Gangnasýsl I: Hofsárrétt

Staðlað

IMG_4957Göngur á Hofsársdal í ár einkenndust af markvissu og árangursríku striti sauðfjárins við halda líftóru og frelsi til fjalla. Réttarhald í Hofsárhreppi hófst því síðar en skyldi á laugardaginn en á sama tíma náðu gangnamenn áhugaverðum árangri í fjölskylduleiknum tapað-fundið.

Gangnamenn í Svarfaðardal og í Skíðadal voru annars býsna móðir og másandi um helgina, enda veðurlag og lofthiti mun meira í ætt við Miðjarðarhaf en heimsskautsbaug. Ærnar voru með lömbin sín í makindum í hæstu hæðum byggðarlagsins og sumar hærra en hægt var að komast með góðu móti.

Þær hinar reynslumeiri vissu strax hvaðan á þær stóð veðrið þegar í lognmollu sumarsins heyrðist um helgina óvænt garg í sendiboðum lambadauðans, þessu liði sem veður til fjalla sigandi hundum með talstöð í annarri hendi og bjórdós í hinni. Reynsluríkar lambamæður vita að þessi árlegi landhernaður boðar afkvæmum þeirra fátt gott og í versta falli maríneruð ævilok yfir vítislogum útigrilla.

Hofsárdrengurinn Hlini, sem kenna má líka við Svartárkot, þurfti að hafa fyrir því að eltast við fjallafálur upp á hæstu tinda. Þau tíðindi bárust frá honum gegnum talstöð niður í Vallasókn að réttarhaldinu myndi seinka af þessum ástæðum um klukkustund eða tvær.

Það fylgdi svo sögu að Hlini hefði fundið drykkjarhorn sem honum tókst að týna í göngum í fyrra. Þá glöddust menn um allt prestakallið og séra Magnús fletti til öryggis upp í Matteusi 18:12-14 til að kanna hvort sá sem týndi sauðnum forðum hefði líka týnt drykkjarhorni. Svo reyndist ekki vera.

Haustið 2014 hafði þorðið til ný helgisaga á Hofsárdal, kraftaverk sem sjálfsagt verður hægt að leggja út af í guðsþjónustum í Dalnum í framtíðinni.

Þar með voru kraftaverkin ekki upp talin. Annar gagnamaður gekk fram á hníf hátt í hlíðum og kenndi þar svipmót hnífapara á Hofsá. Við eftirgrennslan kom í ljós að Hofsársystur höfðu gengið til sveppa í fjallinu og tapað amboðum þegar þær fögnuðu uppskerunni. Þannig var að minnsta kosti frá atburðum greint.

Segir ekki frekar af búsáhaldabyltingu á Hofsá en vissulega verður fróðlega að heyra hvað kemur í ljós í síðari göngum og eftirleitum á Hofsárdal.

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s