Hnjúksarinn Raggi í Ytra-Garðshorni lítur um öxl

Staðlað
Jón Ragnar við stofuglugga heima á Seltjarnarnesi. Það var vetrarlegt um að litast þennan dag marsmánaðar 2014.

Jón Ragnar við stofuglugga heima á Seltjarnarnesi. Það var vetrarlegt um að litast þennan dag marsmánaðar 2014.

Hann reyndi fyrir sér á leiklistarbrautinni og lék hundgá fyrst og símskeytasendil svo í leiksýningum hjá ungmennafélaginu Þorsteini Svörfuði á Þinghúsinu að Grund.

Síðar horfði hann til himins og ætlaði að verða prestur. Hann horfði enn og aftur til himins og valdi þá frekar að fljúga en að gerast andlegur tengliður manna og almættisins.

Jón Ragnar Steindórsson komst þar með á rétta hillu.

Frétt í Degi 8. nóvember 1950. Það þótti tíðindum sæta að aðstæður til svifflugs á Melgerðismelum væru svona  hagstæðar í nóvembermánuði!

Frétt í Degi 8. nóvember 1950. Það þótti tíðindum sæta að aðstæður til svifflugs á Melgerðismelum væru svona hagstæðar í nóvembermánuði!

Ein sterkasta barnsminning Ragga í Ytra-Garðshorni, eins og hann gjarnan var kallaður í Svarfaðardal, er frá flugsýningu á Melgerðismelum í Eyjafirði sumarið 1938. Þá var hann fimm ára og var þar trúlega á ferð með pabba og mömmu en er ekki viss. Hann man betur eftir flugvélum en foreldrum þann daginn.

Einhver flughugur gerði vart við sig hjá pjakknum þegar hann var í Dalnum innan við fermingu. Steinunn Pétursdóttir rifjaði upp síðar að hann hefði tyllt sér upp á Stekkjarhólinn í Ytra-Garðshorni og látið flugmódel svífa niður af honum í spotta. Svo hafði hann yngri sendla í vinnu við að ná í módelið og færa sér upp á hólinn til að senda það niður á nýjan leik.  Fyrirkomulagið var skilvirkt og sparaði sporin.

Jón Ragnar skráði sig í Módelfélag Akureyrar fjórtán ára gamall og ári síðar byrjaði hann í sviffluginu hjá Svifflugfélagi Akureyrar á Melgerðismelum. Engan veginn var sjálfsagt mál að fimmtán ára strákur fengi leyfi til að æfa svifflug en hann gaf sig ekki og uppskar skriflega undanþágu eftir talsvert þjark og bréfaskriftir við þá sem leyfið veittu á endanum.

Færandi Fokkerinn heim

Þar með var ekki aftur snúið en það liðu þó nokkur ár þar til Jón Ragnar fór í flugskólann Þyt í Reykjavík og daginn eftir að hann útskrifaðist vorið 1953 hóf hann störf sem flugkennari hjá Þyti. Sá ferill varð afar skammur því einungis fáeinum vikum síðar varð Jóhannes Snorrason flugstjóri á vegi hans í Reykjavík og hann spurði Jón Ragnar hvort hann gæti byrjað sem flugmaður hjá Flugfélagi Íslands að morgni næsta dags! Jón hafði áður þreifað áður fyrir sér hjá Flugfélaginu en fékk dræmar undirtektir við fyrirspurn um starf. Nú kom tækifærið og hann greip það eftir að hafa fengið Siglfirðinginn og flugmanninn Henning Á. Bjarnason til að hlaupa í skarð fyrir sig sem kennara hjá Þyti.

Jón Ragnar er í hópi reyndustu flugmanna Íslendinga og þarf ekki lengi að fletta flugsögunni til að sjá að hann hefur tekið þátt í að brjóta þar blað og það oftar en einu sinni, bæði í innanlands- og millilandaflugi.

  • Nýi Fokkerinn Blikfaxi lenti í fyrsta sinn á Akureyrarflugvelli vorið 1965. Frá vinstri: Henning Bjarnason aðstoðarflugstjóri, Rúna Birna Sigtryggsdóttir yfirflugfreyja, fulltrúi framleiðanda Fokkersins, Unnur Gunnarsdóttir flugfreyja og Jón R. Steindórsson flugstjóri. Dagur 19. maí 1965.

    Nýi Fokkerinn Blikfaxi lenti í fyrsta sinn á Akureyrarflugvelli vorið 1965. Frá vinstri: Henning Bjarnason aðstoðarflugstjóri, Rúna Birna Sigtryggsdóttir yfirflugfreyja, ónefndur fulltrúi framleiðanda Fokkersins, Unnur Gunnarsdóttir flugfreyja og Jón R. Steindórsson flugstjóri. Dagur 19. maí 1965.

    Hann var flugstjóri fyrstu Fokker Friendship-skrúfuvélar Flugfélags Íslands, Blikfaxa, sem kom til landsins í maí 1965. Vélakaupin mörkuðu tímamót í innanlandsfluginu og Blikfaxa var fagnað við hátíðlega athöfn í fyrstu ferðunum til Akureyrar 16. maí og Ísafjarðar 17. maí 1965.

  • Hann var flugstjóri í fyrsta áætlunarflugi Flugfélagsins til Færeyja 23. júlí 1963. Vélin lenti þar og hélt síðan áfram til Björgvinjar í Noregi, Kaupmannahafnar, aftur til Björgvinjar, Færeyja, Glasgow og Reykjavíkur.

Fyrstu kynni af Svarfdælingum

Jón Ragnar Steindórsson í mars 2014. Mynd: ARH.

Jón Ragnar Steindórsson í mars 2014. Mynd: ARH.

Jón Ragnar Steindórsson kom fyrst í Svarfaðardal níu ára gamall. Hann leit um öxl með Sýslara í stofunni heima á Seltjarnarnesi á dögunum og tók skýrt fram að samtalið mætti ekki dragast fram eftir öllum degi því hann yrði að vera kominn í Hafnarfjörð tímanlega til að horfa á leik Hauka og FH í Íslandsmótinu í handbolta. Dóttursonurinn Einar Pétur Pétursson spilar með Haukum og í bikarúrslitaleik Hauka og ÍR nokkrum dögum áður var afastrákurinn hetja Hafnfirðinga með því að skora sigurmarkið nokkrum sekúndum fyrir leikslok. Stoltur afinn horfði á og ætlaði ekki að láta sig vanta í áhorfendastúkuna í uppgjöri Hafnarfjarðarliðann. Hann komst örugglega á leikinn og horfði á dóttursoninn og aðra nýkrýnda bikarmeistara úr Haukum sigra örugglega.

„Jóhannes Haraldsson í Ytra-Garðshorni lærði smíðar hjá Jóhanni Sigurðssyni á Akureyri, bróður Engilráðar á Bakka, Rannveigar á Jarðbrú, Jonna á Sigurhæðum og þeirra systkina allra. Jóhann var faðir Arngríms flugstjóra sem síðar var kenndur við flugfélagið Atlanta. Jóhannes hafði keypt pallbíl með tréhúsi og með honum fór ég út í Ytra-Garðshorn. Þegar þangað var komið heim á hlað hugsaði ég: Þetta er þá steinhús! Ég var sjálfsagt kvíðinn og hafði búið mig undir önnur og lakari húsakynni. Skemmst er frá að segja að mér var afar vel tekið. Það stafaði mikilli og eftirminnilegri hlýju frá hverjum manni þarna. Fólkið var svo vinsamlegt að aldrei gleymist.

Ég var að koma til sumardvalar og geri ráð fyrir að Malla frænka mín á Þverá hafi haft milligöngu um að finna mér dvalarstað í Ytra-Garðshorni. Ég var ekki skyldur fjölskyldunni og þekkti engan sem þar átti heima. Ég átti eftir að vera þarna mörg sumur og tvo vetur líka vegna veikinda móður minnar. Anna Jóhannesdóttir, húsfreyja í Ytra-Garðshorni, tók mig alveg að sér og mátti ekki af mér sjá. Hún leiddi mig í fyrstu um allt, bæði úti og inni, og sagði mér að passa mig á hinu og þessu. Löngu síðar þóttist ég skilja að þessi mikla umhyggja hennar hefði tengst því að skömmu áður hafði hún misst son sinn ungan, Halldór Kristin. Ég kom til sögunnar í sorgarferli hennar.“ 

Runólfur í Dal bauð upp á súlfa

Jón Ragnar Steindórsson með forystutíkina Vilm sem var farþegi í flugi til Grænlands. Morgunblaðið 7. mars 1967.

Jón Ragnar Steindórsson með forystutíkina Vilm sem var farþegi í flugi til Grænlands. Morgunblaðið 7. mars 1967.

„Heimafólk í Ytra-Garðshorni þarna í upphafi voru hjónin Anna og Haraldur Stefánsson. Þarna var líka Rikka, dóttir Önnu og Haraldar, með Ævar son sinn lítinn. Friðrika eða Rikka varð síðar húsfreyja á Ytra-Hvarfi. Hjalti Haraldsson, síðar bóndi í Ytra-Garðshorni, var þarna líka, ókvæntur enn, og Hrönn systir hans mjög ung. Svo bjuggu þarna Jóhannes Haraldsson og Steinunn Pétursdóttir, nýtrúlofuð, og voru þar til þau fluttu í Laugahlíð. Mér er alltaf minnisstætt hve geislandi falleg Steinunn var. Hún var eins og ég ímyndaði mér að Mjallhvít liti út!“

Þegar Jón Ragnar kom fyrst í Svarfaðardal vissi hann ekkert um ættarrætur sínar þar um slóðir en varð smám saman áskynja um þær, ekki síst eftir að hann kynntist fræðaþulnum og ættfræðingnum á næsta bæ. Björn R. Árnason á Grund („Runólfur í Dal“), sá er skrifaði síðar um sterka ættstofna á Norðurlandi, rölti stundum um tún eða til fjalls með drenghnokkanum frá Akureyri og ræddi við hann málin. Jón Ragnar minnist þess að Björn hafi verið nokkuð sótthræddur og einu sinni hóstaði Jón á göngunni. Björn dró þá upp litla dós úr vasa sínum og bauð göngufélaga sínum súlfatöflu. Þeir Daníel læknir í Árgerði voru góðir vinir og doktorinn sá til þess að Björn væri alltaf birgur af sýklalyfjum. Jóni Ragnari líkaði annars vel röltið með Birni á Grund en undraðist síðar að hann gæfi sig að slíku skrafi við ungan dreng.

Björn varð framar öðrum til þess að ættfæra drenginn og vísaði til dæmis til frændfólksins handan Svarfaðardalsár. Á Hofi bjó nefnilega Ingibjörg Þórðardóttir, kona Gísla Jónssonar bónda þar og afasystir Jóns Ragnars. Faðir Ingibjargar og langafi Jóns Ragnars var Þórður Jónsson bóndi á Hnjúki. Þórður átti hins vegar ekki afa Jóns Ragnars með Halldóru eiginkonu sinni heldur með stúlku á Hreiðarsstöðum, Aðalbjörgu Jónsdóttur að nafni. Björn á Grund fór ekki nánar út í þetta ástarfjöltefli í Skíðadal með drengnum unga og skyldi nú engan undra.

Hnjúksari og prins í suðurherberginu

Vísir 5. febrúar 1964.

Vísir 5. febrúar 1964.

Jón Ragnar aflaði sér síðar upplýsinga um Skíðadalsrætur sínar og komst að því að Þórður á Hnjúki hefði ekki látið sitja við að gera stúlkunni á Hreiðarsstöðum barn utan hjónabands heldur sá hann til þess að barnsmóðirin flytti heim að Hnjúki með son sinn og mátti frú Halldóra húsfreyja engu hnika til um það ráðslag. Þórður bóndi og Aðalbjörg eignuðust annað barn heima á Hnjúki tveimur árum síðar. Búskapurinn var sem sagt meira en baslið eitt.

„Ég fagnaði því auðvitað að komast að því að ég ætti rætur í Skíðadal og fór að kalla mig „Hnjúksara“ og geri enn! Snorri Sigfússon námsstjóri kallaði mig „frænda“ og einu sinni gaf hann mér ljósmynd af Aðalbjörgu langömmu minni, barnsmóður Þórðar á Hnjúki. Hún flutti síðar að Ingvörum og bjó þar hjá systur sinni.

Sjálfur lifði ég eins og prins í ævintýrunum heima í Ytra-Garðshorni og hafði aðsetur í suðurherberginu í risinu. Það hafði ég út af fyrir mig og gat lesið og lært í ró og friði. Fólkið dekraði við mig!

Ég var í skóla á Þinghúsinu hjá Þórarni Kr. Eldjárn á Tjörn, einstökum manni. Við vorum í skólanum aðra hvora vikuna, yngri og eldri deild. Menn gengu þangað og heim aftur á hverjum degi. Við lærðum íslensku, reikning, landafræði, heilsufræði og náttúrufræði. Fyrir kom að Þórarinn þurfti að fara á kaupfélagsfundi og þá kenndi Jónsi á Jarðbrú í staðinn. Honum fórst það vel og hann var líka oft prófdómari hjá Þórarni.

Ég man eftir nokkrum krökkum úr Þinghússkólanum, til dæmis Þráni og Auði á Völlum, bræðrunum á Hofsá, öðrum bræðrum af austurkjálka sem kallaðir voru Danni og Kommi, Reimari á Steindyrum og fleirum.

Við Bubbi Dan. í Syðra-Garðshorni vorum miklir mátar, bæði í skóla og utan hans. Reyndar kom ég oft í Syðra-Garðshorn, þetta mikla menningarheimili, og var hrifinn af fólkinu þar.

Ég man vel eftir þegar greint var frá því í fréttum að maður úr brúarvinnuflokki hefði synt yfir Jökulsá á Fjöllum nálægt þeim stað þar sem verið var að brúa fljótið. Svo spurðist út að sá væri Gísli Þorleifsson frá Hofsá. Við vissum fyrir að hann væri ofurmenni, til dæmis var hann með afbrigðum fiskinn og landaði fleiri silungum úr Svarfaðardalsá en flestir aðrir. Sögur gengu um að Gísli byrjaði á því kafa í hyljina í ánni til að kanna hvar fiskurinn héldi sig og kastaði svo beint fyrir hann af bakkanum. Ég trúði þessu en Bubbi var frekar efins og spurði einu sinni, eins og við sjálfan sig: „Ætli það sé ekki helvítis lygi að Gísli kafi í ánni?““

Seint birtist Moggi en birtist samt

„Seinna átti fyrir mér að liggja að gerast ráðsmaður um hríð hjá Hjalta frá Ytra-Garðshorni þegar hann bjó um hríð á Litla-Hamri í Eyjafirði. Það kom ekki til af góðu.

Forsíðufrétt í Laugardagsblaðinu 25. júní 1955. Árni Bjarnarson bóksali á Akureyri gaf þetta blað út á árunum 1954-1962.

Forsíðufrétt í Laugardagsblaðinu 25. júní 1955. Árni Bjarnarson bóksali á Akureyri gaf þetta blað út á árunum 1954-1962.

Ég var líklega 16 ára þá og Hjalti bað mig um að vera kaupamann hjá sér um sumarið. Svo vorum við einn daginn að basla við súgþurrkunarmótor og hífa hann upp vegna viðgerðar. Kaðall slitnaði og mótorinn lenti ofan á hönd Hjalta sem slasaðist svo illa að hann var frá vinnu allt sumarið. Þá var ég dubbaður upp í að verða ráðsmaður og gekk í öll verk. Það gekk ágætlega en ég færðist samt undan einu verki. Mér geðjaðist ekki að því að farga hænum!

Síðustu verkin mín í Svarfaðardal tengdust Hjalta. Hann keypti dráttarvél, plóg og herfi til að gerast verktaki í jarðabótavinnu og réði mig til verksins að hausti til. Mér leist ekkert á en sló til og vann á bæjum í Tjarnarsókn fram að skólasetningu á Akureyri, frá Syðra-Holti fram í Brekkukot. Síðar fór ég að vinna á BSA-verkstæðinu á Akureyri og Hjalti bað mig um að koma út í dal til að gera upp mótor í dráttarvél. Mér tókst að rífa vélina í sundur, koma henni saman aftur og gangsetja. Það var bara talsvert afrek, fannst mér, og þetta var síðasta verkefnið mitt í Svarfaðardal.

Ég hélt alltaf góðu sambandi við heimafólk í Ytra-Garðshorni og einu sinni lentum við Tryggvi Helgason flugmaður kennsluvél á túninu þar til að heilsa upp á mannskapinn og þiggja kaffisopa. Ég man líka eftir einu flugi frá Akureyri til Reykjavíkur með farþega á vegum Flugfélagsins. Mér datt í hug að koma Morgunblaðinu fersku til Garðshornsmanna, vafði blaðinu inn í plast, flaug yfir Svarfaðardal og henti blaðapakkanum niður þannig að líklegt væri að hann lenti á túninu í Ytra-Garðshorni. Mogginn sást hins vegar hvergi en kom á heynál úr stabba í hlöðunni um veturinn, jafnlæsilegur og fyrr en fréttirnar ekki alveg ferskar.“

Skólablaðið Brandarinn og örlögin

TF-Kan MK II, systurvél þeirrar sem Jón Ragnar og Tryggvi lentu á túninu í Ytra-Garðshorni 1955. Tekið í Múlakoti í Fljótshlíð í júlí 1988. Mynd: Pétur P. Johnson.

TF-Kan MK II, systurvél þeirrar sem Jón Ragnar og Tryggvi lentu á túninu í Ytra-Garðshorni 1955. Tekið í Múlakoti í Fljótshlíð í júlí 1988. Mynd: Pétur P. Johnson.

Jón Ragnar fór í Gagnfræðaskólann á Akureyri og lauk honum en ekki alveg hávaðalaust. Hann hafði verið í æskulýðsstarfi Akureyrarkirkju, kynntist þar séra Pétri Sigurgeirssyni vel og hafði sjálfur hugsað sér að verða prestur. Jón og skólafélagar hans tveir, Jón Bjarman – síðar prestur og Friðbjörn JJ Gunnlaugsson – síðar skólastjóri, gáfu út blaðið Brandarann í skólanum og fengu stensla til fjölritunar hjá Akureyrartónskáldinu mikla, Björgvin Guðmundssyni.

Þorsteini M. Jónssyni skólastjóra mislíkaði verulega ein grein í Brandaranum og það svo mjög að hann vék útgefendunum úr skóla. Þeir gengu þá á fund Þórarins Björnssonar skólameistara og fengu inni í Menntaskólanum á Akureyri.  Áður en þeir settust á skólabekk í MA bárust skilaboð um að sáttanefnd hefði verið sett á laggir í gagnfræðaskólanum að frumkvæði séra Péturs. Sættir tókust. Jón og Friðbjörn hættu við að fara í MA en Jón Bjarman hélt sínu striki og lauk þaðan stúdentsprófi.

Þarna réðust örlög tveggja Jóna, annar horfði til himins og gerðist prestur, hinn horfði til himins og gerðist flugmaður. Þetta er að minnsta kosti söguskýring Jóns Ragnars.

Fæddist í herbergi skáldsins frá Fagraskógi

Svarfdælingahúsið að Norðurgötu 1 á Akureyri. Myndin er tekin í mars  2011 og birt á vefnum akv.is.

Svarfdælingahúsið að Norðurgötu 1 á Akureyri. Myndin er tekin í mars 2011 og birt á vefnum akv.is.

Jón Ragnar fæddist á Akureyri 1933. Afi hans og amma höfðu búið á Karlsá utan Dalvíkur í níu ár en fluttu til Akureyrar 1930 í nýbyggt hús fjölskyldunnar að Eiðsvallagötu 1. Afinn og amman bjuggu á neðstu hæð, Þórður föðurbróðir Jóns og fjölskylda á miðhæð og foreldrar hans í risinu. Þar uppi var leigjandi í herbergi, sjálfur Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi. Þegar von var á Jóni Ragnari í heiminn þurfti fjölskyldan unga meira húsrými og leigjandinn varð að víkja. Í þessu herbergi skáldsins fæddist svo Jón Ragnar Steindórsson.

Að Norðurgötu 16 á Akureyri hafði verið reist stórt og myndarlegt parhús 1926, tengt Svarfaðardal og meira að segja kallað „Svarfdælingahúsið“. Sveinbjörn Jónsson, síðar kenndur við Ofnasmiðjuna í Reykjavík, og fleiri af Hnjúksætt reistu húsið. Þarna bjó meðal annars Jakob Tryggvason organisti frá Ytra-Hvarfi. Jón Ragnar minnist þess að hafa séð þar frænku Jakobs, Þórunni Jóhannsdóttur, sem þótti undrabarn í tónlist og var stundum einfaldlega kölluð „undrabarnið“. Hún varð píanóleikari og 1961 giftist hún rússneska píanósnillingnum og hljómsveitarstjóranum Vladímír Ashkenazy. Þar sameinuðust tvö undrabörn.

Rætur í dölum beggja vegna Rima

Jón Ragnar og Tryggvi Helgason voru mikið saman í svifflugi á Akureyri og ákváðu að bæta við sig reynslu og þekkingu á því sviði. Þeir fóru utan 1951 og sú ferð varð Jóni gæfuríkari en hann hugði.

„Við Tryggvi vorum nánast óaðskiljanlegir. Hann var afar vel gefinn og klár maður en við vorum ósammála um nánast allt! Við félagar fórum til Lundúna í svifflugskóla og við flugvöllinn var hús sem ég tók strax eftir og notaði gjarnan sem kennileiti í fluginu. Það kom á daginn að í húsinu bjó stúlka frá Reykjavík, Auður Albertsdóttir. Hún var skóla í Luton, skammt þar frá. Í framhaldinu varð hún kærasta mín og eiginkona.

Fljótlega eftir heimkomuna til Íslands fékk ég vinnu á Keflavíkurflugvelli fyrir milligöngu vinar míns séra Péturs á Akureyri. Svo leiddi eitt af öðru og ég fór í flugskólann Þyt og fékk síðan starf sem flugmaður árið 1953 og fór að fljúga Þristi og Katalínu hér innanlands. Það var upphafið að ævistarfinu og ég hætti störfum sumarið 1996.

Ég hugsa oft um Svarfaðardal og fólkið sem ég kynntist nyrðra. Og svo má ekki gleyma því að handan Rima eru rætur föðurömmu minnar. Hún var frá Grund í Þorvaldsdal og ég átti skyldmenni á Selárbakka og víðar á Árskógsströnd.

Ég er stoltur Hnjúksari og lít á Ytra-Garðshorn sem annað heimili mitt. Tengslin við Garðshornsfólk hafa aldrei rofnað, til dæmis var Albert sonur okkar í sveit í Ytra-Garðshorni í mörg sumur og heldur sambandi við börn Önnu og Hjalta [Albert er sendiherra Íslands í Moskvu og var áður sendiherra í Þórshöfn í Færeyjum og í Washington]. Uppruninn er í Svarfaðardal og því held ég alltaf til haga.“

2 athugasemdir við “Hnjúksarinn Raggi í Ytra-Garðshorni lítur um öxl

  1. Mjög gaman að þessu viðtali við Jón Steindórsson. Vel gert.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s