Hollustuver með dalvískar rætur í 101 Reykjavík

Staðlað

IMG_0801Vítamín og alls kyns hollustuvörur í þúsundavís uppi um alla vegi. Það er beinlínis heilsusamlegt að stíga þarna inn fyrir dyr, hvað þá ef menn hverfa af vettvangi með varning í poka og finna áhrifin hríslast um kroppinn næstu daga og vikur. Og svo spillir auðvitað hreint ekki fyrir að verslunin umrædda, Góð heilsa að Njálsgötu 1, hefur fjölskyldurætur á Dalvík.

Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi, eignaðist Góða heilsu fyrir fjórum árum og fer ekki yfir lækinn að sækja vatn í rekstrinum. Ólafur bróðir hans er verslunarstjóri og Sverri bróðir hans er starfsmaður í hlutastarfi. Þeir eru synir Stefáns Stefánssonar, deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu og Dalvíkings, og Huldu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Mímis símenntunar og Borgnesings. Afinn var enn einn Stefán Stefánsson, trillukarl á Dalvík. Langafinn að sjálfsögðu Stefán Stefánsson enn og aftur, sá bjó á Grenivík.

Máni Sverrisson afgreiðir og Ólafur verslunarstjóri Stefánsson fylgist grannt með.

Máni Sverrisson afgreiðir og Ólafur verslunarstjóri Stefánsson fylgist grannt með.

Og svo öllu sé til skila haldið í ættbókarfærslum var Máni, sonur Sverris, við búðarkassann og tók við greiðslu viðskiptavina þegar Sýslið bar að garði. Strákur var þar í raunverulegum verslunarskóla hjá Ólafi föðurbróður sínum og sýndi álitlega takta. Hver veit nema hann banki síðar upp á í sjálfum Verslunarskóla Íslands til framhaldsnáms í fræðunum. Þar er reyndar föðurbróðir Mána við stjórn, Ingi Ólafsson skólastjóri. Þessi fjölskylda þarf ekki að fara yfir lækinn til að sækja sér vatn í fræðum verslunar hvernig sem á er litið.

Vítamín og alls kyns bætiefni eru þær vörur sem seljast mest í Góðri heilsu, aðallega vörumerkið Swanson frá Norður-Dakóta í Bandaríkjunum. Góð heilsa flytur þessar vörur inn og er með þær í heildsölu hérlendis auk þess að selja í eigin verslun að Njálsgötu 1. Reyndar flytur Góð heilsa inn 9 vörur af hverjum 10 í hillunum, sem veitir versluninni ákveðna og augljósa sérstöðu. Og svo verður nefna hér í framhjáhlaupi að sjálfar hillurnar, innréttingarnar sem gefa versluninni hlýlegt og sérstakt yfirbragð, eru heimasmíðaðar. Stefán Ingi og vinur hans hönnuðu og smíðuðu nema hvað Ólafur verslunarstjóri á höfundarrétt að innréttingum í tehorninu.

Bræðurnir í Góðri heilsu: Sverrir, Ólafur og Stefán Ingi og Máni Sverrissonur.

Bræðurnir í Góðri heilsu: Sverrir, Ólafur og Stefán Ingi og Máni Sverrissonur.

Áberandi góður andi er í þessari verslun, enda er byggt á gömlum merg. Þarna hefur verið verslunarrekstur samfleytt frá því árið 1924. Hafliðabúð var í hluta rýmisins um árabil og við hlið hennar voru sjoppur eða hárgreiðslustofur. Stefán Ingi stækkaði við sig fljótlega eftir að  hann tók við rekstrinum og bætti við þeim hluta hæðarinnar þar sem hárgreiðslustofa var rekin í fram að því.

Góð heilsa er rétti staðurinn fyrir þá sem eru á grænmetisfæði eða sækjast eftir glútenlausum matvörum. Þarna er líka te í úrvali, súkkulaði, hreinlætisvörur og snyrtivörur.

„Við erum með um 2.500 vörunúmer og margt í hillunum sést ekki annars staðar. Neytendur eru kröfuharðir og bera saman verð á heilsuvörum í verslunum. Þar komum við vel út í samanburðinum og fljótlega opnum við líka vefverslun. Margir hafa áhuga á að tengjast okkur gegnum Vefinn og þeim verður að ósk sinni,“ segir Ólafur. Stefán Ingi bætir því við að margir fastir viðskiptavinir horfi til þess að Góð heilsa sé fjölskyldufyrirtæki, ótengd stórum verslunarkeðjum sem reka flestar aðrar verslanir á þessu sviði á landinu.

„Viðskiptavinahópurinn er þverskurður af þjóðinni. Hingað kemur fólk héðan og þaðan af höfuðborgarsvæðinu og landinu. Svo erum við einfaldlega hverfisverslun í miðborg Reykjavíkur, „kaupmaðurinn á horninu“. Þannig viljum við líka hafa það og erum í miklum og góðum samskiptum við aðra kaupmenn í grenndinn. Sá hópur er eins og fjölskylda,“ segir Stefán Ingi.

Erlendir ferðamenn kíkja oft í heimsókn í Góða heilsu og eiga það til að glenna upp augu þegar þeir rekast á heimsfrægt fólk á borð við Björk Guðmundsdóttur eða Sigurrósarliðana í versluninni, svo dæmi séu tekin. Fyrir jólin var drossía með íslenska skjaldarmerkinu úti fyrir dyrum á meðan húsbændur á Bessastöðum ráku erindi sín í Góðri heilsu. Einkaþjálfarar, næringarráðgjafar og fleiri slíkir senda þangað fólk til að kaupa inn bætiefni og fleira sem gerir kroppnum gott. Það segir sína sögu. Leiðir liggja að Njálsgötu 1.

Stefán Ingi segir að Góð heilsa sé í stórum dráttum orðin verslun eins og hún á að vera. Hann segist samt gjarnan vilja sjá meira af ferskvöru þar til sölu, enda hafi lítið sem ekkert verið flutt inn af lífrænu grænmeti og ávöxtum eftir hrun.

Þegar öllu er á botninn hvolft er ekki hægt að komast hjá því að bæta sig á líkama og sál með varningi Góðrar heilsu. Sverrir tínir úr bætiefnahillunum hverja dósina og krukkuna á eftir annarri og romsar upp úr sér fróðleiknum: Þetta duft styrkir ónæmiskerfið og þessar töflur koma skikki á hormónabúskapinn; fínt fyrir konur á breytingarskeiði. Þetta styrkir lifrina og hér eru töflur sem örva kynlífið.

Allt til alls sum sé. Bara nefna það. Góð heilsa er með’etta.

  • Ítarefni – fjölskyldutengt! Viðtal Þrastar Haraldssonar við Stefán Stefánsson trillukarl á Dalvík, Stebba Gren, í Ægi – 2. tbl. 1995 (pdf):

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s