningi en þá fékk prestur danska Carlsberg-sjóðinn til að leggjast með sér á árar.

Ég ætla í þjóðfræðirannsókninni að kanna handritin að þjóðlagasafni séra Bjarna og samskipti hans við heimildarmenn sína. Tæpast var auðvelt að fá fólk um allt land sem kunni að skrifa nótur. Það var samt forsenda fyrir því að geta skráð lög og senda til Siglufjarðar. Hvernig nálgaðist hann verkefnið? Hvernig gat hann yfirleitt afrekað þetta allt saman?“

Neistinn kviknaði aftur í kvæðamannafélagi

Pétur Húni ólst upp á Dalvík, sonur Svanfríðar Jónasdóttur, fyrrverandi bæjarstjóra Dalvíkurbyggðar og verðandi ráðgjafa. Stjúpfaðir hans er Jóhann Antonsson, formaður Kórs Dalvíkurkirkju. Þau syngja bæði í kórnum og það hefur Pétur líka oft gert í seinni tíð og komið fram á tónleikum á Dalvík, gjarnan á milli jóla og nýárs.

petur_stand

Pétur Húni og Bændahöllin í baksýn.

Jóhann Daníelsson sá snemma söngvaraefni í pilti og hélt honum staðfastlega í barnakórnum í Dalvíkurskóla, sem oft var í raun stúlknakór + Pétur! Svo fór piltur í mútur og hætti alveg að syngja svo árum skipti.

Í fjölskylduranni hans á Dalvík og í Svarfaðardal var margt áberandi söng- og tónlistarfólk og í fjölskyldu blóðföður hans á Grenivík var nú aldeilis sönglegt um að litast: sjálfir „Konnararnir“ – Jóhann Konráðsson stórsöngvari á Akureyri og afkomendur hans.

Pétur fékk að heyra það sem strákur að hann ætti að rækta röddina sína til söngs og var meðal annars sendur til Reykjavíkur að hlusta á Kristján Jóhannsson, frænda sinn, syngja La Boheme.

Þannig átti að vekja áhuga hjá stráknum en bragðið virkaði öfugt. Pétri leist ekkert á blikuna. Hann þagnaði og þagði lengi eða í hálfan annan áratug. Þá fékk hann allt í einu áhuga á rímum og fór að kveða hjá Steindóri Andersen og félögum í Kvæðamannafélaginu Iðunni. Þar kviknaði neistinn á ný. Leiðin lá í karlakór og síðan í söngnám. Þeim kafla ferilsins lauk með útskrift úr Söngskóla Sigurðar Demetz. Aðalkennari hans var Kristján frændi Jóhannsson.

Jarðarfarir helsti starfsvettvangur söngvara

Pétur hefur einnig sótt tíma hjá Jóni Þorsteinssyni frá Ólafsfirði sem um árabil hefur búið í Hollandi og verið þar háttskrifaður óperusöngvari og síðan söngkennari.

„Nonni Fríðu er toppmaður og frábær söngvari og þá sérstaklega kirkjusöngvari. Hann er að gera stóra hluti í Hollandi en af því vita alltof fáir á Íslandi. Fjölmiðlar eru miklu duglegri við að segja okkur hvaða Íslendingar sitja á hverjum tíma á varamannabekk einhverra þriðjudeildarliða í fótboltaleikjum í Noregi!“ sagði verðandi þjóðfræðingur yfir bolla í kaffihúsi Þjóðminjasafnsins. Við löptum Latte til að standa undir nafni skrafara í 101 Reykjavík.

Hann var að koma beint út jarðarför í Neskirkju. Jarðarfarir eru helsti starfsvettvangur atvinnusöngvara en Pétur er líka í kjarnakór Íslensku óperunnnar og stígur oft á svið með Óperunni í Hörpu. Hann er annars í hálfu starfi nýmiðlunarvefara hjá Vodafone og hefur verið um árabil.

Víkur þá sögu á ný norður í mynni Svarfaðardals og til Kórs Dalvíkurkirkju.

Aldrei heyrst fyrr sungið sem ein heild

korinn

Kór Dalvíkurkirkju. Mynd úr bókinni sem fylgir diskinum.

„Margt tvinnaðist saman í þá hugmynd að taka upp og gefa út Íslenska hátíðasönginn. Tilefnið var tímamót í starfi Kórs Dalvíkurkirkju þegar stjórnandinn, Hlín Torfadóttir, ákvað að hætta eftir langt og farsælt starf. Hátíðasöngurinn hefur alltaf verið hluti af kirkjulegum athöfum á stórhátíðum í byggðarlaginu og víða um land. Hann er því vel þekktur að stórum hluta, einkum það sem tilheyrir guðsþjónustum um jól og páska. Fólk þekkir þetta hins vegar aðallega sungið í bútum eða einstökum línum en ekki sem heild fyrr en nú. Þess vegna er útgáfan einstök og söguleg.

petur_inniÞegar við höfðum hljóðritað verkið sungum við það á Dalvík, Siglufirði og Akureyri. Þá gerðist það sem ég gældi við að gæti gerst. Hátíðasöngurinn virkaði sem konsertmúsik, brotin röðuðust saman í heildarmynd. Við upplifðum að við værum að flytja magnað tónverk sem gengur allt upp sem tónfræðileg heild og er í raun sambærilegt við uppbyggingu messu eftir Mozart.

Það er hreint ekki auðvelt að flytja þetta, allt frekar hátt, enda hefur Séra Bjarni sjálfsagt verið tenór eða mjög hár barítón. Heyrt hef ég um fólk í kirkjukórum kvíða því að syngja hallelúja við jólamessur, þar sem hver röddin kemur inn á fætur annarri og ýmsir fara flatt á því. Ég veit að foreldrar mínir á Dalvík, Svanfríður og Jóhann, hafa skemmt sér við það á hlakkandanum* að syngja þetta ásamt vinafólki sínu og þá gjarnan með Hjöra á Tjörn í hlutverki prestsins!“

  • Íslenskur hátíðasöngur í flutningi Kórs Dalvíkurkirkju fæst í Eymundson og Tólf tónum í Reykjavík. Áhugamenn geta líka haft samband við Jóhann í síma 894 1861 – ja@rimar.is og Marín í síma 690 3906 – ffmj@internet.is.
  • Þetta er víxlsöngur prests og safnaðar á þremur stórhátíðum og nýársdag, á jólanótt, nýársnótt og föstudaginn langa.
  • Stjórnandi Hlín Torfadóttir, organisti Eyþór Ingi Jónsson.
  • Diskinum fylgir bók með textum, formála séra Bjarna Þorsteinssonar og stuttum ritgerðum um Íslenskan hátíðasöng eftir Pétur Húna Björnsson, um séra Bjarna eftir Sverri Pál Erlendsson og um organista og kóra í Svarfaðardal eftir Jóhann Antonsson.
  • Hljóðritað í Dalvíkurkirkju í maí 2014 undir stjórn Gunnars Smára Helgasonar.
*Fróðleiksmoli

„22. desember má búast við Gáttaþef. Hann er með stórt nef og finnst óskaplega góð laufabrauðs- og kökulyktin þegar verið er að baka fyrir jólin. Af og til hefur hann líka reynt að hnupla einni og einni köku. Þess má geta að 22. desember var stundum kallaður hlakkandi því þá voru börnin farin að hlakka svo mikið til jólanna.“ 

Heimild: Vísindavefurinn

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s