Skíðdælingurinn og bakaraneminn Íris Björk Óskarsdóttir kom, bakaði og sigraði í samkeppni um köku ársins 2014 og braut þar með blað á tvennan hátt. Kona hefur aldrei fyrr átt köku ársins og bakaranemi hefur aldrei áður borið sigurorð af meisturum í iðngreininni í þessari sæmdarkeppni.

Ragnheiður Elín iðnaðarráðherra bauð Írisi Björk í kökupartí í ráðuneytinu og Skíðdælingurinn lagði kökuna góðu á borð með sér.
Íris Björk er 24 ára dóttir Óskars bónda Gunnarssonar í Dæli og fyrrverandi eiginkonu hans, Lenu Zachariassen, sem nú býr á Hjalteyri við Eyjafjörð. Lena er norsk, listræn mjög og þau gen skiluðu sér sannarlega til dótturinnar.
Íris Björk útskrifaðist af myndlistarbraut Verkmenntaskólans á Akureyri og vann eftir það í eitt ár við að afgreiða brauð og kökur í Bakaríinu við brúna nyrðra. Hún var síðan í eitt ár í myndlistarnámi á Akureyri áður en leiðin lá suður í nám í bakaraiðn.
Íris Björk er á samningi í Sveinsbakarí við Arnarbakka í Reykjavík og stundar nám sitt jafnframt í Hótel- og veitingaskólanum í Kópavogi. Hún gengst undir sveinspróf í maímánuði 2015 og stefnir svo á nám í kökugerðarlist (kondítorí) í Danmörku eða í Noregi. Hún veltir greinilega ekki síst fyrir sér að drepa niður fæti á norskri grundu í þessu skyni til að hlú að ættarrótunum í leiðinni.
Rautt ópalþykkni og sigursjokk
Kaka ársins 2014 skaut Skíðdælingnum skyndilega upp á stjörnuhiminn brauð- og kökugerðar og það svo um munaði. Hún hefur samt gert það gott áður því í fyrra hreppti hún fyrsta sætið í nemakeppni sem kennd er við Kornax.
Skilyrði í keppni um köku ársins 2014 var að í hana væri notaður rauður ópal frá Nóa-Síríusi. Bakararnir brúka samt ekki venjulegar ópaltöflur úr pökkum heldur þykkni í fötum frá framleiðandanum. Ópalþykkni er ógnarsterkur lögur sem eins gott er að fara sparlega með svo bragðið yfirgnæfi ekki allt annað í kökunni.
Íris upplýsir hluta framleiðsluleyndarmálsins. Hún setur tvær teskeiðar í súkkulaðihjúp sem dugar á tólf kökur. Tvær skeiðar, hvorki meira né minna. Allir muna hvernig fór með piparkökurnar í bakaríinu í Dýrunum í Hálsaskógi þar sem menn klúðruðu uppskriftarsöngnum, úðuðu óhóflegum pipar í deigið og gerðu afurðina óæta, meira að segja fyrir soltna refi. Íris Björk samdi sinn ópalkökusöng og fer rétt með hann í alla staði.
Ópalbragðið finnst greinilega í verðlaunakökunni en yfirgnæfir ekki. Fólk hefur gefið sig fram við höfundinn og sagst ekki vilja rauðan ópal svona dagsdaglega en játar fúslega að ópalkeimurinn í kökunni falli því vel í geð.
Kakan sjálf þykir afskaplega vel heppnuð og skrifari þessara lína getur borið vitni um það. Hún er reyndar nálægt því að teljast hættulega góð.
Iðnaðarráðherra bauð í sigurveislu
Þegar kom að því að kynna úrslitin í kökukeppninni fékk Íris Björk frí í skólanum til að vera viðstödd og var svo sjokkeruð þegar hún heyrði nafn sitt nefnt að hún var skjálfandi á beinum í öðrum heimi við verðlaunaafhendinguna. Á visir.is var sagt í fyrirsögn að hún hefði „staðið skjálfandi við hlið Jóa Fel“ og skilja mátti að hún hefði farið á límingum af óttablandinni virðingu við að standa armslengd frá þessum þjóðþekkta bakara og matgæðingi en það segir hún að sé bara bull og þvæla. Hún þaff heldur ekkert að titra fyrir Jóa Fel, hún skalf einvörðungu um strund í sigursjokkinu.
Vegsemdin kom gjörsamlega flatt upp á hana, skólafélaga hennar og vinnufélaga í Sveinsbakaríi. Meistari hennar, Hilmir Hjálmarsson, og faðir hans, Hjálmar Jónsson, eigandi Sveinsbakarís, voru viðstaddir verðlaunaafhendinguna og mjög upp með sér yfir gengi nemans. Hilmir átti reyndar köku ársins 2010 og Sveinsbakarí var þar með að hirða þennan virðingartitil bakaríanna í annað sinn.
Svo bárust skilaboð úr viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu um að Íris Björk ætti að koma í heimsókn og hafa með sér verðlaunakökur, sem hún og gerði. Þar tók Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra á móti henni og hafði smalað saman konum sem starfa í ráðuneytinu til að bragða á köku ársins og samfagna með Skíðdælingnum! Það hefði ráðherranum aldrei komið til hugar að gera ef miðaldra karl hefði sigrað í kökukeppninni, ekki til að tala um.
Framundan er nú sjálfur bolludagurinn og þá hvorki sofa bakarar né hvíla sig að ráði í nokkra sólarhringa. Þannig er bara lífið á vertíð. Á sama tíma er Íris Björk að búa sig undir að verja titil sinn í Kornax-keppninni. Ekki nóg með það, hún þjónar líka stundum til borðs á kvöldin á veitingahúsinu Geysi bistro & bar við Aðalstræti!
Skíðadalur kominn á kökukort landsmanna
Vinna í bakaríi er að miklu leyti næturgöltur. Viðskiptavinir sækjast eftir glóðvolgu brauði, beint úr ofni, að morgni dags. Það fá þeir, þökk sé þeim sem rífa sig upp um miðjar nætur til baksturs. Vinnudagur Írisar Bjarkar hefst kl. 3:30, þegar lungi þjóðarinnar er í fastasvefni. Hún leggur sig stundum á daginn og stundum ekki. Það er svo margt á dagskrá einmitt núna að svefn og hvíld mætir afgangi. Sólarhringurinn dugar varla til að rúma allt sem hún sýslar við. Hún verður hvað sem öðru líður að passa upp á að kaka ársins 2014 sé allt til í afgreiðsluborðinu því verðlaunabakkelsið hennar bara selst og selst, ekki bara í Sveinsbakaríi heldur í bakaríum um allt land. Skíðadalur er kominn á kökukortið.