Svarfdælingur við stjórnvölinn í stærsta útgerðarfyrirtæki Norðmanna

Staðlað

IMG_5584_2

Rekstrarstjóri Havfisk ASA, langstærsta útgerðarfyrirtækis Noregs, er svarfdælskur að ætt og uppruna.

Ari Theodór Jósefsson fæddist á Akureyri, bjó fyrstu árin í Ólafsfirði og á Dalvík, fluttist til Svíþjóðar átta ára og þaðan aftur til Akureyrar en hefur dvalið í Noregi frá 1991 þegar hann hóf nám í sjávarútvegsfræðum. Hann segist vera Dalvíkingur og ekkert annað ef spurt er: hvaðan ertu?

Hólmar Svansson frá Promens og Ari Theodór handsala kaup Havfisk ASA á Kristjánsbúrinu sem var til sýnis í Kópavogi.

 

Ari var meðal gesta á sjávarútvegssýningunni í Kópavogi og skoðaði þar tæki, tól og rekstrarvörur með þarfir fyrirtækis síns í huga, eins og vera ber á svona samkundum. Hann keypti meðal annars Kristjánsbúrið sem var til sýnis og sölu í sýningarbás Promens, sérhæft öryggistæki til löndunar á fiskikerum hannað í samstarfi Samherja og Valeska á Dalvík. Hamar ehf. framleiðir græjuna og Promens sér um markaðsmálin.

Búnaðurinn kemur í veg fyrir að kerastæður riðlist og hrapi við hífingu til eða frá borði, nefndur eftir Kristjáni Guðmundssyni sem slasaðist alvarlega við löndun á Dalvík vorið 2011. Kristján náði ótrúlega góðum bata og var kjörinn bæjarfulltrúi í Dalvíkurbyggð í vor. Hann kallar sjálfur Kristjánsbúrið „bestu uppfinningu allra tíma“. Nú verður Kristjánsbúrið sem sagt notað við löndun úr togurum Havfisk í Álasundi.

Frændi er sveitarstjóri á Dalvík

Lokadagur sjávrútvegssýningarinnar í Kópavogi varð hálfgert ættarmót. Þar var Ari Theodór á vappi og móðir hans sömuleiðis, Svava Aradóttir. Í bás Dalvíkurbyggðar var svo móðurbróðir hans að kynna byggðarlagið sitt, Bjarni Theodór Bjarnason sveitarstjóri og oddviti framsóknarmanna og óháðra í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2014. Næstur honum á framboðslistanum var fyrrnefndur Kristján Guðmundsson, svo einhvern veginn tvinnast allt í einu ýmsir ólíkir þræðir hér í frásögninni.

Ari lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1991 og síðar lá leið hans til Noregs í nám í fisktækniháskólanum í Tromsö. Eftir útskrift þaðan starfaði hann mest í veiðarfærabransanum í Noregi og átti þá mikil samskipti og viðskipti við Sæplast á Dalvík. Þar að kom að Ari var ráðinn framkvæmdastjóri dótturfélags Sæplasts í Álasundi og starfaði þar í tvö ár.

Kjell Inge Rökke aðaleigandi

Þá gerðist það að haft var samband við Ara og honum boðin framkvæmdastjórastaða hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Aker Seafoods í Lofoten. Hlutirnir gengu hratt fyrir sig og Ari var ráðinn til starfa í mars 2006.

„Mér þótti spennandi að fara til starfa við útgerð og gat ekki sagt nei við þessu vinnutilboði. Togarar og útgerð togara er eitthvað sem alltaf hefur höfðað til mín og togað í mig alveg frá því ég fór fyrst til sjós með Snorra Snorrasyni á Dalvík, þá átján ára gamall. Síðar var ég á sjó á togurum frá ÚA og Samherja og enn síðar á norskum og rússneskum togurum. Skjóta má því hér inn að Bjarni frændi og sveitarstjóri á Dalvík var þá rekstrarstjóri fyrirtækisins sem gerði út rússneska togarann.“

Aker Seafoods var bæði í veiðum og vinnslu en fyrirtækinu var síðar skipt upp í fiskvinnslufyrirtækið Norway Seafoods og útgerðarfyrirtækið Havfisk.

Stærsti eigandi beggja fyrirtækja er Kjell Inge Rökke, þjóðþekktur og umsvifamikill athafnamaður í Noregi í gegnum fjárfestingarfélagið Aker ASA. Bæði Norway Seafoods og Havfisk eru skráð í norsku kauphöllinni í Osló.

Ari Theodór er framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Havfisk ASA og framkvæmdastjóri tveggja útgerðarfélaga sem tilheyra samstæðunni, Nordland Havfiske AS og Finnmark Havfiske AS.

Höfuðstöðvar Havfisk eru í Álasundi og þar býr Ari. Havfisk er líka með útibú í Stamsund og Hammerfest.

Ari Theodór hefur með að gera útgerð 11 togara og alls um 380 starfsmenn til sjós og lands (hér má skoða sig um í brúnni á togaranum Gadus Neptun). Nokkrir Íslendingar eru í áhöfnum skipanna en mun fleiri Færeyingar.

„Við ráðum yfir 11% af þorskkvóta Norðmanna og veiðum aðallega þorsk, ýsu og ufsa við Noreg, líka rækju og karfa. Svo gerum út eitt skip til grálúðuveiða við Grænland í um það bil tvo mánuði á hverju ári.

 Heildarafli Havfisk árið 2013 var hátt í 80.000 tonn upp úr sjó, þar af um 55.000 tonn af þorski, tæplega 13.000 tonn af ýsu og rílega 12.000 tonn af ufsa.“

 Ofboðslega hátt launahlutfall í íslenskri útgerð

Havfisk velti um 780 milljónum norskra króna árið 2013, jafnvirði um 14,7 milljarða íslenskra króna.

Stór hluti afla fyrirtækisins er lagður upp til vinnslu hjá Norway Seafoods.

Ari Theodór á auðvelt með að spegla norskan veruleika í sjávarútvegsmálum í þeim íslenska en færist undan því að láta hafa mikið eftir sér í þeim efnum, ekki einu sinni í Svarfdælasýsli! Eitt nefnir hann samt og hristir um höfuðið til að undirstrika vanþóknun sína:

„Launahlutfall í íslenskri útgerð er ofboðslega hátt og getur ekki staðist í raun. Það er þriðjungi hærra en hjá okkur í Noregi. Laun og launakostnaður á Íslandi er 40-42% af tekjum en um 32% hjá okkur og miklu lægra hjá til dæmis Rússum.“

IMG_5579

Mæðgin Svava Ara og Ari Theodór í sýningarbási Priomens ásamt Hólmari Svanssyni .

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s