Gistihúsið Alba og vatnslitamynd af Bakkagerði

Staðlað
Gestgjafar í Ölbu, Harpa og Þorsteinn, blaða í gestabók gistihússins.

Gestgjafar í Ölbu, Harpa og Þorsteinn, blaða í gestabók gistihússins.

Engin tilviljun er að á vegg í einu herbergi gistihússins Ölbu í Reykjavík hangir vatnslitamynd af Bakkagerði í Svarfaðardal. Annar eigandi hússins er nefnilega Bakkagerðismaður að uppruna og þokar Dalnum meira og meira inn í umhverfi gestanna. Bráðlega fer málverk eftir Vigni Hallgrímsson á Dalvík upp á vegg í öðru herbergi. Hver veit nema áhrifa hins eigandans fari að gæta líka í Ölbu með eins og einni mynd úr Mývatnssveit?

Hjónin Þorsteinn Friðþjófsson og Harpa Sigfúsdóttir keyptu gistihúsið í apríl 2013 og reka það árið um kring. Hún er Mývetningur en hann Dalvíkingur, sonur Friðþjófs Þórarinssonar, sem um árabil var deildarstjóri Kaupfélags Eyfirðinga á Dalvík, og Kristínar Gestsdóttur frá Bakkagerði. Þá er komin skýringin á vatnslitamyndinni góðu og við hæfi er að láta fylgja með að málarinn er Hjörleifur Hjartarson, sjálfur Hjöri á Tjörn.

Víða um húsið hanga eftirprentanir málverka eftir þekktan Austurríkismann, Gustav Klimt. Sá fæddist 1862 og dó 1918. Myndirnar hans fylgdu með húsinu í kaupbæti og erlendum gestum, sem þekkja til Klimt og listsköpunar hans, þykir tíðindum sæta að sjá hve hátt honum er gert undir höfði í íslensku gistihúsi. Klimt var reyndar bæði umtalaður sem málari og sem lausgirtur kvennaljómi. Hann á bókfærð að minnsta kosti fjórtán börn, fæst þeirra með eiginkonunni. Þar með er hann úr sögu hér.

Mikið bókað í sumar

Harpa og Þorsteinn bjuggu áður í stóru húsi í Salahverfi í Kópavogi og skimuðu um hríð á fasteignamarkaði eftir fölu gistihúsi í rekstri, helst á Norðurlandi. Í lok janúar 2013 rákust þau á auglýsingu um gistihúsið Ölbu að Eskihlíð 3 og hlutirnir gengu hratt fyrir sig í framhaldinu. Í aprílbyrjun var gengið frá samningum og Alba varð eign þeirra.

„Við gerðum makaskiptasamning við þáverandi eiganda Ölbu, sem tók við húsinu okkar í Salahverfi en við fengum gistihúsið. Skrifað var undir samninga þriðjudaginn eftir páska og við fluttum inn næstkomandi laugardag!

Með í kaupunum fylgdu samningar sem fyrri eigandi hafði gert við innlendar og erlendar ferðaskrifstofur og það skilaði fjölda gesta síðastliðið sumar. Gistihúsið var hins vegar einungis rekið á sumrin áður en við ákváðum strax að hér yrði opið árið um kring. Reksturinn var í samræmi við væntingar 2013 og mikið er bókað sumarið 2014. Stærsta verkefnið er að auka vetrarbissnessinn.“

Heimili framsóknarþingmanns og áfangastöð SÁÁ

Alba er með 10 herbergi til reiðu fyrir gesti og rúm fyrir 28 manns ef öll rúmstæði eru skipuð. Í herbergjum eru handlaugar en snyrtingar sameiginlegar. Húsið er á þremur hæðum, rúmgott og vistlegt. Götumegin er stór garður, álitlegur vettvangur fyrir sólarsleikjur þegar þannig viðrar en á slíkt reyndi aldrei síðastliðið sumar. Sólin var þá upptekin við líkamsbakstur annars staðar og lét suðvesturhornið eiga sig.

Sigurvin Einarsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Barðastrandarsýslu og síðar í Vestfjarðakjördæmi, bindindispostuli og hagyrðingur, smíðaði þetta hús 1946 og bjó í því um árabil. Hann var eitt sinn á ferð um Vestfirði til að heilsa upp á kjósendur. Steingrímur Hermannsson var undir stýri og ók greitt. Sigurvin var lafhræddur í farþegasætinu og orti um ökufantinn:

Skrapar vegi, skemmir brýr,
skepnur leggja á flótta.
Undan bílnum fólkið flýr
frávita af ótta.

SÁÁ eignaðist húsið að Eskihlíð 3 og rak þar áfangaheimili fyrir konur á leið út í lífið eftir þurrkví og áfengismeðferð. Síðan keypti dótturdóttir Sigurvins framsóknarþingmanns æskuheimili sitt af SÁÁ og opnaði þar gistiheimilið Ölbu 2004.

Í apríl 2013 mættu svo núverandi eigendur með upprunavottorð í Svarfaðardal og Mývatnssveit. Þorsteinn er hótelhaldari í fullu starfi en Harpa vinnur á Hertz bílaleigu auk þess að sinna rekstri Ölbu.

„Við búum sjálf hérna. Það kom ekki annað til greina en að vera á staðnum og vaka yfir rekstrinum allan sólarhringinn, fyrst um sinn að minnsta kosti.

Við höfum tekið á móti um 3.000 gestum frá upphafi, fulltrúum 46 þjóða. Frakkar eru fjölmennastir og hingað koma líka margir Ítalir og Spánverjar. Íslendingar sjást varla á sumrin en við höfum í vetur fengið gesti víða að af landinu, til dæmis frá Vestmannaeyjum, Ísafirði, Akureyri og Dalvík. Sveitungar okkar, Svarfdælingar og Mývetningar, eru að sjálfsögðu sérstaklega velkomnir!

Við tölum við alla sem hér gista og kynnumst sumum betur en öðrum. Það vekur athygli þegar fólk í fjarbúð í veröldinni kemur hingað til að hittast og slíkt gerist furðu oft. Til dæmis voru hér hjón með son sinn í eina viku og í ljós kom að eiginmaðurinn býr í Lundúnum, eiginkonan í New York og sonurinn er við nám í Suður-Afríku. Þau þrjú höfðu ekki sést í eitt ár og fundum þeirra bar saman á gistihúsinu Ölbu!

Gistihúsið er afskaplega vel staðsett gagnvart flestu sem varðar íslenska og erlenda gesti í Reykjavík. Nokkurra mínútna gangur í miðbæinn og að BSÍ, endastöð flugrútunnar. Reykjavíkurflugvöllur er skammt frá, sömuleiðis Perlan í Öskjuhlíð, skiptistöð Strætó á Hlemmtorgi og Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti. Í grennd við kirkjuna koma menn að fyrsta veitingahúsinu í þá áttina og það er vel að merkja Kaffi Loki, óformlegt félagsheimili Svarfdælinga sunnan heiða.“

Sjokkerandi verðlag

„Við erum hálfgerð ferðaskrifstofa og svörum stöðugt fólki sem spyr hvar það fái íslenskan mat, hvað það eigi að skoða og hvað að gera. Við höfum vísað mörgum í mat á Kaffi Loka, Sægreifann eða Þrjá frakka, ef menn vilja fá eitthvað sérstakt og þjóðlegt að borða. Fólk kemur oftast yfir sig ánægt til baka að máltíð lokinni. Sjálf seljum við ekki mat í Ölbu, að undanskildum morgunverði.

IMG_0942Íslendingar halda upp til hópa að erlendum ferðamönnum þyki Ísland ódýrt ferðamannaland en við skynjum þveröfugt viðhorf gestanna. Þeir eru margir hverjir undrandi og jafnvel sjokkeraðir yfir íslensku verðlagi, sérstaklega finnst þeim matur dýr á veitingahúsum og matvara yfirleitt dýr í verslunum.

Sumir nota frekar peningana sína í skoðunarferðir en í mat og láta duga að kaupa box af núðlum, hella yfir heitu vatni og borða hér heima frekar en fara á veitingahús. Hins vegar heyrist ekki kvartað yfir háu áfengisverði á Íslandi.“

Fullur bær af túristum á gamlársdag en allt lokað

Harpa og Þorsteinn höfðu nokkra gesti um jólin. Þeir undruðust sérstaklega að ekkert partístand væri í borginni á aðfangadagskvöld og bjuggust helst við opnum krám og dúndurskralli á jólanótt.

Um áramótin var troðfullt hús í Ölbu í eina viku og mikil stemning.

„Sjálf áramótin draga fólk hingað til lands, flugeldaskothríð og brennur. Norðurljósin trekkja líka og þeir sem eru heppnir með ljósadýrð á himnum svífa skýjum ofar af gleði. Áberandi margir koma líka hingað til að kafa í Silfru á Þingvöllum.

Áramótin eru markaðssett erlendis með góðum árangri en þá verður líka að sinna þessum gestum vel þegar þeir bregðast við og mæta. Hér er flestu lokað um eða upp úr hádegi á gamlársdag. Öllum sundlaugum er lokað og flestum veitingastöðum og verslunum sömuleiðis. Það var ekki einu sinni hægt að panta pizzu og fá senda heim á gamlárdag. Hér þarf úr að bæta og vonandi verður það gert.“

  •  Sýslið lítur svo á að Alba sé kvenmannsnafn og beygir nafnið í samræmi við það. Alba þýðir messuskrúði presta á latínu og dögun á spænsku. Alba er ofan á allt annað heiti Skotlands á gelísku. Geðlegast er því að gistihúsið Alba sé beygjanleg íslensk kona, ættuð af Dalvík eða úr Mývatnssveit …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s