Anna Kristín og Glaður heim í Grund með bros og bikar

Staðlað

IMG_3197Hestakonan knáa, Anna Kristín Friðriksdóttir á Grund í Svarfaðardal, sýndi það og sannaði í Skautahöllinni í Reykjavík í kvöld að hún er komin í hóp bestu knapa landsins, einungis tvítug að aldri. Hún atti kappi við marga af bestu knöpum landsins á sterkasta móti sem hún hefur nokkru sinni tekið þátt í og náði þriðja sæti í B-úrslitum eða 8. sæti í heildarkeppninni í ístölti þar sem 29 keppendur voru skráðir til leiks.

Anna Kristín og stoltur pabbi, Friðrik á Grund. Framundan var næturferð norður en heimferðin er auðvitað ánægjulegri með bikar um borð en án bikars ...

Anna Kristín og stoltur pabbi, Friðrik á Grund. Framundan var næturferð norður en heimferðin er auðvitað ánægjulegri með bikar um borð en án bikars …

Anna Kristín keppnir í ungmennaflokki í ár og á næsta ári en hefur nú í tvígang keppt langt upp fyrir sig í ístölti og náð glæsilegum árangri. Í bæði skiptin var aðeins einn keppnisflokkur, ungmennið var með öðrum orðum að keppa í fullorðinsflokki.

Á dögunum sigraði Anna Kristín í ístöltskeppni í Skautahöll Akureyrar, sem þótti tíðindum sæta og reyndar svo miklum að henni var boðið sérstaklega til Reykjavíkur til að keppa í ístölti í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld frammi fyrir troðfullu húsi áhorfenda. Hún var fyrst allra keppenda út á ísinn, sem þykir ekki eftirsóknarvert hlutskipti í keppni af þessu tagi. Stigin dugðu henni inn í B-úrslit og þurftu ýmsir ónefnir, þjóðþekktir stórknapar að sitja eftir með sár enni og horfa á eftir Grundarkonu stinga sig af.

Í B-úrslitunum voru fimm keppendur og segir sína sögu um baráttuna að allir fimm gengu til úrslitakeppni með sömu aðaleinkunn, 7,43! Anna Kristín var í fyrsta sæti framan af en átti við ofurefli að etja þegar á leið og hafnaði í þriðja sæti eftir aldeilis æsilega keppni. Hún sýndi það svo um munaði að sigurinn á Akureyri var engin tilviljun og fylgdi honum rækilega eftir með því að þjarma að sér eldri og reyndari reiðmönnum hér syðra.

Hafi knapinn knái á Grund ekki verið kominn á landskortið fyrir ístöltsmótin er hann sannarlega kominn það nú. Vert er að nefna hlut Sölva Sigurðssonar á Sauðárkróki sem hefur þjálfað Önnu Kristínu og verið stoð hennar og stytta í á reynslubraut reiðmennskunar. Hann hvatti hana til að þiggja boð um að keppa í Skautahöllinni, slóst sjálfur með í för og var henni innan handar á keppnisstað.

Gleðin var ósvikin að leikslokum og meira að segja Glaður brosti. Sárasjaldgæft er að sjá útbreitt glott á hrossi en slík undur bar fyrir í Laugardalnum í kvöld.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s