Svarfdælskur mars og fjör á Þinghúsinu að Grund vorið 1980

Staðlað

Anna Jóhannsdóttir í Syðra-Garðshorni og Steinar Steingrímsson frá Ingvörum á fullri ferð á gólfinu. Anna var þarna 87 ára og bjó í Dalbæ á Dalvík. DB-mynd: Helgi Már Halldórsson.

Þrettándi dagur aprílmánaðar árið 1980. Vor í lofti í Svarfaðardal. Á Þinghúsinu að Grund dunar dans í kastljósum kvikmyndavéla.

Það er verið að filma svarfdælska marsinn. Upptakan sú er einstök heimild um Svarfdælinga á þessum tíma ekki síður en um dansinn sjálfan.

Konurnar sem eiga heiðurinn af því að myndin af marsinum var tekin upp: Sigríður Þ. Valgeirsdóttir t.v. og Mínerva Jónsdóttir. DB-mynd: Helgi Már Halldórsson.

Svarfdælingar komu saman og dönsuðu prúðbúnir um miðjan dag í tilefni af upptökunni. Sigríður Þóra Valgeirsdóttir, prófessor í Kennaraháskóla Íslands og Mínerva Jónsdóttir, íþróttakennari á Laugarvatni, höfðu frumkvæði að því að kvikmynda svarfdælska marsinn. Báðar eru látnar og hafi þær mikla og kæra þökk fyrir þetta frumkvöðla- og góðverk sitt.

Sigríður stofnaði Þjóðdansafélags Reykjavíkur árið 1951. Hún hafði alla tíð mikinn áhuga á dansi og danssögu. Hún dansaði sjálf víkivaka á Alþingishátíðinni 1930 og eftir að hún hóf nám í Berkeley háskóla í Kaliforníu 1943 fór hún að lesa sér til um dans og dansfræði, auk þess að næla sér í kennsluréttindi í öllum þeim greinum danslistarinnar sem hún komst yfir að læra.

Síðar átti fyrir Sigríði að liggja að stúdera dansmennt á Íslandi og skrá sögu dansins hér á landi. Árið 1995 kom út mikið verk eftir þær Mínervu, sem hafði þá nýlokið þriggja ára námi í skráningu dansa sem nemandi Sigríðar. Þær sendu frá sér tveggja binda verk upp á hátt í 500 blaðsíður: Gömlu dansarnir í tvær aldir – brot úr íslenskri menningarsögu.

Óttuðust að Svarfdælingar „týndu“ marsinum

Eitt af því sem þær stöllur fjölluðu um í bókunum sínum var „gamli marsinn“, dans sem alveg var að hverfa úr danslífi landsmanna en þær fundu hann samt sprelllifrandi á einum stað: í Svarfaðardal.

Sigríður og Mínerva töldu hættu á að Svarfdælingar glötuðu marsinum líkt og aðrir landsmenn og vildu varðveita dansinn á kvikmynd fyrir komandi kynslóðir. Þær fundu líka kvenfélagskonur í uppsveitum Árnessýslu sem voru víst einar á landi hér um að koma saman og iðka gamlan söngdans sem kallaðist Vefarinn og var útdauður alls staðar nema meðal kvenna í Hreppunum. Karlar þeirra dönsuðu ekki, enda var Vefarinn bara dansaður á kvenfélagsfundum en ekki á böllum. Þegar átti svo að filma Vefarann voru karlar í Hreppunum munstraðir í hvelli í danstíma. Þannig festust þeir dansandi á filmu og komust í leiðinni hálfa leið inn í kvenfélögin. Upptakan átti sér stað 1978.

Þriðja dansfyrirbærið sem Sigríður og Mínerva vildu kvikmynda var Lancíer, dans sem þekktur var á Ísafirði. Þangað vestur hugðust þær fara eftir að hafa filmað Svarfdælinga í marsinum en Sýslara er ókunnugt um hvort af því varð.

Ekki nógu merkilegt verkefni fyrir Ríkisútvarpið!

Sigríður og Mínerva höfðu safnað upplýsingum um dansa um allt land frá árinu 1960. Þær komu fyrst í Svarfaðardal árið 1963 í þeim erindagjörðum. Þá kynntust þær svarfdælska marsinum og komust að því að „gamli marsinn“ var þar dansaður með ýmsum tilþrifum sem ekki var vitað til að þekktust annars staðar.

Þær höfðu Þjóðdansafélag Reykjavíkur sem bakhjarl að einhverju leyti í starfi sínu en þeim gekk afar illa að fá fjárstyrk til heimildamyndagerðarinnar. Verkefnið kostaði að sjálfsögðu umtalsverða fjármuni.

Ríkisútvarpið hafði góð orð um að taka þátt í kvikmyndagerðinni en ekkert varð úr því. Stöllurnar filmuðu samt, hvernig svo sem þær fóru að því að standa undir kostnaðinum.

Tveir tæknimenn komu með þeim á ballið mikla á Grundinni 13. apríl 1980: Steindór Steindórsson kvikmyndari og Sigurður Hlöðversson hljóðmaður, báðir frá Akureyri.

Þráðurinn frá Klaufabrekkum: Hreinn – Hallgrímur – Ingunn

Þinghúsið að Grund. Þórir Jónsson frá Jarðbrú tók myndina vorið 1955.

Þinghúsið að Grund. Þórir Jónsson frá Jarðbrú tók myndina vorið 1955.

Aðalstjórnandi í marsinum var að sjálfsögðu Hreinn Jónsson á Klaufabrekkum og meðstjórnandi hans var Friðgeir Jóhannsson frá Tungufelli.

Hjörtur Eldjárn Þórarinsson á Tjörn talaði inn á myndina, sem er ríflega hálftími að lengd. Hann stóð utan dyra og las þar innganginn þegar dansarar sjást mæta í hátíðarbúningum á svæðið. Hjörtur talar áberandi hátt í innganginum. Sigríður eiginkona hans Hafstað á Tjörn rifjaði upp í samtali við Sýslara að þennan dag hefði verið hvasst og fremur svalt í veðri. Hjörtur þandi því raddböndin til að yfirgnæfa vindgnauðið í upptökunni og honum tókst það bærilega.

Upptakan hér er á spólu sem Hreinn á Klaufabrekkum eignaðist upphaflega og sonardóttir hans og danskennari á Dalvík, Ingunn Margrét Hallgrímsdóttir, varðveitir. Hún lánaði Sýslinu spóluna fúslega til að afrita og koma þessu stórmerkilega mannlífsefni úr Dalnum hér á framfæri.

Ingunn á stóran þátt í að halda orðspori svarfdælska marsins hátt á lofti ásamt föður sínum og dansherra, Halla frá Klaufabrekkum. Svarfdælski marsinn er dansaður með viðhöfn á hverju ári á Rimum, í marsmánuði að sjálfsögðu, næst núna 22. mars 2014. Þar verða Ingunn og Halli sem fyrr í broddi fylkingar.

Marsinn lifir því lengur og betur en Sigríður Þ. og Mínerva þorðu að vona. Dansstjórnin erfist kynslóð fram af kynslóð frá Klaufabrekkum!

Heimild um Þinghúsið sáluga

Með þessari hugvekju fylgja líka nokkrar ljósmyndir sem Helgi Már Halldórsson frá Jarðbrú tók á Þinghúsinu þegar heimildamyndin var tekin upp. Bróðir hans, Sýslarinn, birti myndirnar í Dagblaðinu í maí 1980 og fjallaði um upptökuna, meðal annars með því að vitna í samtal sitt við Sigríði Valgeirsdóttur. Myndirnar eru skannaðar úr Dagblaðinu og gæðin eru í samræmi við það.  Merkileg heimild eru þær samt.

Síðast en ekki síst eru myndirnar, bæði ljósmyndirnar og kvikmyndin, mikilsverð heimild um Þinghúsið að Grund, félagsheimili Svarfdælinga. Það var byggt í áföngum, elsti hlutinn frá 1892.

Þinghúsið brann til kaldra kola í lok janúar 2004, blessuð sé minning þess. Núverandi félagsheimili sveitarinnar er að Rimum og þar dunar svarfdælski marsinn ár eftir ár.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s