Níu ára strákur á Dalvík ákvað gerast flugmaður og stóð við það. Hann flaug um loftin blá áratugum saman til að flytja fólk og varning landshorna eða heimshorna á milli. Svo kom að því að hann steig til jarðar aldurs vegna eftir 40 ára starf sem flugnaður og flugstjóri. Þá söðlaði hann um og tók sér fasta stöðu við málaratrönurnar sínar.
Jóhann Tryggvason er gegnheill Svarfdælingur af Hvarfs- og Krossaættum. Hann málar myndir, sýnir og selur á vinnustofu sinni í Garðabæ.
Við hæfi er að ættfæra viðmælandann áður en lengra er haldið. Hann er sonur Jórunnar Jóhannsdóttur í Sogni á Dalvík og Tryggva Jónssonar frystihússtjóra.
Foreldrar Jórunnar voru Guðlaug Baldvinsdóttir og Jóhann Jóhannsson í Sogni Jóhannssonar bónda á Ytra-Hvarfi.
Þegar Jóhann Tryggvason var strákpatti á Dalvík réðust örlög hans að hluta í risinu heima hjá afa hans og ömmu:
„Kristján nokkur Gunnlaugsson leigði í risinu í Sogni ásamt foreldrum sínum og hafði brennandi áhuga á flugi. Af honum smitaðist ég og ákvað aðeins níu ára gamall að læra flug og starfa við flug þegar ég yrði stór. Eftir það komst ekkert annað að. Ég fór í skóla að Laugum í Reykjadal þrettán ára gamall og flutti í raun að heiman strax þá. Á sumrin vann ég á síldarplani á Dalvík og var síðar til sjós á síldarbátum frá Dalvík og á vertíð í Vestmannaeyjum. Ég vann mikið og víða til að safna peningum fyrir flugnáminu sem ég hóf hjá flugskólanum Þyt í Reykjavík árið 1955, þá sautján ára.
Ég fékk vinnu hjá Tryggva Helgasyni flugmanni á Akureyri og var hjá honum í þrjú sumur við síldarleit úr lofti, flugkennslu og fleira tilfallandi. Rétt eftir að ég fékk þetta starf rakst ég á tvo sveitunga mína og frændur á götu á Akureyri, Arngrím Jóhannsson, síðar kenndan við flugfélagið Atlanta, og Þóri Jónsson á Jarðbrú, síðar kennara í Ólafsfirði. Þeir spurðu hverra erinda ég væri þar í bæ og ég sagðist vera að skyggnast um eftir húsnæði. Arngrímur sagðist þá einmitt hafa verið að leigja íbúð og í henni væri laust herbergi. Það tækifæri greip ég auðvitað og leigði hjá honum næstu þrjú árin eða þar til ég fékk starf hjá Loftleiðum og flutti suður.“
Jóhann gerðist flugmaður og síðar flugstjóri hjá Loftleiðum allt þar til félagið sameinaðist Flugfélagi Íslands síðla árs 1973 og Flugleiðir urðu til. Eftir sameininguna var hann í nokkur ár flugstjóri á Fokker Friendship í innanlandsfluginu en færði hann sig svo á ný yfir í millilandaflugið. Hann var mest í áætlunarferðum en einnig í leiguflugi með pílagríma og vöruflutningum fyrir Cargolux.
Árið 2003 lauk ferlinum þegar Jóhann varð 65 ára. Hann kom heim úr síðustu ferðinni sem flugstjóri Icelandair frá Kaupmannahöfn og var kvaddur með viðhöfn á Keflavíkurflugvelli eftir langan og farsælan feril. Hann flaug ótal tegundum flugvéla um dagana, til dæmis DC3, DC 6, CL 44, Boeing 727, 737 og 757, DC 8 og DC 10. Og svo auðvitað Fokker í innanlandsfluginu hér heima og Páli Sveinssyni í landgræðsluflugi.
Flugfreyjur gleymdust á jörðu niðri
„Ég ákvað að hætta alveg að fljúga þegar atvinnuferlinum lauk. Auðvitað sakna ég margs úr fluginu, enda var það ævistarfið en mér fannst samt réttast að setja punkt aftan við og þannig var það. Auðvitað skiptir miklu máli, þegar horft er um öxl, að hafa farið í gegnum allt þetta áfallalaust. Hið eina sem fyrir mig kom var að einu sinni sprakk á hjóli vélar í lendingu en þar fór allt vel. Og svo gleymdi ég reyndar flugfreyjunum á jörðu niðri í einni flugferðinni! Það var að vísu ekki mér að kenna en gerðist þegar ég var í innanlandsfluginu, sem annars var bæði góður tími og eftirminnilegur.

Eitt af fyrstu málverkum Jóhanns, magnað og jafnvel ögn göldrótt. Málað um 1970. Eiginkona hans, Hildur Eiðsdóttir, og Tryggvi sonur þeirra í Vaglaskógi.
Eitt sinn þegar ég var fljúga Fokker frá Reykjavík að vetri til var of mikil hálka á flugbrautum til að hægt væri að fara í loftið og við þurfum því að bíða átekta í flugstöðinni, áhöfn og farþegar. Svo kom allt í einu græna ljósið frá slökkviliðsmönnum sem mældu hálku og bremsuskilyrði á brautunum og ég ákvað að rjúka strax af stað. Kallað var út í vél og við fórum í loftið. Yfir Elliðavatni var bankað á hurð flugstjórnarklefans og okkur tilkynnt að engin flugfreyja væri um borð. Flugfreyjunum hafði verið sagt að örugglega yrði bið á að flugfært yrði. Þær fóru í kaffi, heyrðu ekki útkallið og vallarstarfsmaðurinn með hleðsluskrána taldi þær vera komnar um borð þegar hann tók landganginn frá og við fengum flugtaksheimild. Að mér hvarflaði að halda áfram flugfreyjulaus en ég kaus að snúa við og sækja þær. Við skrökvuðum engu í hátalarakerfið. Það kom í hlut aðstoðarflugmannsins að segja farþegunum að við þyrftum að lenda aftur til að ná í hluta áhafnarinnar!“
Örnámskeið í heimsborginni á milli flugferða
Jóhann tók til við að mála myndir sér til ánægju á níunda áratug liðinnar aldar, um það bil tveimur áratugum áður en hann hætti að fljúga. Og hann notaði flugið af útsjónarsemi við að læra listmálun.
„Ég flaug oft til New York og var þar í einn sólarhring fyrir heimferð og jafnvel upp í þrjá sólarhringa. Þá datt mér í hug að nota stoppin til að menntast á minn hátt með því að sækja námskeið og tileinka mér ákveðna tækni með pensilinn sem ég hef síðan búið að alla tíð. Ég vissi hvað ég vildi og þurfti til að ná lengra, gekk að námskeiðum en var að í stuttan tíma í hvert sinn.“
Dalurinn eini í helgireitnum

Málverk af Kolbeinsey, útverði Íslands í norðri, í brimróti sem braut hana síðan niður hægt og bítandi. Listamaðurinn gleymdi að sjálfsögðu ekki að halda þyrlupallinum á skerinu til haga. Landhelgisgæslan steypti pallinn á sínum tíma en hann varð til lítils gagns því undirstaðan, skerið sjálft, molnaði fljótlega niður í sjógangi.
Jóhann er með sýningarsal að Garðatorgi 7 í Garðabæ og inn af honum er lítil vinnustofa, helgireiturinn hans. Fjöldi málverka er þarna til sýnis og listamaðurinn vill helst að myndirnar tali sínu máli en féllst á að útlista fyrir Sýslara glímuna við ljós og ljósbrot og áferð myndflatarins, sem eru dæmi um tækni sem hann segist hafa lært á örnámskeiðunum í heimsborginni New York forðum daga.
Hann er í Grósku, samtökum myndlistarmanna í Garðabæ, og hefur tekið þátt í samsýningum á vegum samtakanna en einnig efnt til einkasýninga á list sinni í Garðabæ og víðar.
Á vinnustofunni eru þrjú málverk á veggjum. Myndefni eins þeirra er Öskjuhlíð í Reykjavík en svo blasir Svarfaðardalur við á tveimur myndum. Á trönunum var svo fáklædd kona, mynd sem máluð er eftir ljósmynd. Listamaðurinn segir að fljóðið hafi verið kviknakið í fyrstu en hann ákveðið að klæða það í bikíníbuxur til að storka ekki annálaðri svarfdælskri siðsemi í listsköpun.
Jóhann kemur daglega á vinnustofuna sína þegar hann er í stuði en staldrar ekki endilega lengi við. Það er sannarlega heimsóknar virði að líta inn til hans, kynnast myndlistinni og njóta leiðsagnar þessa hógværa en lúmskt spaugsama sveitunga vors.
Meðfylgjandi ljósmyndir af nokkrum málverkanna gefa til kynna hvað Jóhann Tryggvason sýslar við með penslunum sínum við Garðatorg en sjón á vettvangi er sögu ríkari.
Listmálaranum sjálfum er ekkert gefið um að sitja fyrir sjálfur á ljósmyndum. Honum tókst meira að segja koma sér hjá því að láta taka mynd af sér þegar svarfdælska blaðið Norðurslóð tók við hann viðtal.
Hann reyndi á sama hátt að bíta myndatöku Sýslsins af sér en það tókst auðvitað ekki. Þegar fundi lauk var hægt að slá því föstu að ef níu ára Dalvíkurpjakkur hefði ákveðið á loftinu í Sogni að gerast ljósmyndafyrirsæta hefði það tekist með glans, ekkert síður en að fljúga breiðþotum um veröld víða.
- Ljósbrot í öldu. Fjörugrjót við Laugarnes í Reykjuavík í forgrunni, Akrafjall í baksýn.
- Sýningarsalur Jóhanns Tryggvasonar við Garðatorg í Garðabæ.
- Akureyri og Eyjafjörður.
- Þingvallamynd. Almannagjá, Þingvallavatn og Hengill í baksýn.
- Elliðaárnar. Veiðistaðurinn nefnist Fljótið.
- Elliðaárnar í Reykjavík.
- Höfði í Reykjavík.
- Svarfaðardalur í logandi litadýrð.
- Sú léttklædda á trönunum þegar Sýslið bar að garði. Málað eftir ljósmynd en ekki módeli!
- Jóhann við myndina af eiginkonu sinni, Hildi Eiðsdóttur, og syninum Tryggva í Vaglaskógi. Málað um 1970.
- Svarfaðardalur með lúpínubreiðu í forgrunni.