Söngbækur fá framhaldslíf – opnunarsöngur færður til ættar

Staðlað

bok-1Söngbók Svarfdælinga lá við hvers manns trog eða disk á Svarfdælingablótinu í Víðidal í gærkvöld. Þetta hefti með söngtextum var prentað fyrir um áratug á Dalvík fyrir þáverandi undirbúningsnefnd þorrablótsins á Rimum. Í aðdraganda blótsins á Rimum í ár var prentuð ný söngbók og ætlunin var að senda upplag þeirrar endurvinnslu  pappírs á Akureyri. Tilviljun réð því að upplag söngbókarinnar fór suður í flugi til blótsnefndar í Fáksheimilinu í stað þess að lenda í hremmingum endurvinnslu og gjöreyðingar nyrðra.

Steindyrabændur, Gunnhildur Gylfadóttir og Hjálmar Herbertsson, voru í þorrablótsnefndinni í Svarfaðardal þegar söngbókin var gefin út upphaflega og voru aftur í nefndinni í ár þegar bókin var endurútgefin. Gunnhildur var drifkraftur útgáfunnar í bæði skiptin. Hún er af söngfuglaætt mikilli á Akureyri. Afi hennar var bróðir Jóhanns Konráðssonar stórsöngvara þar í bæ og þarf þá tæplega að hafa fleiri orð um söngrætur og tónagen.

Fjölskylda Gunnhildar átti eigið söngkver til að grípa til við ýmis tækifæri, til dæmis á þorra. Þar eru sem rötuðu inn í Söngbók Svarfdælinga, þar á meðal Opnunarsöngurinn – ljóð sem sungið er við sama íslenska þjóðlagið og Þorraþræll (Nú er frost á Fróni). Hefð skapaðist fyrir því að syngja Opnunarsönginn áður en ráðist er á trogin á blótum á Rimum og í gærkvöld voru lögð að hliðstæðri hefð á blóti Suðursvarfdælinga.

Svarfdælingar upp til hópa syngja þennan texta sælir og glaðir og telja nú orðið upp til hópa að höfundurinn sé úr þeirra röðum. Þegar ritstjóri Sýslsins spurðist fyrir málið af rælni á blótinu á Rimum á dögunum voru menn helst á því að Opnunarsöngurinn kæmi úr smiðju einhvers Tjarnarbróðurins.

Ættfærsla Opnunarsöngsins bar á góma í símtali við Gunnhildi á Steindyrum – sem lagði á sig að koma gömlu söngbókunum í flug á Akureyri áleiðis í Víðidal og þökk sé henni fyrir fyrirhöfnina.

Gunnhildur vissi ekki annað um textann umrædda en að hann hefði verið í söngbók fjölskyldu sinnar. Bókmenntarannsóknardeild Sýslsins var þá falið að grennslast fyrir um upprunann og eftir nokkrar pælingar í gögnum og hringingar út og suður um Norðurland kom eftirfarandi í ljós:

    • Opnunarsöngurinn hefur um árabil verið sunginn á þorrablótum Mývetninga.
    • Höfundurinn er að öllum líkindum hagyrt kona í Mývatnssveit, Hólmfríður Pétursdóttir í Víðihlíð. Hún er látin og því ekki á færi hvers sem er að fá óyggjandi staðfestingu frá fyrstu hendi um höfundarréttinn.
    • Álfhildur Sigurðardóttir, fyrrum prófastsfrú á Skútustöðum og hagyrðingur, er helsti heimildarmaður Sýslsins. Hún er mjög sannfærð um að sveitungi hennar, Hólmfríður í Víðihlíð, hafi ort Opnunarbraginn. Þær Hólmfríður ortu margt og mikið vegna þorrablóta Mývetninga og sumir textanir þeirra lifa góðu lífi í sveitinni.

Annar texti í Söngbók Svarfdælinga er líka sunginn við upphaf borðhalds á Rimum og Suðursvarfdælingar tóku hann líka upp á sína arma í gærkvöld: Þorrablótin þar á Grund. Óttar Einarsson, skólastjóri á Húsabakka, orti.

Hjörleifur Hjartarson, veislustjóri í Fáksheimilinu, flutti ljóðaskýringar. Þarna kemur fyrir Grund, sem stendur fyrir Þinghúsið að Grund, félagsheimili sveitarinnar sem eyðilagðist í eldi fyrir nokkrum árum.

Þarna kemur líka fyrir „málaður hundur“. „Hundar“ eru ónýtu spilin í brús og „málaður hundur“ er minna en ekki neitt! Sigurpáll á Steindyrum notaði þetta orðtak oft, sagði Hjöri. Ríkharður í Bakkagerði hafði líka stundum orð um „málaða hunda“ við spilaborðið í brúsi.

Þetta var rannsókna- og bókmenntaþáttur Sýslins og við hæfi að birta hér umrædda texta. Þorrablótin þar á Grund er sungið við Elvis Presley-lagið Love me tender.

Opnunarsöngur

Góðir veislugestir
gleðin þúsundföld
verður hér við völd
vonandi í kvöld.
Allir eru sestir
ánægðir að sjá,
svífur suma á
svei mér þá.
Súran hval og svið
sólgin étum við,
kýlum okkar kvið,
kannski getið þið
ykkur gert að góðu
gulrætur, salöt,
hákarls hlaðin föt,
hangikjöt.

Hér á borð er borið
bringukollurinn,
flatbrauðið ég finn,
fínn er pungurinn.
Nóg er niðurskorið
náttúrulega ætt,
bæði súrt og sætt,
svo ágætt!
Grísasultan sver,
síld og brauð og smér,
harla hollur þér
harðfiskurinn er.
Ljúffengt laufabrauðið
liggur diski á,
lundabakkar ljá
ljúfa þrá!

Einhver verður væta
vodka, Kóla og Spur,
verður víst nokkur
varla alveg þurr.
Þamba þeir sem mæta
það veit trúa mín,
brátt við borðin sín,
brennivín!
Við grín og gamanmál
gerist lundin þjál,
meinlaust skop og skál
skaðar enga sál.
Að svo mælt’ ég óska
öll þið verðið mett,
hífuð, hress og létt,
hófið sett!

Hólmfríður Pétursdóttir

Þorrablótin þar á Grund

::Þorrablótin var á Grund,
það er heilög stund.::
Þangað sækja sveinn og sprund,
sveinn og fögur sprund.
Þangað sækja sveinn og sprund
og sjá ekki málaðan hund.

Óttar Einarsson

Nýja söngbóki á Rimum. Kápumyndin af Dalnum í vetrarskrúða eftir Bakka-Baldur Þórarinsson.

Nýja söngbókin á Rimum. Kápumyndin af Dalnum í vetrarskrúða eftir Bakka-Baldur Þórarinsson.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s