Djassaður söngfugl svarfdælskrar ættar í Hörpu

Staðlað

ifhFærri komust að en vildu til að hlýða á djasstónleika Ingibjargar Fríðu Helgadóttur og hljómsveitar í Kaldalónssal Hörpu í dag. Þeir sem þurftu frá að hverfa misstu af miklu. Mjög miklu!

Samkoman var í tónleikaröðinni Eflum ungar raddir, sem Efla verkfræðistofa hafði frumkvæði að í vetur með ungum söngvurum í tilefni fertugsafmælis fyrirtækisins 2013.

Ingibjörg Fríða er Garðbæingur, dóttir Regínu Rögnvaldsdóttur og Helga Más Halldórssonar frá Jarðbrú. Hún hóf söngnám 2003 og lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskóla Garðabæjar árið 2011.

Þá tók við nám á djass- og rokkbraut Tónlistarskóla FÍH og þar stefnir allt í lokapróf í maí 2014. Ingibjörg Fríða stundar jafnframt nám í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands.

Landsliðsmenn í djasstónlist skipuðu hljómsveitina sem var á sviði í Kaldalóni með Ingibjörgu Fríðu: Kjartan Valdemarsson píanóleikari, Matthías Hemstock trommuleikari og Tómas R. Einarsson bassaleikari.

Útkoman varð mikil og eftirminnileg tónaveisla og viðtökur áheyrenda voru í samræmi við það.

Á efnisskránni voru lög eftir fjóra höfunda: Bill Evans, Irving Berlin, Theolonious Monk og Tómas R. Einarsson.

Á myndbandinu sem með fylgir sem sýnishorn af tónleikunum eru þrjú lög:

  1. Kyssikonan ægilega eftir Tómas R. við texta Ólafíu Hrannar Jónsdóttur leikkonu.
  2. Well you need’nt eftir Thelonious Monk við texta Mike Ferro – lokalag tónleikanna.
  3. Alveg bit (uppklappslagið) er eftir Ólafíu Hrönn við texta Tómasar R.

Það kom á daginn að Kaldalón var alltof lítill salur fyrir Ingibjörgu Fríðu og félaga. Gestastraumurinn hélt áfram eftir að hvert sæti var skipað. Þá voru bornir inn viðbótarstólar en það dugði ekki til og staðið var meðfram veggjum til beggja hliða og aftast.

Svo fór að loka varð dyrum og þeir sem enn voru í röð þar fyrir utan urðu frá að hverfa. Vonandi frétta þeir af Svarfdælasýsli til að fá þar hljóðbrot af mögnuðum tónleikum frekar en ekki neitt!

Viðbót 24. febrúar: Ásrún Ingvadóttir frá Bakka bendir réttilega á að svarfdælsk ættartengsl séu líka í hljómsveitinni sem fylgdi Ingibjörgu Fríðu á svið í Kaldalóni. Amma Tómasar R. bassaleikara hét Ingibjörg og var Vilhjálmsdóttir, systir Þórs Vilhjálmssonar bónda á Bakka. Ingibjörg bjó á Blönduósi og þar ólst móðir Tómasar R. upp. Þá er það komið á hreint. Góður var Tommi fyrir en nú færist hann upp í eðalflokk.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s