Gulli Ara getur með góðri samvisku skráð sig bókamann í símaskránni. Hann hefur um dagana skrifað bækur og lesið þær nokkrar, skorið út bækur í tré og höggvið í stein. Núna situr hann daginn langan og sérhannar bækur handa álfum en sýnir þær og selur í mannheimum.
Yfir stendur sýning á einstæðum og stórmerkilegu verkum hans í Kaffi Loka á Skólavörðuholti í Reykjavík, til 22. febrúar.
Á árinu 2013 sýndi hann í Amtbóksafninu á Akureyri og á Seltjarnarnesi. Í maí og júní 2014 sýnir hann í aðalstöðvum Borgarbókasafns Reykjavíkur.
Dalvíkingurinn Guðlaugur Arason flutti heim til Íslands haustið 2013 ásamt sambýliskonu sinni, Lilju Björk Tryggvadóttur, eftir áratuga búsetu erlendis, þar af aldarfjórðung í Danmörku. Lilja kom til starfa frá Íslandi í sendiráðið í Kaupmannahöfn og í borginni við sundið lágu leiðir þeirra saman.

Kaffi Loki á Skólavörðuholti, félagsheimili Svarfdælinga í Reykjavík. Álfabókasýningin hans Gulla Ara stendur yfir til 20. febrúar. Drífið ykkur, þið sem fótaferð og aðstæður hafið!
Eftir Kaupmannahafnardvölina voru þau í þrjú ár í Finnlandi en Gulli var að vísu áfram á sumrin í Kaupmannahöfn og gekk sem fyrr með hópa um Íslendingaslóðir þar. Hann stundaði þessar vinsælu skoðunarferðir árum saman og hefur samkvæmt bókhaldi sínu rölt um borgina með 22.000 manns, hvorki meira né minna, bæði Íslendinga og Dani.
Í Finnlandi og síðan árin fimm í Sviss dvöldu Lilja og Gulli vegna starfa hennar í utanríkisþjónustunni.
Skáldsaga í biðstöðu
Örlagaþræðirnir voru í stórum dráttum þannig að Lilja fann Gulla í Kaupmannahöfn. Álfar fundu hann síðar í Genf og réðu hann til starfa við bókaútgáfu. Sagan hljómar alla vega vel þannig.
„Ég var kominn vel af stað með að skrifa skáldsögu en jafnframt farinn að smækka bækur heilmikið með tilheyrandi föndri og raða í hillur og skápa sem ég smíðaði sjálfur úr krossviði.
Fyrstu jólin okkar í Sviss vildi Lilja fara heim til Íslands en ég ákvað að verða eftir og reyna að ná betri tökum á handverkinu. Það tókst á þremur vikum og handritið að skáldsögunni lá óhreyft á meðan.
Síðan hélt ég einfaldlega áfram að föndra við bókamyndirnar og hef ekki litið upp úr verkinu í fjögur ár. Skáldsagan er enn í biðstöðu. Í henni koma Fjölnismenn við sögu og samband manns og álfa sömuleiðis.
Ég skal ekkert segja um hvort og þá hvenær ég tek þráðinn upp að nýju við skriftir. Sagan er stöðugt að velkjast um í kollinum á mér. Ætli það sé ekki bara auðveldara að lifa á því að búa til álfabækur úr verkum annarra en að skrifa sjálfur bók!
Ég keypti á sínum tíma húsið Tungu á Dalvík, gerði upp og átti skuldlaust þegar ég ákvað að selja það til að hafa efni á að sitja við skriftir í Kaupmannahöfn. Síðan þá hef ég seld tvær íbúðir til viðbótar til að geta skrifað. Skáldsögurnar mínar seldust samt ágætlega en út úr þessu ritstriti er bara svo lítið að hafa. Kannski verður ófullgerða skáldsagan sú þekktasta þeirra sem ég hef skrifað án þess að koma nokkurn tíma út! Við sjáum hvað setur.“
Skýrt letur á kili mikilvægara en innihaldið …
Lilja og Gulli Ara hafa komið sér vel fyrir að Dalatanga, að vísu ekki í vitanum sem staðið sína samfelldu plikt í 125 ár á Flatafjalli, milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar, heldur við samnefnda götu í Mosfellsbæ. Þar er enginn viti en Gulli kallar sig samt vitavörð á góðum stundum og útilokar ekki að reisa þar vita síðar.
Það er reyndar í góðu lagi að vera vitalaus vitavörður, enda ganga til dæmis Akureyringar sperrtir um sitt Ráðhústorg þótt ekkert sé þar ráðhúsið. Og Dalvíkingar trítla stoltir um sitt Karlsrauðatorg þótt þar sé hvorki tangur né tetur af torgi í almennasta skilningi þess orðs. Dalvíkingar eiga hins vegar ráðhús og reistu það á kaupfélagstúninu. Akureyringa skorti hvorki tún né kaupfélag en byggðu aldrei ráðhús. Það er allt allt önnur Ella.
Gulli kom sér upp tvískiptum vinnustað heima á Dalatanga: smíðaverkstæði í bílskúrnum og bækistöð til hönnunar og framleiðslu í bjartri sólstofunni. Hann er með mörg verk í gangi í einu, tekur törn í bílskúrnum við að smíða ramma og bókaskápa af ýmsum stærðum og gerðum og raðar síðan í hillur bókum sem hann annað hvort gengur að vísum á lagernum sínum eða býr til nýjar sérstaklega fyrir verkefnið hverju sinni.
Þetta er vinna sem hentar hvorki óþolinmóðum, sjóndöprum né skjálfhentum. Gulli skannar kápur bóka, minnkar þær niður í einn tólfta af upprunalegri stærð og gengur þannig frá að þykkt bókanna sé sem næst réttum hlutföllum. Það gengur samt ekki alltaf upp því þeir sem rýna í bókahillurnar þurfa að geta lesið það sem á kili stendur með berum augum eða að minnsta kosti með stækkunargleri.
„Kjölur venjulegra bóka er fjórir til sex millimetrar í smækkaðri mynd en ljóðabækur eru jafnan svo þunnar að kjölurinn ætti að vera einn millimetri. Ég verð að auka við og hafa kjölinn tvo millimetra svo letur þar verði bærilega læsilegt.
Eftir því sem stundir líða hefur mér orðið sífellt ljósara að aðalatriðið í bókaútgáfu er útlit kápu, leturgerð og leturstærð á kili. Það skiptir engu máli hvað í bókunum stendur!“
Ólæsilegir og fótalausir fiskar

Kjölurinn á bók Yrsu er afskaplega vel læsilegur, bókartitill Jóns Kalmans er hins vegar ólæsilegur með öllu.
Þegar Sýslara bar að garði föndraði Gulli annars vegar við álfaútgáfu af 20 erlendum kvæðum eftir Jón Helgason og hins vegar við fyrstu ljóðabók Þorsteins Jónssonar frá Hamri, Í svörtum kufli.
Ásta Sigurðardóttir hannaði kápu bókar Þorsteins og Gulli er ánægður með vinnu hönnuðarins. Hann er hins vegar ekki í neinum vandræðum með að finna dæmi um bókarkápu sem illmögulegt er að vinna með af neinu viti og grípur bók úr nýafstöðnu jólaflóði.
„Sjáðu nú þetta. Fiskarnir hafa enga fætur eftir Jón Kalman Stefánsson. Það getur enginn lesið bókartitilinn á kápu og kili með góðu móti, hvað þá eftir að kápan hefur verið smækkuð. Hvað hugsa hönnuðir og útgefendur sem láta svona frá sér fara? Sjálft innihaldið innan við kápuna er hins vegar glimrandi, svo það sé nú sagt. Hönnuðir bóka Yrsu Sigurðardóttur eru hins vegar mér að skapi. Sjáðu muninn!“
Svo bregður Gulli bókum Kalmans og Yrsu á loft framan við linsu myndavélarinnar og lesandinn getur sjálfur dæmt með því að rýna í myndina.
Fleira hefur vafist fyrir bókagerðarmanninum, meira að segja sjálf Dalvíkursagan.
„Saga Dalvíkur var erfið, hún var marglesin og kápan þreytt, eydd og þvæld. Það hafðist samt að smækka hana skammlaust. Einhver kynni að halda að ég hefði byrjað á henni en svo var ekki. Íslendingasögurnar voru fyrstu bækurnar sem ég minnkaði svona niður, alls 42 bindi af gömlu útgáfunni hans Guðna Jónssonar. Síðan þá hef ég þurft að endurvinna þær sex eða sjö sinnum og sé þá greinilega að mér fer fram!
Annars er þetta ekki eiginlegt starf heldur jógavinna. Ég sit við vinnuborðið, hugleiði og nálgast bækur á allt annan hátt en áður. Stundum verður hugleiðslan til þess að mig langar til að rifja upp það sem í bókum stendur. Til dæmis var ég með smækkaða kápu af Musteri óttans eftir Guðmund Daníelsson í höndum og langaði allt í einu að ná í bókina, fletta henni og grípa niður í textann.
Lengi vel vissi ég ekki hvað ég ætti að kalla verkin, þessar smækkuðu bækur eða örbækur. Svo datt mér í hug álfabækur og lét aldraðra vinkonu mína, rithöfund í Danmörku, vita af niðurstöðunni. Þá kom í ljós að á leiðinni var bréf frá henni á sama tíma og hún stakk upp á að kenna bækurnar við álfa. Við fengum sömu hugdettuna á sama tíma, hvort í sínu landi. Þarflaust var að ræða málið frekar.“
Með þjóðsögur í koffortinu frá Dalvík
Gulli Ara er bókamaður hvernig svo sem á er litið. Hann kom heim með 120 bókakassa í farangrinum frá útlandinu og gaf helminginn af safninu í Góða hirðinn. Það var stór ákvörðun og erfið en óhjákvæmileg. Húsrýmið leyfði ekki safnið allt og nú er gefandinn sáttur við gjörð sína.
Þjóðsögur Ólafs Davíðssonars fóru ekki í Góða hirðinn. Þær eiga áfram sinn stað á hillum eiganda síns í Mosfellsbæ, enda bækur með sögu.
„Ég var fjórtán ára gutti og sá þrjár þykkar bækur á efstu hillu í bókabúðinni á Dalvík. Mér var starsýnt á bækurnar í hverri heimsókn í búðina og gleymdi þeim aldrei. Tveimur árum síðar eignaðist ég nóga peninga til að kaupa þær, þjóðsögur Ólafs Davíðssonar. Þær hafa ferðast með mér land úr landi og fara aldrei frá mér.“
Akureyrarhnáta og leyniálfar
Bókamyndirnar hans Gulla eru afar sérstæð og merkileg listaverk og engu lík. Hann hefur líka tekið eftir því að viðbrögðin eru greinileg og á stundum afar sterk.
„Myndirnar kalla undantekningarlaust fram bros hjá þeim sem sjá þær í fyrsta sinn. Ekki síst börnin kunna að meta þær. Mér er minnisstæð 7-8 ára hnáta sem á heima rétt hjá Amtsbókasafninu á Akureyri. Hún kom aftur og aftur til að skoða sýninguna mína þar og leitaði að álfunum. Ég set nefnilega lítinn leyniálf í hverja mynd, verndara verksins. Stelpan fann alla álfana og vissi nákvæmlega hvar þeir voru. Hún kom svo með flokka af krökkum til að skoða og leita að álfum. Það er gaman og gefandi að verða vitni að slíku.“
Yrkir í spýtur
Gulli Ara hefur ekki búið á Dalvík í áratugi. Hann segist samt aldrei hafa farið þaðan og að hann verði þar alltaf á sinn hátt.
„Vissulega flutti ég frá Dalvík til Danmerkur 24 ára gamall en í raun fór ég aldrei neitt! Í raun og veru er ég alltaf staddur í huganum utan við kaupfélagið heima. Það er svona með blessaðar ræturnar. Þær eru þarna og verða.
Viðfangsefnin breytast heldur ekki nema á yfirborðinu. Ég er alltaf að fást við skáldskap og bókagerð hvort sem ég skrifa bækur eða smækka bækur annarra. Og þegar ég bý til umgjörðina, skápa fyrir álfabækur, yrki ég í tré.“