Nafnlausir drengir, siginn fiskur og Ólafsfirðingar

Staðlað
Jarðbrú og Brekkukot sumarið 1955. Ljósmyndarinn, Þórir Jónsson. stendur við Húsabakkaskóla nýreistan.

Jarðbrú og Brekkukot sumarið 1955. Ljósmyndarinn, Þórir Jónsson. stendur við Húsabakkaskóla nýreistan.

Lýst er eftir nöfnum drengja tveggja sem festust á mynd á Jarðbrúarhlaði 1955-1956. Eftirgrennslan hefur engan árangur borið og rannsókn málsins barst meira að segja inn í hóp brottfluttra Ólafsfirðinga sem hámuðu í sig siginn fisk og selspik á Sægreifanum í dag (31. okt. – nýjar upplýsingar í lok kaflans!).

Myndin sem allt snýst um. Hverjir eru drengirnir sem eru lengst til vinstri og til hægri??

Myndin sem allt snýst um. Hverjir eru drengirnir sem eru lengst til vinstri og til hægri? Smellið á myndirnar til að stækka þær!

Þrautalendingin er að virkja Sýslið í leitinni og biðla til almennings eins og löggan gerir þegar mikið liggur við.

Ljósmyndina umræddu tók Stefán Bergþórsson á hlaðinu á Jarðbrú í Svarfaðardal 1955 eða 1955. Halldór bóndi glaðbeittur á gráa Ferguson, með baskahúfu á höfði og farþega á vagni.

Frumburður hans, Atli Rúnar, kúrir í vatnhorninu og gægist yfir skjólborðið. Standandi eru sumardrottningarnar á Jarðbrú, Andrea Sigurðardóttir t.v. frá Reykjavík – Dista og Lára Axelsdóttir frá Ólafsfirði.

Svo eru drengir tveir sem gaman væri að bera kennsl á en engum úr Jarðbrúarfamilíunni hefur tekist það og heldur ekki Láru Axels. Hún býr nú í Reykjavík og er mannglögg í betra lagi en það dugir ekki til í þetta skiptið.

Lára kom fyrst í Jarðbrú níu ára og var þar á sumrin ftil fermingaraldurs. Þá gerðist hún starfsmaður á plani heima fyrir, altsvo á síldarplani. Lára er kostagripur og gerði hvað hún gat til að koma frumburðinum á bænum til manns. Það tók mjög á, bæði andlega og líkamlega.

Lára, Dista og Þórir í sunnudagaflíkunum sínum.

Lára, Dista og Þórir í sunnudagaflíkunum sínum.

Á hinni myndinni sem hér fylgir með frá sama ljósmyndara eru Lára, Dista og Þórir Jónsson á Jarðbrú. Sunnudagur í sveitinni, það sést á klæðaburði ungmennanna. Skilyrt var þá að ungir sem aldnir gengju skikkanlega til fara á Jarðbrú á helgidögum þjóðkirkjunnar. Sparifataskyldan útvatnaðist síðan hratt þegar frá leið og upp úr grasi uxu drengir sem létu ekki kirkjuna komast upp með velja þeim klæði á sunnudögum.

Hvurn fjárann kemur svo siginn fiskur og Ólafsfirðingar málinu við? Svar: Lára Axels var á Sægreifanum í hádeginu í dag ásamt fleiri brottfluttum Ólafsfirðingum. Það er eins og vant er á síðasta fimmtudegi hvers mánaðar að vetrarlagi. Þar var hægt að ganga að henni til að sýna myndina góðu og reyndar var tækifærið notað til að flagga fleiri myndum, meðal annars nokkrum hópmyndum frá Ólafsfirði frá miðbiki síðustu aldar og fyrr en það – úr fórum Ingibjargar á Jarðbrú. Mikið rýndu Sægreifagestirnir í fornmyndirnar en gleymdu samt hvorki fiski, hömsum né selspiki.

Þannig liggur nú í öllu saman. Langlokutextinn og myndir allar að fornu og nýju eru sum sé hér á kreiki til að lýsa eftir nöfnum tveggja drengja. Og nú er að sjá hvort Sýslið gagnast betur en minni og skynsemi brottfluttra Jarðbúra og Ólafsfirðinga.

Við hæfi er svo að geta þess í leiðinni að næsta hádegissamkoma Ólafsfirðinga á Sægreifanum er í hádeginu 27. nóvember en 18. desember er jólasamkoman. Þá fær signi fiskurinn hvíld en skata verður á borð borin. Auðvitað og amen.

  • 31. október – viðbót:
  • Mjög vel rökstuddar ábendingar hafa borist Sýslinu um að drengirnir nafnlausu séu bræðurnir Jón Baldvin og Jóhann Ólafur Bjarnasynir á Dalvík. Hildur móðir þeirra var með þá í Snerru um þetta leyti, það staðfestir Ingibjörg ættmóðir frá Jarðbrú og man til þess að strákarnir hafi verið á kreiki líka á Jarðbrú.
  • Jóhann Jónsson, faðir Hildar og afi bræðranna Jóns og Jóhanns, var bróðir Jóns Jónssonar – Jónsa á Jarðbrú.
  • Jón Baldvin Bjarnason, stýrimaður á Björgvin EA,  lést langt, langt um aldur fram 24. mars 1993. Hann var nýorðinn 44 ára.  Jóhann bróðir hans býr á Dalvík.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s