Jaxl og fjölfræðingur

Staðlað

Hann titlar sig „Jaxlinn“ á Fésbók en gæti allt eins skráð sig „fjölfræðing“ bæði þar og í símaskránni. Eiginlega er fljótlegra að nefna það sem Dalvíkingurinn Þorsteinn Helgi Guðbjörnsson hefur ekki gert um dagana en það sem hann hefur sýslað við til  að afla sér reynslu, þekkingar og tilheyrandi starfstitla.

Nú um stundir færir hann út kvíar skrifstofuhalds Alþýðusambands Íslands og lífeyrissjóða í Reykjavík en gerir hlé á þeim verkum í nokkrar vikur til að setja saman kvíar fiskeldis í Bíldudal. Og svo styttist í páskafrí á heimaslóðum fyrir norðan.

Vissulega er spottakorn í tilverunni frá því að hnoða deig í bakaríi á Dalvík og færa fisk á disk í hóteleldhúsi KEA á Akureyri til þess að negla og saga í nýbyggingu ASÍ-kontórsins við Guðrúnartún í Reykjavík. Þeir sem þekktu til drengsins á Dalvík forðum töldu blasa við að hann yrði bakari eða kokkur þegar hann yrði stór. Og þeir sem hann býður til matar nú eru á því að Steini jaxl eigi að leggja fyrir sig matargerð og helst að stofna eigið veitingahús. Hver veit upp á hverju hann tekur. Hann er eiginlega enn ekki alveg búinn að ákveða hvað hann vilji verða! Veitingahús er ekki endilega markmiðið en best er að útiloka ekkert.

Sjálflærður bakari og kokkur

IMG_2226Þorsteinn er sonur/fóstursonur Hallfríðar Þorsteinsdóttur hárgreiðslumeistara og  Ríkarðs Björnssonar bakarameistara. Rikki er borinn og barnfæddur Dalvíkingur og rak um árabil bakarí á Dalvík. Þau hjón fluttu til suður fyrir nokkrum árum og búa í Kópavogi. Steini vann mikið í bakaríinu pabba síns. Hann byrjaði sem bakaradrengur og varð smám saman sjálflærður bakari. Í ljós kom einu sinni fyrir tilviljun að hann hafði fullkomið vald á bakstrinum. Lærðu og reyndu bakararnir forfölluðust og Steini stóð næturvaktina einn til morguns. Hann byrjaði reyndar strax um miðnættið til að hafa vaðið fyrir neðan sig. Dalvíkingar fengu brauðin sín að morgni dags og ekki nokkur maður kvartaði, enda engin ástæða til. Bakaradrengurinn vissi alveg hvað hann var að gera.

Síðar fór Steini í kokkanám. Hann starfaði um hríð með sjálfum Rúnari Marvinssyni á veitingastaðnum hans Við Tjörnina í Reykjavík og gerði þriggja ára reynslusamning við Hótel KEA á Akureyri. Á þeim tíma spilaði hann fótbolta með liði Dalvíkinga og auðvitað hlaut knattreksturinn að stangast á við eldamennskuna. Vinnutíminn átti heldur ekki við matreiðslumanninn unga. Hann hætti sem atvinnukokkur, lætur áhugamennsku duga í eldhúsinu og víst bara fjári glúrinn þar.

Húsasmiður, iðnrekstrarfræðingur og bráðum viðskiptafræðingur

Steini er iðnrekstrarfræðingur og vann fyrir þeim starfstitli með fjarnámi Háskólanum á Akureyri. Hann ákvað síðan að leggja iðnrekstrarfræðina í púkk með viðbótareiningum til að fá próf í viðskiptafræði og þarf nú að loka dæminu með prófritgerð. Hann hefur hins vegar verið svo önnum kafinn í öðrum verkum að ritgerðaskrifin eru í biðstöðu en vonast til að setjast að skriftum fyrr en síðar. Annars hefur hann öðlast svo mikla reynslu í viðskiptum af ýmsu tagi að hann er fyrir löngu orðinn viðskiptafræðingur í raun; skítt með ritgerðina.

Svo er jaxlinn Steini húsasmíðameistari líka og starfar sem smiður nú um stundir. Hann var skrifstofustjóri í hlutastarfi hjá Tréverki á Dalvík forðum daga og smíðaði þar líka. Smíðasýslið kveikti áhuga á að læra til smiðs. Hann fékk námssamning við Tréverk og lauk sveinsprófi í húsasmíði 1997. Meira en áratug síðar tók hann upp þráðinn í faginu og lauk meistaraprófi í húsasmíðum árið 2010.

Litríkur starfsferill

Starfsferill Steina er fjölbreyttur og sviptingasamur á köflum. Samt hefur drengur enn ekki ákveðið hvað hann ætli að verða þegar hann verður stór! Einfaldast er að gefa hér stutta skýrslu:

  • Tréverk: skrifstofuhald og smíðar.
  • KEA: innheimtustjórn. Samskipti við bændur og búalið um nyt í kúm, mjólkurkvóta, skepnuhald og tilheyrandi. Hálfgildings búfræðinám í leiðinni.
  • KEA: starf í tölvudeild.
  • Byggingarfélagið Árfell ehf.: bókhald og síðan umsjón með rekstri eftir að annar eigandinn og skáfrændi Steina féll frá, Dalvíkingurinn Daníel Hilmarsson.
  • Salka fiskmiðlun: fjármálastjórn í þeim hluta rekstrar sem var í Reykjavík.
  • BYKO: verkefnastjóri á sérlausnasviði.
  • HRV: skrifstofu- og fjármálastjórn. HRV er fyrirtæki sem verkfræðistofurnar Hönnun, Rafhönnun og VST stofnuðu til að sinna framkvæmdum og þjónustu við álver og önnur stóriðjufyrirtæki. Steini var fyrsti starfsmaður á launaskrá HRV.
  • Maritech: sölumaður.
  • ESigurðsson: smíðavinna frá haustinu 2013. Vinnur sem undirverktaki hjá  Þarfaþingi ehf. í verkefninu að Guðrúnargötu 1.

Steini ákvað sem sagt að dusta rykið af gamla faginu sínu og gerðist smiður á nýjan leik. Hann er seldur út á vegum Legato slf., félags sem þau hjón stofnuðu um verktakarekstur sinn, Jóhanna Vigdís Arnardóttir leikkona og Steini. Hún er framkvæmdastjóri, hann meðstjórnandi. Legato getur sum sé útvegað viðskiptavinum sínum leikara, iðnrekstrarfræðing, húsasmið, verkefnastjóra, skrifstofustjóra, fjármálastjóra, innheimtustjóra, tölvumann og liðtækan áhugakokk. Það teljast nú tæplega nein smáræðistilþrif í tveggja manna kompaníi

Veiðiferðin og bráðin örlagaríka

Hjónin Steini Jaxl og Jóhanna Vigdís á þorrablóti Sunnan svarfdælinga fyrr í vetur.

Hjónin Steini Jaxl og Jóhanna Vigdís á þorrablóti Sunnansvarfdælinga  fyrr í vetur.

Steini jaxl gengur oft til veiða og skýtur rjúpu, gæs eða hreindýr. Slíkt telst ekki til tíðinda. Ef fylgir sögu að hann hafi náð sér í eiginkonu út á hreindýrskú sem hann felldi í Mjóafirði, í fyrsta skotinu sem hann hleypti af riffli á ævinni, ja þá hljóta menn að staldra við með spurn í augum. Veiðimaðurinn sjálfur leysir frá skjóðunni:

„Ég hafði aldrei farið á hreindýraveiðar og aldrei hleypt af riffli en 2003 ákvað ég að heiðra minningu Daníels frænda míns Hilmarssonar með því að fara austur og freista þess að fella hreindýr. Austurland freistaði mín ekki út af fyrir sig. Þangað fór Dalvíkurliðið nokkrum sinnum vegna fótboltaleikja, alltaf í þoku eða rigningu og alltaf töpuðum við! Danni fór árlega til hreindýraveiða og bróðir hans, Björn Ingi leikari, var strax til í að leggja í þennan leiðangur með mér. Ég sótti um og keypti veiðileyfi og við fórum austur.

Veiðidagurinn var bjartur og sólríkur, algjör bongóblíða. Ég fékk fylgdarmann og við héldum tveir til fjalls, ég með kíkisriffil á bakinu en hafði hvorki hleypt af skoti úr honum né öðrum rifflum. Ég hafði einhverja reynslu af að taka hæðarpunkta í kíki í húsasmíðum og vonaðist til að sú reynsla dygði til að hitta hreindýr. Það kom líka á daginn! Við komumst í færi við hreindýrskú og lögðumst niður, ég skaut og felldi dýrið.

Svo ristum við kúna á kvið og tókum innan úr henni. Þá sagðist leiðsögumaðurinn þurfa að fara í annað verkefni og skildi mig einan eftir á fjallinu með kýrskrokkinn. Góð ráð voru dýr. Ég byrjaði á því að draga skrokkinn á hornunum áleiðis niður en augljóst var að mér myndi miða hægt og bráðin færi illa við slíka meðferð. Ég klæddi mig því úr að ofan, tók skrokkinn upp á axlir og bar hann niður í áföngum. Þessi ríflega 55 kíló sigu í en niður á veg komst ég um tíuleytið um kvöldið. Þá var komið rökkur og ég ekki árennilegur á að líta; vopnaður, blóðugur og sveittur eins og Rambó í villtri aksjón!

Við keyrðum suður og skiptum bráðinni. Síðar sagði Björn Ingi vinnufélögum sínum í Borgarleikhúsinu veiðisöguna, þar á meðal Jóhönnu Vigdísi. Hún á að hafa sagt sem svo um lýsinguna á mér: „Svona menn eru nú bara ekki til!“ Hún átti nú eftir að sannreyna það.“

Óvenjuleg en skilvirk pikköpplína

„Björn Ingi bauð mér í leikhúsið nokkru síðar og yfir bjór með leikurunum að sýningu lokinni spurði Jóhanna Vigdís hann hvort ég væri umræddur veiðimaður. Hann gaf lítið út á það. Svo leið nokkur tími og ég var staddur á Ölstofu Kormáks og Skjaldar þegar Jóhanna Vigdís heilsaði mér og spurði: „Hefurðu veitt hreindýr?“ Ég játti því og þessi pikköpplína hennar virkaði vel og skilaði árangri.

Ég gulltryggði svo sambandið með því að gefa henni þá um jólin leðurkápu úr húð hreinkýrinnar og tveggja dýra til viðbótar. Sigríður Sunneva fatahönnuður sneið leðrið í kápuna og dóttir Steinunnar Hafstað, sem áður átti heima í Laugasteini í Svarfaðardal, saumaði flíkina.

Ferðin í minningu Danna frænda heppnaðist því í alla staði vel. Björn Ingi bróðir hans plægði síðan akurinn fyrir mig svo vel í framhaldinu að ég tel mig geta sagt með sanni að ég hafi fengið tvö kvendýr út á eitt veiðileyfi!“

Páskar í Svarfaðardal

Steini gerði hlé á smíðunum við Guðrúnartún  núna í mars og hvarf vestur í Bíldudal til að taka þátt í því að setja saman sex fiskeldiskvíar fyrir Arnarlax ehf. Það verður nokkurra vikna úthald fyrir Akva Group í Noregi sem selur búnað til fiskeldis.

Eftir það tekur hann til við smíðarnar aftur og svo grillir í páskafríið. Þá ætlar fjölskyldan að dvelja í eina viku í Svarfaðardal, nánar til tekið á Bakka, og renna sér á skíðum í Böggvistaðafjalli ofan Dalvíkur. Þau hjón voru fyrir norðan um páskana í fyrra og renndu sér á skíðum. Leikhússtjórinn hafði nokkrar áhyggjur af tiltækinu og lagði ríka áherslu á það við Jóhönnu Vigdísi að fara sér varlega í fjallshlíðum Norðurlands. Hann sá ekki fyrir sér Mary Poppins hoppa um á sviði Borgarleikhússins í gipsi og með hækjur.

Norðurferðin hafði engar slíkar afleiðingar. Svarfdælska fjallaloftið og dalvíski snjórinn urðu bara til þess að gera Mary Poppins enn sprækari á fjölunum og var hún samt giska spræk fyrir.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s