„Við tökum við bílum af öllum gerðum, bara að þeir séu ekki of stórir til að komast um dyrnar inn á gólf,“ segir Jón Björn Hjálmarsson, Jónbi Bomma frá Dalvík. Hann á og rekur Bifreiðaverkstæði Hafnarfjarðar að Drangahrauni 2, hefur tvo bifvélavirkja í vinnu hjá sér og gerir við bíla viðskiptavina frá Snæfellsnesi í vestri til Borgarfjarðar eystri í austri!
Svo vill til að á svipuðum slóðum í Hafnarfirði starfa þrír Dalvíkingar í jafnmörgum greinum. Sýslið hefur tekið hús á tveimur þeirra, Jóni Gunnari, smiði og eiganda Hurða & glugga og Gunna málara í Flugger litum. Nú er röðin komin að Jóni Birni og bílaverkstæðinu hans. Þeir Jón Gunnars eru jafnaldrar og bekkjarbræður frá Dalvíkurskóla. Núna eru þeir í iðnrekstri í Hafnarfirði og svo stutt á milli að þeir geta næstum kallast á hvor frá sínum útidyrum. Örlögin eru a köflum giska skondin.
Jón Björn hefur gramsað í vélum og tækjum alla tíð. Einungis 16 ára gamall fór hann að læra bifvélavirkjun hjá Jóhannesi Árskóg á Dalvík, á verkstæði í örskotsfjarlægð frá æskuheimilinu, Baldurshaga. Hinum megin við heimili hans var Bílaverkstæði Dalvíkur og öll traffíkin sem því tilheyrði frá morgni til kvölds. Sjálfsagt var ekki auðvelt að komast hjá því að gerast bifvélavirki í slíku umhverfi, alla vega tóks Jónba það ekki.
Hann flutti suður og lauk námi á verkstæði SAAB-umboðsins sáluga og
útskrifaðist með meistararéttindi í faginu 1980. Hann vann eftir það hingað og þangað, meðal annars í Hrauneyjarfossvirkjun, hjá Loftorku, á vörubílaverkstæði Veltis og á vélaverkstæði Eimskips í Reykjavík í fimmtán ár. Frá árinu1998 hefur hann rekið eigið verkstæði, aldrei auglýst þjónustu sína en látið orðsporið um að útvega sér viðskipti.
Bila bílar Svarfdælinga ekki?
Þjónusta sem blómstrar á umtali einu saman hlýtur að vera traust og góð. Viðskiptavinirnir eru orðnir um 2.000 talsins frá upphafi og koma margir hverjir aftur og aftur, sé þess nokkur kostur. Það er lyginni líkast en satt samt að á verkstæði Dalvíkingsins í Hafnarfirði koma menn með bíla sína af öllu höfuðborgarsvæðinu, af Suðurnesjum og jafnvel af Snæfellsnesi. Og á Borgarfirði eystra er bíleigandi sem fer til útlanda einu sinni ári. Hann ekur þá suður, skilur bílinn eftir hjá Jónba og tekur við bílnum aftur til heimferðar að utanlandsreisu lokinni. Bíleigandinn kemur endurnærður heim og bíllinn hans líka, eftir yfirferð og aðhlynningu á Bifreiðaverkstæði Hafnarfjarðar.
Svarfdælingar og Dalvíkingar eru ekki sérlega áberandi í viðskiptavinahópnum. Jónbi hefði svo sem ekkert á móti því að sjá fulltrúa svarfdælska þjóðarbrotsins birtast á verkstæðisgólfinu en annað hvort hafa þeir ekki frétt um rómaða þjónustu sveitunga síns eða bílarnir þeirra bila bara ekki.
Stefna tekin á Osló í aðdraganda jóla
Sjaldan er tekið út með sældinni að standa í eigin rekstri. Bærileg afkoma næst ekki nema eigandi fyrirtækis sé vakinn og sofinn yfir rekstrinum. Þetta er að vísu klisja en sannleikurinn silkitær. Jónbi stjórnar fyrirtækinu en eiginkonan annast bókhaldið, Ólafsfirðingurinn Brynja Þorvaldsdóttir. Hún er fjármálastjóri Ísafoldarprentsmiðju en Jónbi bætir því glottandi við að í raun stjórni hún öllum rekstrinum þar á bæ og dundi sér svo við bílaverkstæðisbókhald heima á kvöldin.
Þau hjón eiga tvo syni, báða búsetta í Osló. Sá eldri, Birgir Már, er í doktorsnámi í læknisfræði en Kolbeinn er menntaður rafvirki og nemur iðnrekstrarfræði.
Barnabörnin eru fjögur en skiptingin ójöfn, annar sonurinn á eitt barn en hinn þríbura. Von er á frekari fjölgun þar ytra og ekki kom því á óvart þegar Jón Björn upplýsti að þau Brynja myndu dvelja í Osló um jólin. Stórfjölskylduhátíð á norskri jörð.
Líkamsrækt og jóga í hesthúsi

Apríl 1970 við hesthúsið heima að Baldurshaga á Dalvík. Jónbi með hundinn Zorro á Tvisti. Hrossið hans hlaut ömurleg örlög. Á hann var ekið á Múlavegi og þar með voru dagar hans taldir.
Lífið er meira en bílar og vélar. Jón Björn er hestakarl af lífi og sál. Hann eignaðist fyrsta hestinn sex ára gamall og hefur haldið tryggð við hestamennskuna, með nokkurra ára hléi þó. Hann á hesthús á svæði hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði og fimm hesta þar á jafnmörgum básum.
„Ég tók mér frí frá hrossunum en fann smám saman að eitthvað vantaði í tilveruna svo lífsmynstrið teldist viðunandi, sérstaklega að vetrarlagi. Svo fékk ég mér hross á ný og upplifði strax góða tilfinningu sem fylgir því að fara snemma á fætur til að gefa og hreinsa frá þeim í hesthúsinu. Það er mikið aðhald og hressing fólgin í því að moka skít og hlusta á hesta éta hey. Líkamsrækt og jóga í senn!
Langflesta daga fer ég á bak og held nákvæmt yfir reiðmennsku og tamningar. Þegar mest var fór ég nákvæmlega 299 sinnum á bak á einum vetri, bæði á morgnana og í hádeginu á virkum dögum. Tölfræðin var sú að ég lagði á næstum tvo hesta að meðaltali á dag. Þetta er allt skráð í svörtu bókunum þarna uppi í hillu og mér finnst þetta bara nokkuð góð frammistaða hjá áhugahestamanni!“
Gáfuð tík og pólitískt þenkjandi

Dimma situr gjarnan á stól handan við forstjóraborðið og fylgist með atferli viðskiptavina, viðskiptum, bókhaldi og öllu sem tilheyrir rekstrinum. Og svo tjáir hún sig um pólitík.
Árið 2008 er jafnan kennt við efnahagshrunið þegar bankarnir urðu afvelta og margt í samfélaginu fór hálfa leið til andskotans, sumt alla leið. Jónbi Bomma datt af baki þetta sumar og slasaðist illa. Það var hrunið hans. Mörg bein brotnuðu við fallið, þar af fjöldi rifbeina í bak og fyrir. Hann var á sjúkrahúsi í tíu daga en tíu dögum eftir útskrift þaðan var hann kominn á sinn stað á verkstæðinu. Þar fengu beinbrotin að gróa til fulls. Eftir sjúkrahúsdvölina eignaðist hann hvolp, Dimmu. Jónbi hafði áður átt hunda en það sýndi sig fljótt að Dimma var langt frá því að vera venjuleg skepna.
„Vitrari hundi hef ég aldrei kynnst. Það er bókstaflega hægt að ræða málin við Dimmu og hún er einstaklega næm á umhverfið. Hjalli bróðir (Hjálmar Hjálmarsson, leikari og fyrrum bæjarfulltrúi í Kópavogi) og ákveðinn forkólfur í bæjarpólitíkinni þar elduðu lengi saman grátt silfur. Dimma er rammpólitísk og henni er ekki um þennan andstæðing Hjalla gefið. Sjáðu þetta,“ sagði Jónbi. Hann benti á tíkina þar sem hún lá sultuslök og teygði úr sér á gólfi loftsins á bílaverkstæðinu sem gegnir í senn hlutverki kaffistofu og forstjórakontórs.
„Gunnar Birgisson!“ Um leið og nafn bæjarpólitíkussins fyrrverandi og verktakans núverandi var nefnt rauk Dimma á fætur, gelti hátt, urraði hvellt og felldi froðu. Það myndi lítið þýða fyrir þann mann að koma biluðum bíl í viðgerð á Bifreiðaverkstæði Hafnarfjarðar. Þar væri sjálfri Dimmu að mæta. Gunnar veit af eigin reynslu, bæði sem gerandi að þolandi, að pólitíkin getur verið fjandi grimm. Dimma er enn grimmari, alla vegar þegar G.Birgisson á í hlut.

Jónbi með Dimmu á Fönix árið 2012, eina hrossinu sem honum hefur fæðst. Hann skipti síðar á Fönix og öðrum hesti. Fönix var í kjölfarið seldur til Noregs og er því orðinn norskur ríkisborgari.
„Sestu, leggstu og slappaðu af!“ Þrjár einfaldar skipanir og Dimma fór að öllu eins og fyrir hana var lagt.
„Á Hanna Birna að segja af sér?“ spurði þá Jónbi Dimmu sína. Hún leit mæðulega upp á húsbónda sinn og gelti einu sinni klippt og skorið. Já, var svarið. Sannaðist enn einu sinni að dýr eru jafnan rökréttari og skynsamari en stjórnmálamenn. Sólarhring síðar sagði Hanna Birna af sér. Hún tók meira mark á Dimmu en tvífættum ráðgjöfum sínum. Nú er spurning hvað tíkin segir um stöðu lögreglustjórans í Reykjavík.
Grannt fylgist Dimma með atferli viðskiptavina
Mörgum hundum, bæði fjórfættum og tvífættum, hefur skrifari Sýslsins kynnst um dagana en engum sem nálgast gáfnafar og skilning Dimmu. Samband hennar og Jónba er líka kapítuli út af fyrir sig. Þau hreinlega tala saman eins og ekkert sé sjálfsagðara.
Svo kann Dimma vel að meta að viðskiptavinir standi ekki lengi með reikningana í höndunum þegar þeir ná í bílana sína að viðgerð lokinni. Tíkin horfir stíft á þá þar til þeir draga upp seðlaveskin, gera upp og fá bíllykla í hendur. Þá fyrst slakar hún á en kúnnarnir koma samt aftur og aftur ef vagnarnir þeirra bila á annað borð. Þeir leggja glaðir á sig stingandi augnaráð tíkurinnar, jafnvel gestir af fjarlægum landshornum. Fúsir sætta þeir við ýmislegt á sig til að komast að á bílaheilsugæslustöð Jónba Bomma. Þar er heldur aldrei verkfall og engin afsögn í uppsiglingu.