Aðventuheimsókn til Júlíusar frá Syðra-Garðshorni

Staðlað

Sveitungi vor sat með Landbúnaðarsögu Íslands í kjöltunni þegar við komum, snilldarverkið sem sonur hans Árni Daníel ritstýrði og skrifaði að stórum hluta. Gangnamannabókin Krosshólshlátur innan seilingar og sömuleiðis þéttskrifaðar stílabækur húsbóndans með svarfdælskum kveðskap. Hratt leið kvöldstund.web_IMG_0374Þrír elstu Jarðbrúarbræður, Atli Rúnar, Jón Baldvin og Helgi Már, tóku hús á Júlíusi J. Daníelssyni frá Syðra-Garðshorni núna á aðventunni og lögðu á borð með sér nokkrar flöskur af Jóla-Kalda til að smyrja raddböndin. Hann býr í Seljahlíð, heimili aldraðra í Reykjavík, hress og kátur í anda. Líkaminn hefur ögn gefið sig og hann þarf stuðning til gangs.

Árunum fjölgar líka frekar en hitt, eins og hjá oss hinum. Júlíus verður 89 ára 6. janúar en það segir út af fyrir sig litla sögu um manninn. Til dæmis mættu flestir þeir sem eru mörgum áratugum yngri en Júlíus þakka vel fyrir að geta státað af stálminni hans.

web_IMG_0392Frá honum streymdu sögur, vísur og heilu ljóðabálkarnir þarna um kvöldið, margt af því hefur hann sem betur fer skrifað líka í stílakompurnar sínar. Þar á meðal á hann skráðan óborganlegan kveðskap Manna á Tungufelli, bæði tækifærisvísur og fleira, ekki síst ber að nefna vísur sem Manni orti um hvern einasta bæ og heimafólk í Svarfaðardal. Sumar bæjarvísur Manna eru fleygar en aðra lítt eða ekki þekktar manna á meðal.

web_IMG_0386Krosshólshlátur með sögum og kveðskap gangnamanna í Svarfaðardal var að sjálfsögðu nærtækur í bókaskápnum hans Júlíusar og hann dásamaði mikið þann menningarauka. Þegar bókinni hans var flett sást að gamli kennarinn hafði að sjálfsögðu yfirfarið hana líka eins og skólastíl og merkt við með blýanti þar sem honum þótti ástæða til. Fáeinar vísur eru þar ekki nákvæmlega eins og Júlíus kann þær og hefur skráð þær í stílakompurnar sínar. Og hann segir að ein vísa í Krosshólshlátri sé þar rétt feðruð að hálfu leyti. Hún er birt á bls. 85, ort um Reimar á Steindyrum og eignuð Hirti á Tjörn:

Bögglingslegt er Reimars rím
því rímskilninginn vantar fantinn.
Og svo vantar líka lím
til að líma saman á honum trantinn.

Júlíus Dan. segir að Hjörtur hafi kastað fram fyrripartinum en Hjalti í Ytra-Garðshorni botnað og Júlíus kunni frá fleiru að segja í kringum þennan kveðskap. Þegar horft er á vísuna í ljósi þessa sýnist nokkuð ljóst að vísan hafi verið tveggja manna verk.

web_IMG_0399Ógetið er allra ljósmyndanna úr Svarfaðardal og af Svarfdælingum sem Júlíus á og hefur flestar tekið sjálfur. Ritstjóri Svarfdælasýsls fékk að hafa með sér nokkrar myndir úr safni hans til að nota sem sameiginlega jólagjöf Júlíusar og Sýslsins til lesenda. Þær fylgja hér með ásamt skýringum sem byggjast að miklu leyti á því sem ljósmyndarinn sjálfur skrifaði aftan á þær.

Óbirtar eru myndir af brússpilamennsku í Syðra-Garðshorni og í Bakkagerði á árum áður. Þær þurfa meiri skýringa við og kalla því á aðra heimsókn til Júlíusar og meira öl á allra næstu dögum. Eigum við ekki bara að segja að afurð næstu heimsóknar til höfðingjans frá Syðra-Garðshorni verði áramótagjöf hans og Sýslsins?

Svarfdælasýsl óskar að svo mæltu vinum sínum um veröld víða gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Þessi vefur er nefnilega veraldarmiðill! Á árinu 2013 hefur hann fengið heimsóknir frá alls 52 löndum í öllum heimshornum og þær svo þúsundum skiptir. Þökk fyrir það.

Svarfdælskir fjölmiðlar hafa heldur aldrei litið smátt á sig. Þegar fyrsti Norðurlandabúinn var sendur út í geiminn hér um árið, Íslendingur af svarfdælskum ættum búsettur í Kanada, sagði Norðurslóð í fyrirsögn: Fyrsti Svarfdælingurinn út í geiminn. Þannig á að segja söguna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s