Gangnasýsl II: Stekkjarhús

Staðlað

IMG_5045Laugardagkvöld 13. september kl. 19:30. Sýslari mættur í Stekkjarhús, aðsetur gangnamanna í Sveinsstaðaafrétt í Skíðadal. Yngsta kynslóð gangamanna situr á skrafi í hálfum hljóðum og gutlar öl í baukum hér og þar. Þeir eldri og virðulegu hvílast. Drög að svefndrunum berast ofan af háalofti. Þau eru á sinn hátt logn á undan stormi.

Fæst orð bera minnsta ábyrgð og mynd segir meira en nokkur orð. Best er að láta gamla frasa tala sínu máli og sleppa ódýrt frá þessum pistli.

Kvöldið með afréttarmönnum var líka eftir bókinni að mestu leyti og fáu þar við að bæta. Hógværðin uppmáluð framan af en svo hitnaði ögn í kolum og raddbönd þöndust í söng. Þar báru nú hinir lífsreyndu af kjúklingunum í liðinu. Gangamannafélagið ætti að stofna söng- og kvæðamannaskóla handa ungviðinu til að ala það upp í hefðbundnum gangnasiðum. Og helst að kenna því undirstöðuatriði í bragfræði líka, að minnsta kosti nóg til að berja saman stöku og stöku stöku sinnum.

Áhugamönnum um vísnagerð í afréttinni er samt vorkunn. Þeir hafa stöðugt fyrir eyrum kveðskapinn sem vellur upp úr Tjarnarbræðrum linnulaust og látlaust. Það þarf kjark til að kveðja sér hljóðs í slíku samkvæmi.

Hjörleifur sá um annálinn í ár, söguþátt sem skráður er í lok gangnadagsins og fluttur í Stekkjarhúsinu um kvöldið. Það er hápunktur samkomunnar og allir hlýða á eftirvæntingarfullir en dálítið kvíðnir í bland, rétt eins og þegar Svarfdælingar hlusta á árlegan þorrablótsannálinn á Rimum.

Menn búast við að fá á baukinn í afréttarannálnum og eru oftar en ekki húðstrýktir bæði í stuðlum og höfuðstöfum Tjarnarmanna. Það sluppu ekki allir ódýrt frá annál Hjörleifs í Stekkjarhúsinu um helgina.

Annar Tjarnarbróðir, Þórarinn ungi, sat löngum við borðsenda með slitur pappírs framan við sig, tók þátt í samræðum á báðar hendur, drakk til skiptis af kaffimáli og fleyg en datt svo af og til meðvitunarlítill ofan í pappírsrifrildið, krotaði eitthvað, komst fljótlega til vitundar á nýjan leik og teygði sig í flösku eða fleyg.

Svo stóð Ungi skyndilega á fætur, dustaði af sér ryk og lýsti yfir að nú væri fullortur bragurinn. Hann hafði sum sett saman og skrifað upp heilan ljóðabálk til að frumflytja með öðrum gangnamönnum á Tungurétt daginn eftir.

Það skyldi endurvígja réttina uppsteypta frá rótum og gangnamenn tóku að sér að syngja réttinni lof og dýrð að loknum vígsluorðum sóknarprestsins.

Auðvitað frumsamið. Það er undantekning að sunginn sé nokkur skapaður hlutur í Sveinsstaðaafrétt nema frumsamið. Afraksturinn í áranna rás er meðal annars að finna í Krosshólshlátri, riti svarfdælskra gangnamanna frá í fyrra.

Hér fyrir neðan á síðunni eru nokkrar ljósmyndir frá samkomunni í Stekkjarhúsi á laugardagskvöldið og svo myndbandsbútar tveir, sýnishorn af söngæfingu gangamanna annars vegar og lestri annáls gangadagsins hins vegar. Hér þarf ekki fleiri orð.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s