Guðað á gluggann hjá Elfu og Jóni

Staðlað

Timburilmur í lofti, tölvustýrðar græjur á gólfi, gluggar og hurðir á mismunandi stigum smíða hingað og þangað um salinn að Kaplahrauni 17 í Hafnarfirði. Við erum komin í ríki Elfu Matthíasdóttur og Jóns Gunnarssonar, þvottekta Dalvíkinga sem fluttu suður forðum til að hreinsa og strjúka klæði en sneru síðar við blaðinu og sjá nú þurfandi fyrir gluggum og hurðum á Suðvesturhorninu og jafnvel á Dalvík og í Noregi líka!

Elfa og Jón fluttu frá Dalvík 1997, keyptu efnalaug á Seltjarnarnesi og störfuðu þar bæði næstu árin. Hún hafði áður verið einn eigenda og starfsmaður í Axinu, brauðgerðarhúsi Dalvíkinga. Hann hafði áður verið einn eigenda og framleiðslustjóri í Sæplasti. Þetta voru því sannkölluð kaflaskipti í starfsferli beggja.

„Við rákum efnalaugina í sjö ár og seldum þá fyrirtækið. Aðalástæðan var að starfið var bindandi, það var afskaplega erfitt að taka sér frí samtímis,“ segir Jón.

Þau ákváðu sem sagt að breyta til, Jón keypti Hurðir & glugga ehf. í Hafnarfirði, fyrirtæki sem starfrækt hafði verið í tvo áratugi. Hann hefur síðan þá verið þar eigandi og framkvæmdastjóri en Elfa fór að vinna sem matráður í skóla.

Þetta með fríið breyttist ekki endilega mikið við vistaskiptin. Jón tók sér ekkert eiginlegt frí á árinu 2013 og hann hefur ekki heldur látið eftir sér að taka frí það sem af er ári 2014 nema um helgar. Þannig er bara lífið oft á tíðum í einkabransanum. Hann segist reyna sem mest að halda hvíldardagana heilaga um helgar frá vori til hausts. Þá dvelja þau Elfa langoftast í sumarbústaðnum sínum í Útey, á milli Apavatns og Laugarvatns. Þar kúplar kappinn sig út úr daglegu amstri í trésmiðjunni í Hafnarfirði.

Orðsporið er besta auglýsingin

„Við smíðum hér og framleiðum hurðir og glugga fyrir viðskiptavini sem hafa sumir hverjir átt samskipti við fyrirtækið frá því löngu áður en ég keypti það. Við höfum marga og tiltölulega smáa kúnna, oft fáum við verkefni í gegnum smiði sem endurnýja hús og þurfa að skipta þar um glugga og hurðir. Þetta geta verið einbýlishús eða sumarbústaðir og stundum eru verkefnin mjög metnaðarfull og tímafrek. Í einu tilviki tók það okkur hátt í eitt ár að smíða glugga í eitt einbýlishús. Það verkefni var líka bæði afar sérstakt og vandasamt eftir því.

Sömu smiðirnir koma til okkar aftur og aftur til að panta verkefni. Ég auglýsi lítið sem ekki neitt, orðsporið og reynslan dugar.“

Reyndar er ofureðlilegt að menn sæki þangað á nýjan leik þar sem þeir fá það sem um er beðið fljótt og vel. Laglegir voru smíðisgripirnir í salnum og á heimasíðu fyrirtækisins  má sjá að smiðir þar á bæ eru færir í flestan sjó í gluggum og hurðum.

Markaðurinn er fyrst og fremst höfuðborgarsvæðið en fyrir kemur að smíðað sé fyrir kúnna annars staðar á landinu. Jón hefur meðal annars sent hurðir og glugga til Dalvíkur og flikkað þannig upp á hús í gömlu heimabyggðinni.

Svarfdælingar á höfuðborgarsvæðinu eru líka í viðskiptavinahópnum og fyrir kemur að slíkir reki inn nef í viðskiptaerindum án þess að hafa hugmynd um að „landi“ þeirra ráði þarna ríkjum. Slíkir endurfundir liðka fremur fyrir bissness en hitt, eins og nærri má geta.

Síðast en ekki síst skal svo upplýst hér að Hurðir & gluggar urðu nú nýlega útflutningsfyrirtæki! Íslenskur smiður í Noregi er að gera upp gamalt einbýlishús þar í landi og óskaði fyrr á þessu ári eftir tilboði frá Jóni Gunnarssyni í glugga og hurðir. Tilboðinu var tekið, smíðað var í upp í samninginn í sumar og smíðisgripirnir afgreiddir núna í september.

Íslenski smiðurinn og húseigendurnir í Noregi eru afskaplega lukkulegir með hvernig til tókst, reyndar svo vel að smiðurinn hefur nú óskað eftir tilboði frá Hurðum & gluggum í fleiri verkefni. Útflutningsstarfsemin gæti þannig undið upp á sig.

Hrunið setti strik í reikninginn

Efnahagshrunið þjarmaði að Jóni og fyrirtækinu hans eins og flestum öðrum í atvinnurekstri af þessu tagi. Hann hafði nokkru áður farið til Ítalíu og keypt tvær vélasamstæður til starfseminnar, á lánum að talsverðu leyti. Krónan hrundi og eftirstöðvar lána tvöfölduðust. Það tekur því lengri tíma en ella að eignast græjurnar en allt er þetta nú í eðlilegu ferli, eins og það heitir. Jón er alla vega farinn að skyggnast ögn um bekki eftir öðru húsnæði. Helst vildi hann geta tvöfaldað gólfflötinn ef vel ætti að vera.

Ítölsku vélarnar eru mikið galdraverk, alla vega er það upplifun fyrir leikmann að sjá hvernig þær snikka timbrið á alla kanta. Þær eru tölvustýrðar og Jón segir að iðnskólakerfið okkar fylgi augljóslega ekki tímanum og þróuninni. Menn útskrifast úr smíðum án þess að læra að forrita tölvur fyrir svona vinnslu.

Hurðir & gluggar ehf. er sex manna vinnustaður. Elfa er sjöunda hjólið undir vagni og sýslar við skrifstofuhald félagsins. Hún þjáist af bakveiki, er því ekki á vinnumarkaði nú um stundir og bíður eftir að komast í aðgerð til að fá bót meina sinna.

Elfa og Jón eiga fimm börn. Frumburðurinn Daði vinnur á vegum Promens í Kanada, Ívar starfaði á Kingsbarns-golfvellinum í St. Andrews í Skotlandi í sumar og verður þar trúlega aftur sumarið 2015, Matthildur starfar hjá Símanum, Sólveig hjá MATÍS og Drífa er þjónn á veitingahúsi í Fredrikstad í Noregi.

Hús veðsett og allt lagt undir vegna Sæplasts

IMG_5704Halli frá Klaufabrekkum – Hallgrímur Hreinsson og Jón Gunnars voru upphafsmenn að iðnaðarævintýrinu á Dalvík sem byrjaði sem Sæplast og varð heimsveldið Promens með höfuðstöðvar nyrðra. Ómögulegt er að skilja við Jón á kontórnum í Hafnarfirði án þess að fá söguna um upphafið í teskeiðarformi.

„Þetta byrjaði með því að Halli Hreins hafði samband og fékk mig í lið með sér til að búa til félag um að kaupa fyrirtækið Sæplast í Garðabæ og flytja til Dalvíkur með milligöngu Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar. Halli átti húsnæði fyrir starfsemina og við lögðum upp í leiðangur til að safna hlutafé þar til tókst að ná upphæð sem Iðnþróunarfélagið setti sem lágmark.

Ég átti þá hlut í bát og fiskverkun og hafði stundað útgerð á Dalvík í þrjú ár. Það gekk upp og ofan, við seldum skreið til Nígeríu og ég fjárfesti í Sæplasti út á greiðslur þaðan sem svo aldrei bárust!

Nýja hlutafélagið keypti Sæplast og rak fyrirtækið í fyrstu áfram í Garðabæ. Ég fór suður og vann þar í nokkra mánuði til að læra til verka. Félagið var illa rekið og vélakosturinn á köflum óttalegt drasl. Þarna voru framleidd fiskiker, einungis 5-6 stykki á sólarhring, sem þættu nú ekki stórbrotin afköst í Promens!

Fiskkassarnir voru einu ílátin af þessu tagi á markaði þá en smám saman tókst að koma kerjum frá Sæplasti á dagskrá. Kerin ýttu kössunum smám saman til hliðar, enda fóru þau mun betur með hráefnið en kassarnir.

Á ýmsu gekk fyrstu árin en þetta hafðist, kannski vegna þess að við í eigendahópnum vorum nógu vitlausir til að láta bara vaða! Við Halli veðsettum meira að segja húsin okkar fyrir félagið, einir hluthafa.

Svo fór að ganga betur af ýmsum ástæðum. Við réðum Pétur Reimarsson sem framkvæmdastjóra og það var gæfuspor. Hann kom á réttum tíma og tæklaði hlutina vel

Ég átti um það bil 10% í félaginu, starfaði sem framleiðslustjóri í þrettán ár og sat í stjórn félagsins allan þann tíma. Upphaflega var ég í þessu til að búa til starf handa sjálfum mér, sem ég hef oft gert fyrr og síðar. Fyrirtækið stækkaði og þandist út. Ég hætti að finna mig almennilega í því sem ég var að gera og vildi breyta til.

Niðurstaðan varð sú að ég seldi eignarhlutinn minn í Sæplasti og Elfa seldi hlutinn sinn í Axaninu. Við keyptum efnalaugina á Seltjarnarnesi og fluttum suður.“

Stærsta verksmiðja sinnar tegundar í veröldinni

Sæplast hf. var stofnað á Dalvík 1984 og allt til þessa dags hefur framleiðsla fiskikerja verið kjarni framleiðslunnar á Dalvík. Frá því í febrúar 2007 hefur verksmiðjan á Dalvík borið nafn móðurfélags síns, Promens, en Sæplast er vörumerki framleiðslunnar.

Sæplastkerin eru ekki lengur kennd við fisk, þau eru notuð fyrir allar mögulegar tegundir matvæla um víða veröld. Promens framleiðir miklu fleira en kerin og verksmiðja félagsins á Dalvík er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum.

„Aldrei óraði mig fyrir að Sæplast myndi þroskast og dafna eins og raun varð,“ segir Jón Gunnarsson. „Hins vegar hafði ég tröllatrú á fyrirtækinu og starfseminni frá upphafi. Annars hefði ég ekki lagt allt undir til að Sæplast mætti ganga og vaxa.“

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s