Ímyndum okkur að Gallup gerði skoðanakönnun á Íslandi annars vegar og í Svíþjóð hins vegar og spyrði: hver er Jóhann Friðgeirsson? Niðurstaðan er gefin. Það er næsta víst. Fleiri Svíar en Íslendingar myndu kannast við Jóa frá Tungufelli. Hvernig má það vera að strákur úr Svarfaðardal, búsettur í Skagafirði, skuli vera þekktari í Svíþjóð en á Íslandi? Því svarar Svarfdælasýsl.
Fyrir um það bil einu ári, í ágúst 2013, kom út bókin Islandshästen enligt Jóhann Þór Friðgeirsson, afar vinsælan reiðkennara í Svíþjóð. Enn þekktari varð hann í kjölfar útgáfu bókarinnar. Fyrsta upplagið seldist upp á fáeinum vikum, um bókina var fjallað víða og hún hlaðin lofi ritdómenda. Jóhann var boðaður til viðtals í fjölmiðlum, þar á meðal í sumum stærstu dagblöðum Svíþjóðar. Hér heima hefur hins vegar ekki verið sagt eða skrifað aukatekið orð um bókina hans Jóa, hvorki í smáum né stórum fjölmiðlum og ekki einu sinni á fréttavefjum hestamanna.
Jóhann sjálfur er hógværðin uppmáluð en færist að sjálfsögðu ekki undan að spjalla við Sýslið í síma frá Svíþjóð þegar fyrir liggur að rjúfa þögnina um bókina hans um Íslandshestinn. Hann er í raun og sann gjaldeyrisskapandi farkennari í reiðmennsku og hefur starfað sem slíkur í hartnær fjórðung aldar, fyrst í Svíþjóð, Noregi og Danmörku en síðan eingöngu í Svíþjóð. Meira um bókina síðar í pistlinum.
Sala Lits frá Kletti vatt upp á sig
„Aðdragandann að sænska ævintýrinu má rekja allt til þess að við hjón, Elsa Stefánsdóttir, vorum í raun neydd út í loðdýrarækt heima á Hofi í Skagafirði en það fór eins og það fór. Ég hafði hins vegar ætlað að byggja starfsemina á hrossum og hestamennsku og fór að þreifa fyrir mér í þeim efnum eftir að loðdýrabúskapnum lauk. Við höfðum kynnst sænskri konu sem var hjá okkur, Stinu Helmerson. Hún er blaðamaður og rithöfundur og skrifaði löngu síðar bókina mína sem gefin var út í Svíþjóð í fyrra. Fyrir milligöngu hennar seldum við fimm hesta til Svíþjóðar, þar af einn stóðhest, Lit frá Kletti.
Það skilyrði fylgdi Lit að ég færi til Svíþjóðar og sýndi hann. Það gerði ég og fór að leiðbeina áhugamönnum um reiðmennsku í leiðinni. Þetta þróaðist í skipulögð námskeið og vatt upp á sig. Ég fór í Hólaskóla og náði mér í reiðkennararéttindi vorið 1997. Framan af var ég að kenna víða á Norðurlöndum en ákvað svo að einbeita mér að Svíþjóð og þar hefi ég verið eins og á tvisvar sinnum þriggja mánaða „vertíðum“ árlega frá 1997.
Ég fer utan síðsumars og kenni á námskeiðum í september, október og nóvember, held þá heim en kem aftur í mars og er fram í maí. Sjálfur sé ég um alla þessa útgerð í Svíþjóð. Námskeiðin eru á mínum vegum, ég sé um framkvæmd þeirra á hverjum stað og keyri á milli á bíl sem ég keypti til hafa sem fararskjóta og bækistöð.
Ég gæti auðveldlega verið miklu lengur en hálft ár hérna því áhugi á Íslandshestinum er gífurlegur og enn vaxandi í Svíþjóð.
Á sumrin tökum við á móti Svíum heima og skipuleggjum fimm daga þægilegar hestaferðir með þeim um Skagafjörð. Núna sumarið 2014 voru sex ferðir á dagskrá og nú þegar er fullbókað í allar ferðirnar okkar sumarið 2015! Í kringum þetta hefur myndast lítið fjölskyldufyrirtæki. Friðgeir, sonur okkar, er með mér í sjálfri ferðaþjónustunni og Elsa sér um fjármálin.
Við höfum sem sagt lifað á hrossum frá 1990, annars vegar kennslunni í Svíþjóð og hins vegar á hestaferðum á Íslandi. Við gerum út heiman frá Hofsósi og frá Ljótsstöðum, jörð sem við eigum að hálfu. Þar höfum við gert ýmislegt í þágu starfseminnar og hestamennskunnar, til dæmis innréttað stóra skemmu sem hesthús.
Friðgeir Ingi sonur er á kafi í hestamennskunni og hestarækt sem við höfum stundað um árabil. Ég alveg sagt með sanni að þar höfum við náð ágætis árangri. Síðast í vor voru dæmd stóðhestur frá Friðgeiri og hryssa frá mér og hlutu bæði fyrstu verðlaun.
Í ein 34 ár höfum við ekki fengið að svo mikið sem eina hryssu í ræktunina eða frá því við keyptum nokkrar hryssur frá Kolkuósi 1980. Hin greinin í ræktuninni rekur sig til Snekkju minnar á Tungufelli.“
Persónulegar hugleiðingar, fagur prentgipur

Jóhann lyftir bikar á loft, Stefán bróðir hans í bakgrunni og fremst á mynd er dóttirin Sonja Sif með Flugsvinn frá Dalvík sem hlaut fyrstu verðlaun og heiðursviðurkenningu á afkvæmasýningu.
Það sem fyrst vekur eftirtekt er að Islandshästen er afskaplega falleg bók, vel hönnuð og uppsett, harðspjalda með áhugavekjandi og flottri kápu. Hún er líka aðgengileg að lesa með glæsilegum ljósmyndum, flestum úr Skagafirði. Öll hrossin á myndunum á Jóhann og langflestar myndir í bókinni tók dóttir hans, Silja Ösp. Flestar myndirnar eru til áherslu eða leiðbeiningar og styðja textann, aðrar myndir eru landkynning og Íslandshestakynning af bestu gerð.
Ekki síður vekur eftirtekt að bókin er í heild afar persónulegar hugleiðingar Jóhanns um íslenska hestinn, umgengni við hross og um reiðmennsku.
Lokakaflinn er sér á parti og á honum kaus Sýslari að hefja lesturinn eftir að hann komst yfir bókina á dögunum. Þar fjallar Jóhann um uppvaxtarárin á Tungufelli og stiklar á stóru um lífshlaupið og hrossin sín allt frá upphafi þar til hann flutti ásamt Elsu frá Dalvík í Fagranes í Skagafirði, þaðan í Hof og loks á Hofsós.
Ýmislegt rifjast auðvitað upp við lesturinn og ljósmyndastúdíu í þessum æviferilsþætti. Geiri á Tungufelli setti son sinn fyrst á hestbak tveggja ára gamlan og þar hefur hann þrifist bærilega, takk, allar götur síðan þá. Jóhann eignaðist Snekkju frá Krossanesi í Skagafirði árið1959, þá tíu ára gamall, og setti fljótlega Íslandsmet á hryssunni í 250 metra stökki á kappreiðum hestamannafélagsins Hrings. Þá var Snekkja fjögurra vetra en knapinn tólf ára. Þau runnu vegalengdina saman á 19,4 sekúndum!
Jóhann sjálfur varð reyndar síðar þekktur fyrir að vera sprettharður í betra lagi. Hann keppti í 100, 200 og 400 metra hlaupum og var í hópi þeirra fljótustu á landinu. Hann var meira að segja valinn í landsliðið í frjálsum íþróttum en hljóp aldrei fyrir Íslands hönd. Hann segist hreinlega ekki hafa haft efni á að fara lengra á þessari braut.
Jói á Tungufelli sá sum sé um spretthlaupin í Svarfaðardal en Villi í Ölduhrygg um langhlaupin um svipað leyti og náði þar góðum árangri. Það höfðu fáir roð í þá sveitunga vora á hlaupabrautum landsins.
Hugleiðingar frekar en kennsluefni
Jóhann frá Tungufelli kemur til dyranna í þessari bók sem tilfinningaríkur hestamaður. Næstum er væmið að skrifa en satt er það samt að væntumþykja og virðing fyrir hrossum, næstum því að segja lotning fyrir þessum fjórfættum vinum blasir við lesandanum á síðu eftir síðu. Það gefur bókinni líka gildi að Jóhann hefur lífsgildi og skýrar skoðanir sem hann setur fram á ákveðinn en kurteisan hátt. Hann gerði líka að skilyrði að fá að birta hugleiðingar sínar og vildi hvorki sjá né heyra að gefa út kennslurit af einhverju tagi. Samt er það nú svo að Íslandshestafólk í Svíþjóð lítur á bókina sem hugvekju og hvatningu og reyndar sagði einn ritdómarinn að eintak af henni ætti að vera til á hverju heimili hestamanns í sænska konugsríkinu.
Stina Helmerson, blaðamaður, rithöfundur og Íslandshestamaður um árabil, skrifaði textann, „tappaði af“ Jóa og færði í letur. Þeir sem sótt hafa námskeið hjá kappanum segjast heyra röddina og skynja nærveru hans við lesturinn! Og Jóhann hafði áhrif á að bókin er afar læsilega hönnuð. Kaflar eru stuttir og vel aðskildir efnislega. Hægt er að grípa niður hvar sem er og lesa bókina bæði aftur á bak og áfram.
Jóhann segist trúlega tilheyra síðustu kynslóð sjálflærðra reiðkennara, þrátt fyrir að hafa verið lokið prófi sem slíkur á Hólum í Hjaltadal á sínum tíma.
Dúndurdómar og dæmi um hugleiðingar
Bókin fékk dúndurfína dóma þar sem um hana var fjallað í sænskum fjölmiðlum og fyrsta prentun seldist upp á fáeinum vikum, enda er mælt hástöfum með því í umsögnum að lesendur verði sér út um bókina, bæði unnendur íslenska hestsins og hestaáhugamenn yfirleitt. Sérstaklega er mælt með því að ungir hestamenn lesi bókina aftur og aftur og tileinki sér hugmyndafræði og góð ráð Jóhanns, sem kynntur er sem „einn vinsælasti Íslandshestareiðkennari Svíþjóðar.“
Hvað er svo Jói frá Tungufelli að „hugleiða“ í bókinni sinni? Hér eru fáein efnisleg dæmi, tekin af handahófi.
- Vissulega er gott að hægt er að læra tamningar og reiðkennslu í skóla og læra hestamennsku alveg upp á framhaldsskólastig en það er að minnsta kosti jafnmikilvægt að afla sér reynslu og þekkingar með því að umgangast hrossin og skyna að engar allsherjarlausnir eru til fyrir tiltekin vandamál sem óhjákvæmlega koma upp í reiðmennskunni. Hestar og knapar eru ólíkir, vandamálin mismunandi og lausnirnar sömuleiðis.
- Athyglin beinst mjög að keppnisreiðmennsku en mér hugnast jafnan best að þjálfa áhugamenn í reiðmennsku, fólk sem leggur á sig að byrja á byrjunni, tileinka sér grunnatriði og byggja ofan á þau.
- Átta af hverjum tíu hestamönnum teljast til áhugamanna og hrossin eiga að vera við þeirra hæfi. Slíkir reiðhestar skora ekki endilega hátt hjá hrossaræktendum, tamningamönnum eða dómurum mótum en eru hins vegar oft búnir eiginleikum sem aldrei er hægt að dæma eða meta á kynbóta- eða afkvæmasýningum.
- Hestar sem notaðir eru til hestaferða á vegum fyrirtækja eða í reiðskólum mótast á neikvæðan hátt af því þeim er riðið af nýju og nýju fólki.
- Margir hafa efni á að kaupa ótrúlega góða, flotta og dýra hesta en það þurfa ekki að vera bestu reiðhestarnir. Mér verður hugsað til allra keppnishestanna sem fluttir eru út frá Íslandi til að keppa á heimsmeistaramótum Íslandshestsins. Þeir eru síðan seldir en hvað gerist svo? Maður sér sjaldan til þeirra eftir það á stærri mótum. Kannski gengur nýjum eigendum gengur ekki vel að ríða þeim í keppni, kannski eru hestarnir einfaldlega kulnaðir („útbrunnir“).
- Markaðssetning Íslandshestsins er röng! Megininntakið er að allir geti riðið Íslandshesti. Vissulega viljum við þægilegan og meðfærilegan hest en Íslandshestur krefst þekkingar og innsæis knapa til að út úr honum fáist það sem efni standa til.
- Vandræði geta skapast þegar sá sem aðallega hefur stundað reiðmennsku í reiðskóla eða í hestaferðum á vegum ferðaþjónustufyrirtækja útvegar sér hest sem krefst meira af knapanum en innistæða er fyrir. Óvanir knapar þurfa helst hross sem er í góðu jafnvægi og öruggt til gangs, blandar ekki saman gangtegundum og er auðvelt til reiðar. Slíkir hestar eru verðmætir. Erfitt getur verið að komast finna slíka hesta fala og þeir eru dýrir.
- Æskilegt að þeir sem fara að starfa sem þjálfa eða leiðbeina hafi að baki praktíska reynslu af reiðmennsku og umgengni við hesta, að minnsta kosti í fjögur ár.
- Lítum á hest sem lifandi dýr en ekki sem vélrænt fyrirbæri!
-
Margir fara ekki á bak fyrr en eftir tvítugt og hafa aldrei fyrr umgengist dýr. Þeir tileinka sér kannski tilheyrandi tækni en skortir oftar en ekki tilfinningu fyrir hrossinu og reiðmennskunni sem slíkri.
- Við eigum ekki að vera sjálfselsk heldur hafa alltaf í huga hvað hestinum kemur best. Ekki ofbjóða hrossum og ríða þeim tímunum saman. Algengt að fara í 4-6 tíma ferðir á Íslandi á einum degi en þá hafa menn líka fleiri til reiðar. Muna að hvíla, spretta af og sjá til þess að hestarnir komist í drykkjarvatn, ekki síst ef þeir svitna.
- Reiðkennarar gleðjast yfir því þegar nemendur þeirra nái langt og komist til dæmis á Svíþjóðarmót eða heimsmeistaramót íslenska hestsins. Ég gleðst yfir slíku líka en enn ánægjulegra er verða vitni að því að nemandi nær til dæmis öruggum tökum á hröðu tölti!
- Ég finn mikinn mun á að ríða Íslandshesti sem fæddir eru á Íslandi annars vegar eða í Svíþjóð hins vegar. Alíslensku hestarnir eru meiri hópdýr og halda því eðli sínu, þeir eru jafnan viljugri og hlýðnari við tamningu og þjálfun. Sænsk-íslensku hestunum kemur á stundum illa saman, þeir eru ekki eins auðveldir til reiðar og sýna af sér þrjósku eða jafnvel leti!
- Látum hestinn fá að vera sem mest í friði. Honum líður best í hjörð í rúmgóðu hólfi eða haga. Um að gera að halda ró í hjörðinni og vera ekki sífellt að skipta hrossum út og inn í hópnum. Það er andstætt eðli íslenska hestsins að vera tímunum saman einn í litlu hólfi. Svo er riðið á tilbúnum brautum eða undir þaki en sjaldan eða aldrei úti í náttúrunni. Það er ekki gott.
- Ég hræðist mest að hesturinn fái ekki að vera hestur.

Það liggur beint við að slá botn í þetta með stórfamilíumynd frá desember 2009! Það halda sér allir vel og í formi frá því myndin var tekin og barnabörnin hafa auðvitað dafnað og stækkað. Frá vinstri. Friðgeir Ingi, Jóhann Þór, Silja Ösp, Elsa, Sonja Sif og eiginmaður hennar, Gunnar Atli. Fremst standa barnabörnin Örvar Ernir og Selma Hrönn.