Baráttusaga Ragnars í Laugasteini

Staðlað

IMG_8727Samherjar úr Fylkingunni og forystumenn úr  Alþýðubandalaginu voru áberandi í gestahópi í Máli og menningu í dag þegar Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur og ábúandi í Laugasteini í Svarfaðardal, kynnti og áritaði bókina sína, Það skelfur. Þegar gangnamenn í Sveinstaðaafrétt kynntu sína bók á sama stað á dögunum kom fagnaðurinn fram sem jarðhræringar á mælum Veðurstofunnar. Jarðskjálftafræðingurinn var hófstilltari í útgáfugleði sinni, veitti samt vel en hreyfði ekki við jarðskorpunni.Þarna var líka stjúpsonur Ragnars á vappi, rithöfundurinn, teiknarinn og spaugarinn Hugleikur Dagsson. Guðrún Ágústsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, spurði hann hvort óhætt væri að gefa barnabarni sínu bók sem bæri titilinn My pussy is hungry? Höfundurinn kaus að svara því ekki beint heldur benda á að hún gæti valið aðra bók eftir sig með íslenskum titli, Ógæfu. Hann skildi svo Guðrúnu eftir með valkvíðann við búðarborðið.

Ragnar Stefánsson, Ragnar skjálfti, er goðsögn á vinstri kantinum í pólitík og hefur verið áratugum saman. Hann segir sjálfur að bókin sé ekki venjuleg ævisaga. Hún sé ekki um sig heldur um þá sem höfðu áhrif á hann, um frásagnir sem skiptu miklu máli og um atburði sem hann fylgdist með eða tók þátt í. Ragnar var sjálf táknmynd baráttunnar gegn bandarísku herstöðinni á Íslandi, aðildinni að NATO og Víetnamstríðinu.

Hann var og er byltingarsinnaður sósíalisti, á kafi í verkalýðsbaráttu alla tíð, gefur ekkert eftir og mun aldrei gera. Það hefði reyndar verið táknrænt upphaf bókakynningarinnar ef Ragnar hefði staðið á Laugaveginum og selt Neista, málgagn Fylkingarinnar, í tvo tíma eða svo. Félagi hans í Fylkingunni, Már seðlabankastjóri, hefði þess vegna getað staðið vaktina með honum en sá var fjarri góðu gamni í dag. Hann var í Seðlabankahöllinni sinni að vakta uppgufunina miklu í Hörpu þar sem skuldir landsmanna leystust upp og hurfu upp í gufuhvolfið í Simmalottóinu.

Ragnar fjallar í bókinni um uppruna sinn og ættir, um háskólaárin í Svíþjóð og vísindin sín. Hugmyndina um að skrifa endurminningar fékk hann reyndar á farfuglaheimili í Ástralíu sumarið 2011 þar sem hann sótti alþjóðlega ráðstefnu jarðeðlisfræðinga. Þau Ingibjörg Hjartardóttir, Imba frá Tjörn í Svarfaðardal, voru þá komin til Berlínar til dvalar í hálft annað ár. Hún sat við skriftir og kynnti líka skáldsögu sína, Hlustarann, sem komin var út í Þýskalandi: „ … ég er frjáls, kominn á eftirlaun, frjáls undan bókinni sem tók hug minn allan [Ragnar kynnti á ráðstefnunni nýútkomna bók eftir sig um jarðskjálftaspá: Advances in Earthquake Prediction], því skyldi það ekki geta gengið upp að við séum bæði að skrifa, saman í einangrun?“ skrifar Ragnar í inngangi um hugsanir sínar á fleti ástralska farfuglaheimilsins.

Ragnar Stefánsson er kominn á eftirlaun en er í reynd í fullu starfi áfram sem jarðskjálftafræðingur. Hann vinnur meðal annars að því að koma á virku samstarfi Indverja og Íslendinga um jarðskjálftarannsóknir: „Nú held ég áfram af því að mér finnst að ekki sé verið að nýta til eftirlits þær niðurstöður rannsókna sem ég lýsi í bókinni, eftirlits sem ég tel að muni draga mjög úr áhættu fyrir fólk og samfélag.“

Ragnar hefur svo gegnt á stundum hlutverki fjárhirðis í Laugasteini og gætt kinda Hjörleifs Hjartarsonar frá Tjörn á meðan Hjöri var fyrir sunnan að skemmta Reykvíkingum og segja þeim „sögu þjóðar“.

Bóhemlifnaður ánna hans Hjöra kemur við sögu í eftirmála bókarinnar:

Kindurnar ganga að mestu lausar allt árið. Á sumrin eru þær langt uppi til fjalla. Á vetrum halda þær sig mest hátt uppi í hlíðinni hérna ofan við. Þegar hagbeit er rýr er þeim gefið í fjárhúsi sem byggt er við íbúðarhúsið. Þetta er hálfgert villifé sem vill lifa frjálst og sjálfstætt en laumast inn í fjárhúsið til að éta, helst þegar enginn sér til og ef það fær ekki nóg að éta í frelsinu.

PS.

Steingrímur Steinþórsson bókaútgefandi og eigandi forlagsins Skruddu gefur út æviminningar Ragnars Stefánssonar. Skrudda gefur líka út Landbúnaðarsögu Íslands, 1.400 blaðsíðna stórvirki í fjórum bindum. Svarfdælingurinn Árni Daníel Júlíusson er höfundur fyrstu tveggja bindanna og varpar þar nýju og afar forvitnilegu ljósi á samfélagsþróunina hér á miðöldum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s