Gunni málari, meistari litanna í Flügger

Staðlað

G_malari_1Gunnar Jónsson er ekki þekktur fyrir að mála bæinn rauðan. Hann kann hins vegar manna best að blanda litinn fyrir þá sem stefna út á galeiðuna og veitir góðan Svarfdælingaafslátt í verslun Flügger lita í Hafnarfirði. Það ættu sveitungar hans sunnan heiða að hafa í huga ætli þeir að mála íbúðir sínar eða heilu bæjarfélögin.

G_malari_4Föstudagsmorgunn í Flügger. Þá er vínarbrauð á borðum í kaffihorninu, aðra morgna er Sæmundur með sopanum (mjólkurkex), jafnvel Sæmundur í sparifötum á stundum (kremkex).

Málarameistarar og aðrir fastakúnnar mæta snemma til að ná sér í morgunkaffi og efni til að vinna með þann daginn. Sumir koma einungis til að þiggja kaffi, spjalla og fara svo. Það er fullkomlega leyfilegt líka.

Gunni málari þarf varla að spyrja hvað gestir vilja, hann er kominn á réttan stað við dósarekkann þegar viðskiptavinurinn ber upp erindið. Minnir helst á afgreiðslumenn við Hólabraut á Akureyri forðum þegar þeir sáu Eika Kúld við sjóndeildarhringinn á leiðinni til sín í Ríkið. Þá tóku þeir orðalaust ákavítisaumingja úr hillu og settu á borð. Eiki kom inn, borgaði þegjandi, stakk aumingjanum í hægri stakkvasann og hvarf á braut. Áreynslulaus viðskipti með öllu.

Yfirlitameistari Flügger

Arnar Hilmarsson verslunarstjóri og Gunnar Jónsson sölumaður.

Arnar Hilmarsson verslunarstjóri og Gunnar Jónsson sölumaður.

„Taktu endilega fram að Gunnar er yfirlitameistari Flügger á Íslandi,“ skaut Arnar Hilmarsson, verslunarstjóri í Hafnarfirði, inn í samtalið þegar honum þótti málarinn frá Dalvík óþarflega hógvær í spjallinu.

Sú nafnbót þýðir til dæmis það að tryggingafélög treysta mest á reynslu og þekkingu Gunna málara þegar þau þurfa að bæta tjón með því að mála einn veggi eða tvo í íbúð. Þá er eins gott að finna rétta litinn svo rýmið allt verði eins.

Tryggingamenn renna í hlað í Hafnarfirði og ota málningarflögum að Gunnari að rýna í. Hann finnur rétta litinn, blandar og réttir tryggingamönnum yfir barborðið í Flügger. Allir glaðir.

Pensillinn ekki alveg kominn á hilluna

Gunni málari  flutti suður í september 1991 og fór að mála hús og híbýli á höfuðborgarsvæðinu.  Hann vildi gjarnan skipta um starfsvettvang og gekk á milli málningarverslana í atvinnuleit en án árangurs í fyrstu. Svo fékk hann vinnu í Litaveri við Grensásveg 1992 og flutti sig síðan til Hörpu 1999.

Harpa varð Harpa-Sjöfn og fljótlega eignaðist Flügger fyrirtækið. Þannig varð Gunni málari Flügger-maður og er enn. Hann var verslunarstjóri hjá Flügger í Lindum í Kópavogi í ein fjögur ár en er nú sölumaður í Hafnarfirði og unir því vel að vera starfsmaður á plani.

Gunnar lagði málningarpensilinn ekki til fulls á hilluna forðum. Þegar Sýslari hitti hann hafði kappinn kvöldið áður málað í fyrstu íbúð dótturdóttur sinnar. Sú er að hefja búskap með kærastanum.

Svo þarf auðvitað að bera á viðarvörn og mála í sumarbústaðnum í Ásgarðslandi í Grímsnesi. Þar eru Gunnar og eiginkona hans, Guðrún Ólafsdóttir, flestum stundum en búa annars við Ofanleiti í Reykjavík.

Endastöðin í Hafnarfirði

G_malari_2

Kúnni afgreiddur fljótt og örugglega. Þeir þekkjast orðið býsna vel starfsmennirnir í versluninni og föstu viðskiptavinirnir, sem koma jafnvel dag eftir dag þó ekki væri nema til að þiggja morgunsopa í kaffihorninu.

„Ég hef verið málari allan starfsferilinn. Steini Bergs, málarameistari á Dalvík, tók mig á samning 17 ára og ég öðlaðist meistararéttindi 24 árs. Þá blandaði maður alla liti sjálfur og reyndar var meira þá en nú um standardliti tilbúna í dósum.

Núna eru bara þrír ljósir litir í versluninni hjá okkur, beinhvítt, hrímhvítt og málarahvítt. Allir aðrir litir verða til með íblöndun hér. Lagerhaldið er því tiltölulega einfalt. Það væri hryllingstilhugsun ef ætti að eiga tugi standardlita á lager!

Viðskiptavinirnir eru langmest í ljósum litum, mála kannski einn stofuvegg eða svo í dekkri lit og láta það duga.“

Gunnar verður 69 ára í apríl og veltir fyrir sér starfslokum.

„Ég fer að hætta en er ekki búinn að gera upp við mig hvenær af verður. Veit ekki hvort ég nenni að vinna til sjötugs. Alla vega er víst að Flügger í Hafnarfirði er endastöðin á starfsferlinum.

Á Dalvík á ég íbúð í raðhúsi og verð sjálfsagt þar talsvert þegar ný tilvera tekur við.

Fáðu þér svo meira vínarbrauð og mundu eftir að taka skýrt fram í pistlinum að Svarfdælingar séu afar velkomnir hingað og fái afslátt.“

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s