Sindri Heimisson, sonur Dalsins og Víkurinnar, er loksins kominn bæði til vits og ára. Hann bauð til fagnaðar í Valsheimilinu í tilefni af fimmtugsafmæli sínu. Sindri er og verður leiðtogi Svarfdælingafélagsins í Reykjavík um ókomna tíð.
Sveitungi Sindra, Hjálmar Hjálmarsson leikari – Hjalli Bomma, var veislustjóri og fór á kostum. Meira að segja sjálfur Megas mætti á svæðið og lés ljós sitt skína – í gegnum veislustjórann. Orðaskil var að vísu ekki auðvelt að greina, sem er ekkert nýtt. Það þarf að reiða sig á höpp og glöpp til að skilja það sem hinn raunverulegi Megas segir.
Veislur fara gjarnan rólega af stað skjálftavirkni eykst þegar líður á kvöld og nóttu. Samkoma Sindra hófst hins vegar með meiri hræringum en mælast í Bárðarbungu og þarf talsvert til. Stuðmennirnir Jakob Frímann og Valgeir tróðu upp, stjórnuðu sönghaldi og fluttu lífseig lög úr eigin ranni. Börn Sindra og Möttu stigu með þeim á svið líka og sungu. Alveg rafmagnað dæmi.
Bítlaskógur – nýtt örnefni í Dalnum
Margir gera tilkall til að vera Svarfdælingar og fara sumir ótroðnar slóðir í þeim efnum. Jakob Frímann lét þess til dæmis getið á milli laga að hann ætti skóg í Svarfaðardal, nánar tekið við fjallsrætur í Laugahlíð, ofan bústaðar Sigurðar Marinóssonar. Afi Stuðmannsins, Jakob Frímannsson kaupfélagsstjóri á Akureyri, plantaði þarna hríslum fyrir einum mannsaldri og það var upphafið að skógarreitnum í landi Laugahlíðar. Reiturinn var jafnan kenndur við stofnanda sinn og kallaður Jakobsreitur. Jakob Frímann segist hins vegar kalla þessa eign sína Bítlaskóginn. Það er örnefni í miðsveitinni sem skrifari hefur ekki heyrt fyrr og kemur því hér með á spjöld sögunnar. Stuðmaðurinn má gjarnan kalla sig Svarfdæling út á Bítlaskóg en hann mætti þá líka hirða ögn betur um gróðurreit sem ber svo virðulegt nafn …
Guðspjallamaðurinn Sindri
Sindri var síðan borinn lofi í bundnu og óbundnu mál langt fram eftir kvöldi og stendur undir öllu því sem um hann var sagt og meira til. Þar bar trúlega hæst (í guðlegum efnum) limrur Pálma R. Péturssonar, samstúdents afmælisbarnsins í Menntaskólanum á Akureyri. Kristján Vigfússon fór vítt um völl og staldraði sérstaklega við árið 1979 á Dalvík. Sjá nánar neðan við myndasafnið.
Hér er fjallað um leiðtoga Suðursvarfdælinga í svipuðum anda og vikið er í guðspjallamönnum í heilagri ritningu. Sindri stendur undir því líka. Veislustjórinn missti sig reyndar ögn í afkynningunni og gerði athugasemd við næstsíðustu ljóðlínuna þar sem Svarfaðardalur er hafinn til skýja og Dalvík kölluð „svolítil vík þar hjá“.
Engar ákúrur fær ljóðskáldið hér í Sýslinu en skrifari tók hins vegar eftir því að veislustjórinn talaði um „sundskálann á Dalvík“ þegar hann vísaði til þess að afmælisbarnið væri afkomandi frumkvöðuls sundiðkunar í byggðarlaginu, Kidda Sund, og hefði tekið fyrstu sundtökin í Sundlaug Svarfdæla. Enginn mannlegur máttur færir sundskálann niður á Böggvistaðasand. Þá er allt eins hægt að segja að Mývatn sé í Biskupstungum.
Sýslið er gefið fyrir guðspjöllin eins og allir vita. Pálmi R. Pétursson veitti ljúfmannlegt leyfi fyrir því að innleggið hans birst á þessum vettvangi.
Inngangur og limrur Pálma R.
Á austanverðum Tröllaskaga opnast dalur út í vík. Dalur þessi er alldjúpur og vitur, djúpvitur. Þar ku krækiberin vera stærri, svartari og sætari, já og að sumra mati eru bláberin líka blárri og svolítið meira aðal en í öðrum dölum þessa lands.
Há fjöll girða dalinn af og er eitt hið tilkomumesta Stóllinn sem rís upp frá dalbotninum miðjum. Svarfaðardalsá klýfur dalinn og skiptir bæjum í tvær fylkingar.
Ábúendur eru frægir að endemum, listamenn, meistarar og mannvitsbrekkur.
Þar sindra stjörnur á vetrarhimni og stillur geta orðið svo miklar að engu er líkara en tíminn sjálfur standi þar í stað.
Í fyrrnefnda vík hefur dalurinn skilað mörgum til manns, einnig þeim er við mærum hér í Valshöllu í kvöld.
…
Sindri af Svarfaðardal
er sérstakt eintak af hal.
Tónelskur afi
það er tæplega vafi
að í tuðrunni hann heldur með Val.
…
Af guðlegum grammófóni
glæðist heimsbyggðin sóni.
Til heilla þeim hal
úr háfjallasal
er himneskum syngur með tóni.
…
Það er leitun að ljúfari pilti
en lofgjörðin betur hér gilti.
En söngelskum hal
úr Svarfaðardal
er slaghörpu lífsins vel stillti.
…
Fyrirgefið hvað ég færi í tal
og fimmtugan mæri nú hal.
Með sóma er gerður
og sóma er verður
Sindri af Svarfaðardal.
…
Því Sindri er Svarfaðardalur
og svolítil vík þar hjá.
Óvenju heilsteyptur halur
sem helst ekkert aumt má sjá.
Kristján Vigfússon fór vítt um völl í ávarpi sínu á afmælissamkomunni. Þar dró hann meðal annars upp skondna mynd úr byggðarlaginu 1979, árið sem Sindri Heimisson kom í skóla á Dalvík frá Húsabakka. Sýslið fékk að birta romsuna.
„Já við strákarnir sátum uppi með þessa sendingu úr sveitinni frá Húsabakka sumarið 1979.
Sumarið 1979 – þetta var blús maður. Björgvin, Björgúlfur, Dalborgin, Bliki, Stebbi Rögg, Vinurinn, Sæljónið, Sænes, Bjarmi, Otur, búið á hverjum bæ í sveitinni – trillukarlarnir, Gunnar í Sæbakka, Kiddi Romm, Árni Lár, Toni í Lundi, Árni Guð, Tóti Múrari, Raggi póstur, Hartmann og Palli, Kristján stýrði Kaupfélaginu og bændunum, Kiddi G sá um sláturhúsið og Sigmar Sævalds sveið kindahausa, stýrimannaskóli á staðnum, Lillendals í apótekinu, Daníel læknir og Dýrleif í Árgerði, Stína var á Stöðinni, Bára í Bárubúðinni, Dóri var í löggunni, dalvískar kvennhetjur söltuðu og stóðu við færibandið í frystihúsinu. Bónusinn var kominn og við strákanir fengum bara að stála fyrir stelpurnar. Bubbi og Ísbjarnarblúsinn.
Salthúsið, slorið, Söltunarfélagið, rækjuverksmiðjan, Jói bók var í bókabúðinni, Hjalti með bíó, Jón á Skeiði stóð vaktina í beinaverksmiðjunni, olíutankarnir – utanbærinn og sunnanbærinn, Hólahátíðir, Stekkjarhús, Sundskálinn, síldarvalsinn hans Halla á Barði, Jói Dan söng „Þetta er dalurinn minn“, Svansa og Fríða sáu um lagningar og strípur, bílaverkstæðið blómstraði með berar konur uppi á veggjum – Siggi á Sigurhæðum og Maggi Mæju framleiddu steypu og Tréverk byggði hvert húsið á fætur öðru, Netverkstæðið með sínum goðsögnum, dreifðum áburði með strákunum úr sveitinni, Jón Halldórs opnaði lyftuna þetta ár og kenndi okkur að synda, Gunnella og Sæmundur kenndu okkur eðlisfræði og íslensku, böllin i Víkurröst um aðra hverja helgi og á Grundinni hina – börðumst við Ólafsfirðinga – það áttu allir kindur H -100 og Sjallinn og við fengum borgað í beinhörðum peningum en ekki bara úttekt í kaupfélaginu …
Lettinn og loðvestið beið í bílskúrnum í Dalsmynni … og titraði eins og blóðið í æðum okkar —- nafli alheimsins.
Ég veit ekki með hagvöxtinn en það var mannlíf….
Og nú er ekkert nema Promens og Samherji.“