Blótað og brosað allan hringinn

Staðlað

Þorrablót Suðursvarfdælinga tókst með miklum ágætum og óhætt að segja að gestir hafi brosað allan hringinn við brottför úr Víðidal. Við höfum ekki verið fyrr með samkomur í Fáksheimilinu og í ljós kom að Fáksheimilið hentar afskaplega vel fyrir skrall af þessu tagi.

Menn rata líka hiklaust á vettvang á næstu samkomu, reynslunni ríkari eftir vegvillur gærkvöldsins. Sumir fóru beint í Reiðhöllina og gripu í tómt, aðrir mættu með trogin sín á dýraspítalann en þar var ekki annað að finna en dýralækni með geldingartengur. Svoleiðis tæki eru mestmegnis óþörf á þorrablótum Svarfdælinga.

Hjörleifur Hjartarson frá Tjörn fór á kostum í embætti veislustjóra. Á myndinni hér til vinstri kemur hann glaðbeittur til blóts.

IMG_2014Gleðilegt var að sjá „nýju andlitin“ á blótinu nú, sveitunga vora sem sjaldan eða aldrei hafa sést á Svarfdælingasamkomum syðra. Gaman var til dæmis að hitta Svarfdælinga á Suðurnesjum. Þeir eru þar fleiri búandi en margur hyggur.

Góður rómur var gerður að minni karla og kvenna, sem Dalvíkingar á Alþingi fluttu samkomunni, Valgerður Gunnarsdóttir og Kristján Þór Júlíusson.

Þorrabandið var á blússandi bruni í sínum dagskráratriðum og hluti þess lék fyrir dansi í góða stund að borðhaldi loknu. Gestir fengu ballið í bónusvinning því upphaflega stóð ekki annað til en að mylgra nokkrum lögum úr tölvu yfir mannskapinn. Dalvíkingar af holdi og blóði komu óvænt í stað tölvunnar á síðustu stundu og létu fyrir dansi. Það voru geðsleg skipti.

Á engann er hallað þegar sagt er að Hjöri á Tjörn hafi skorað mest á blótinu í gærkvöld. Hann flutti samkomunni vísur og ljóð, söng reyndar nokkur þeirra við sálmalög með tilþrifum. Svo flutu með sögur frá Tjörn og fleiri bæjum, sumar hafa ekki verið sagðar opinberlega fyrr og verða kannski ekki sagðar aftur í smáatriðum! Hláturrokurnar í salnum heyrðust um Víðidalinn endilangan og þveran, alveg inn að skurðarborði dýraspítalans.

IMG_1903Á blótinu í ár voru um alls um 100 manns en salurinn hefði auðveldlega rúmað 50 manns í viðbót með venjulegri og hófstilltri skipan borða og sæta.

Ef þorrablótsnefndin á Rimum hefði hins vegar komið að uppröðun í salnum hefði mátt tvöfalda gestafjöldann í húsinu. Á Rimablóti er svo þéttsetinn Svarfaðardalur að veislustjórar og dyraverðir vilja vita með góðum fyrirvara hvenær blótsmenn vilja kasta af sér vatni til að unnt sé að aðstoða þá við að komast úr kösinni með fulla þvagblöðru og heim í kösina aftur með blöðruna tóma.

Engar slíkar tilfæringar þurfti í Fáksheimilinu. Langt í frá, enda eins gott. Engir dyraverðir voru þar starfandi og Hjöra á Tjörn er flest annað betur til verka fallið en að skipuleggja hópferðir á snyrtingu.

  • Hér er myndasafn Hauks Sigvalda frá blótinu í Víðidal!

  • Myndband – örlítið sýnishorn af því sem fram fór í Fáksheimilinu. Fyrst og fremst kynnum Þorrabandið, væntanlegt leynivopn Íslands í Evrópusöngvakeppninni 2015 …:

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s