Þorri krossblótaður á Rimum

Staðlað
Sölvi annálsmeistari og Rósa á Hreiðarsstöðum mæta til blóts.

Sölvi annálsmeistari og Rósa á Hreiðarsstöðum mæta til blóts.

Þorrablót Svarfdælinga á Rimum í Svarfaðardal í ár tókst með afbrigðum vel og reyndar svo vel að ballið virtist ætla að verða endalaust. Hljómsveitin lét blekkjast af sannfærandi hvatningu frá Hlina frá Hofsá, bónda í Svartárkoti í Bárðardal, sem framlengdi ballið í nafni skemmtinefndarinnar og framlengdi síðan framlenginguna með hverju aukalaginu á fætur öðru þar til hin eiginlega nefnd og dyraverðir skárust í leikinn. Þá var komið fram undir fjóstíma á betri bæjum.

Hljómsveitinni var að vísu nokkur vorkunn. Hún var gerð út af Geirmundi sveiflukarli í Skagafirði en hann lagðist veikur og munstraði kirkjuorganista Sauðárkróks í bandið í sinn stað. Sá hafði ekki spilað á balli svo árum eða áratugum skipti (heimildarmönnum ber ekki saman) og þurfti eðlilega að hemja í sér rokkinnréttinguna  við kirkjulegar athöfnir í Skagafirði. Rokkelementum sleppti hann hins vegar lausum á svarfdælska þorrablótinu 1. febrúar og tók fagnandi uppástungum úr Svartárkoti um hvert aukalagið á fætur öðru, allt þar til nefndin rankaði við sér,  leit á klukku og ræsti út dyraverði.

Ekki þurfti heldur að halda aftur af Billa, söngvara og gítarista, sem forðum var liðsmaður Ingimars Eydal í Sjallanum og stendur leikandi af sér ball samfleytt frá fjóstíma að kveldi til fjóstíma að morgni. Hann var framlínumaður í þessu Geirmundarlausa Geirmundarbandi á Rimum.

Dansleikurinn endalausi hafði satt að segja heilsubætandi áhrif þegar á reyndi. Hamslaus hreyfing á dansgólfi hressti bændur og af þeim rann bæði móður og annað.  Þeir urðu velflestir ágætlega mjaltafærir undir morguninn, til dæmis stórbændur á austur- og vesturkjálkum sem hafa lítt eða ekki verið fjóshæfir eftir blótveislur undangenginna ára.

Þétt setinn Svarfaðardalur og raddbönd þanin.

Þétt setinn Svarfaðardalur og raddbönd þanin.

Salurinn á Rimum stækkar ekki en spurn eftir sætum á Rimablóti  eykst og magnast ár frá ári. Það er því árlegur höfuðverkur nefndarinnar að þjappa og pressa gestum í sæti. Þeir voru víst eitthvað á fjórða hundraðið í ár og létu með ánægju yfir sig ganga að sitja læri í læri um allan sal.

Veislustjórar í ár voru tveir, báðir liðsmenn hljómsveitarinnar Ljótu hálfvitanna frá Húsavík. Ljómandi geðslegir og fjölhæfir piltar sem stjórnuðu bæði samkomunni sjálfri og fjöldasöng og lögðu að auki til fín skemmtiatriði. Frammistaða þeirra bætti ímynd Þingeyinga meðal Svarfdælinga en ekki stóðu veislustjórarnir undir nafni, langt í frá. Þeir eru langt í frá því að vera ljótir og virkuðu alls ekki hálfvitalegir.

Sölvi á Hreiðarsstöðum flutti að sjálfsögðu annál ársins 2013. Sölvi er fyrir löngu orðinn klassíker í annálafræðum og  í seinni tíð nýtur hann stuðnings af leiknum myndbandsbútum sem skotið er inn í flutninginn af og til.

Góður rómur var gerður að annálnum og þar fengu ýmsir sveitungar á baukinn að vanda en hvergi var farið yfir strikið í gáskanum. Talin er upphefð í Dalnum að koma við sögu á annálnum.

Veislustjórarnir sögðu við skrifara Sýslsins baksviðs að þeir hefðu í fyrra verið í sama hlutverki á þorrablóti í ónefndri sveit sunnan heiða og þar var annáll ársins svo hornóttur og mannorðsmeiðandi að stefndi í slagsmál á blótinu strax á meðan á flutningi hans stóð. Veislustjórar þurftu því að gerast staðgenglar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og bera klæði á vopn.

Alls engin þörf var á sáttasemjurum á blóti Svarfdælinga og næsta víst að ekki hefði verið leitað til Þingeyinga til að stilla til friðar ef ókyrrð hefði skapast þegar Hreiðarsstaðabóndi prédikaði. Breytir engu hvort í boði hefðu verið ljótir Þingeyingar eða fagrir, hálfvitar eða heilvitar.

Nefndin fær fögur prik fyrir umgjörð blótsins. Gestir gengu til samkomunnar á rauðum dregli, líkt og þeir væru á leið á Óskarsverðlaunahátíð í Hollywood. Og að sjálfsögðu blikkuðu flassljós myndavélanna og Myriam, ferðaþjónustubóndi á Skeiði, brá sér í hlutverk sjónvarpsfréttamanns og tók menn tali á mörgum tungumálum. Barþjónar voru jafnframt fjölmiðlamenn og á borðum og á veggjum í anddyri voru úrklippur úr Norðurslóð og fleiri prentmiðlum þar sem birt voru svarfdælsk tíðindi af ýmsum toga. Þetta uppátæki kunnu menn vel að meta og gleymdu sér sumir við lesturinn

Dansinn dunar – sýnishorn á myndbandi. Rökkur í salnum eðli máls samkvæmt …

Gangnamenn tóku þjóðsöng sinn undir svefninn, undir morgun að blóti loknu …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s