Svarfdælskur doktor í bændafræðum með átta kíló af landbúnaðarsögu á jólamarkaðinn

Staðlað

Fjórar þykkar bækur í stóru broti í kassa; texti, ótal myndir og teikningar á 1.400 blaðsíðum. Aðgengileg framsetning og læsileg. Landbúnaðarsaga Íslands er komin út, gríðarmikið verk og spennandi, saga bændasamfélagsins og atvinnugreinarinnar frá upphafi byggðar til okkar daga. Höfundur texta í tveimur bindanna og myndaritstjóri allra fjögurra er Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur, Árni Dan frá Syðra-Garðshorni. 

Mynd af heyskap í Syðra-Garðshorni, æskuheimili Árna Daníels bókarhöfundar, 1942. Hjónin Anna Jóhannesdóttir og Daníel Júlíusson og á milli þeirra eru synirnir Björn t.v. og Jóhann. Þriðji sonurinn, Júlíus J. Daníelsson, tók myndina. Hann er faðir Árna Daníels

Mynd af heyskap í Syðra-Garðshorni, æskuheimili Árna Daníels bókarhöfundar, 1942. Hjónin Anna Jóhannesdóttir og Daníel Júlíusson og á milli þeirra eru synirnir Björn t.v. og Jóhann. Þriðji sonurinn, Júlíus J. Daníelsson, tók myndina. Hann er faðir Árna Daníels

Skrifara þessara lína hafði tekist að gleyma því algjörlega að einhvern tíma í sumar hafði hann skráð sig kaupanda að þessu fjölbinda ritverki og núna í vikunni bankaði útsendari bókforlagsins Skruddu upp á með 8,5 kg af lesefni. Það gerir 2.500 krónur fyrir kílóið í áskrift en 3.500 krónur út úr búð. Mikil og holl andleg næring fyrir tiltölulega fáar krónur, þannig séð.

Árni Daníel skrifar fyrri hluta verksins. Hann fjallar um þúsund ára bændasamfélag og félagslega sögu þess á Íslandi frá landnámi og fram á 20. öld. Hinn ritstjórinn, Jónas Jónsson, fyrrverandi búnaðarmálastjóri og alþingismaður, skrifaði síðari hlutann. Hann fjallar um hefðbundnar búgreinar og aðrar búgreinar og um jarðrækt.

Hjörtur E. Þórarinsson á Tjörn, einn af frumherjum búfjársæðinga á Íslandi, með lömb á Hvanneyri 1946. Þau urðu til með sæði frá Skotlandi og voru því með tvöfalt vegabréf. Myndin birtist upphaflega í afmælisritinu Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára sem kom út 1988.

Hjörtur E. Þórarinsson á Tjörn, einn af frumherjum búfjársæðinga á Íslandi, með lömb á Hvanneyri 1946. Þau urðu til með sæði frá Skotlandi og voru því með tvöfalt vegabréf. Myndin birtist upphaflega í afmælisritinu Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára sem kom út 1988.

Jónas féll frá þegar hann hafði lokið að mestu við textann en það kom í hlut Árna Daníels, Helga Skúla Kjartanssonar sagnfræðings og fleiri að velja myndir og búa bindin tvö eftir Jónas til prentunar.

Ingólfur Júlíusson, bróðir Árna Daníels, hannaði bækurnar og sá um umbrot tveggja binda. Hann var að vinna við útgáfuna þegar hann veiktist og lést síðan fyrr á þessu ári. Ingó á því mikið í verkinu og Árni Daníel heiðrar minningu bróður síns með því að tileinka honum Landbúnaðarsögu Íslands í formálsorðum sínum.

Doktor í bændafræðum

Árni Daníel og Jónas fengu báðir þá hugmynd á sínum tíma að skrifa sögu íslensks landbúnaðar og færðu það í tal við þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústsson. Í framhaldinu kviknaði sú hugmynd að leiða þá saman til starfa og það varð úr. Höfundarnir skiptu með sér verkum og nálguðust umfjöllunarefnið á býsna ólíkan hátt. Samstarfið gekk vel og víst er að allir aðstandendur Landbúnaðarsögu Íslands eiga þakkir skildar fyrir afraksturinn.

Hjörtur á Tjörn og Júlíus í Syðra-Garðshorni við störf á sæðingastöðinni á Akureyri 1948. Hjörtur stúderar í smásjá hvort lífsé í vökvanum og svo stúdera þeir á Íslandskortinu hvar sveitabæirnir eru þar sem viðskiptavinir þeirra bíða, bályxna og spenntar kýr. Myndin birtist upphaflega í bændablaðinu Frey 1948.

Hjörtur á Tjörn og Júlíus í Syðra-Garðshorni við störf á sæðingastöðinni á Akureyri 1948. Hjörtur stúderar í smásjá hvort líf sé í vökvanum. Svo kanna þeir á Íslandskortinu hvar viðskiptavinir þeirra eru: bályxna kýr út um allar sveitir norðanlands. Myndin birtist upphaflega í bændablaðinu Frey 1948.

Eftir lestur fyrsta bindisins eftir Árna Daníel að hálfu getur skrifari ekki annað sagt en það að allar frístundir næstu daga eru hér með fráteknar. Þetta er afskaplega fróðlegt, áhugavert og vel skrifað. Greinilegt er líka að höfundurinn þekkir efnið vel og honum tekst vel að koma því skýrt og skilmerkilega til skila. Enda doktor í bændafræðum, hvorki meira né minna!

Árni Daníel var á sínum tíma í þriggja manna hópi sem ritstýrði útgáfu á Íslenskum söguatlasi í þremur bindum. Áður hafði hann skrifað BA- og MA-gerðir í Háskóla Ísladns um íslenska bændasamfélagið á 19. og 20. öld og síðan tekið doktorspróf í Kaupmannahafnarháskóla um félagslega sögu bænda á Íslandi á miðöldum, frá 1300 til 1700.

Auðvitað lá beint við að Svarfdælingurinn hellti sér í að skrifa heildarverk um landbúnaðinn og bændasamfélagið á Íslandi.

„Það var búið að skrifa mikið um sögu verkalýðsins og sögu kapítalsins en mér fannst vanta mjög að fjallað væri félagssögulega um miðaldir og fram undir 1800, hvað verið hefði  hér í gangi fyrir daga iðnbyltingarinnar. Um það fjallaði doktorsritgerðin og ég vildi koma því efni á framfæri og rifja svo upp fyrri kynni við bændasamfélagið á 19. og 20. öld sem ég skrifaði um á sínum tíma í Háskóla Íslands.

Reyndar má segja að Landbúnaðarsaga Íslands sé að hluta til afurð norrænnar samvinnu því undanfarin ár hafa komið út fjölbindaverk sagnfræðinga um landbúnað í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Ég hef auðvitað kynnt mér þau og verið í sambandi við höfundana. Minn þáttur í íslensku landbúnaðarsögunni er skrifaður með svipuðum fræðilegum formerkjum og í svipuðum anda og ríkir í hinum norrænu verkunum, einkum í því norska. Bækurnar okkur eru því hluti af norrænni heild.“

Kvaddur með olíustyrk …

Árni Daníel flutti úr Svarfaðardal 1978, tveimur árum eftir að foreldrar hans og systkini fóru suður.

„Ég kláraði Menntaskólann á Akureyri og var til heimilis í Syðra-Garðshorni fram yfir stúdentspróf. Það síðasta sem ég hafði upp úr því að búa þar var peningaávísun sem Halldór oddviti á Jarðbrú sendi mér, olíustyrkur úr ríkissjóði Íslands! Síðan fór ég suður og hellti mér í tónlistina, pönkið (sá kafli í lífi Svarfdælingsins verður tekinn sérstaklega fyrir síðar hér á Sýslinu). Það var ekki fyrr en árið 1984 að ég fór af alvöru í sagnfræðinám í HÍ og eftir vinnu vð Söguatlasinn lá leiðin til Kaupmannahafnar þar sem ég lauk doktorsprófi 1997.“

 Merkisdalurinn Svarfaðar

  • Svarfaðardalur kemur nokkrum sinnum fyrir í bókunum. Hvað leggur hann til Landbúnaðarsögu Íslands?

„Dalurinn ER einfaldlega merkilegur af mörgum ástæðum! Þar er mikið af fornleifum sem segja sögu til dæmis tveir af stærstu kumlateigum á Íslandi og fleiri kuml, reyndar óvenjulega mörg. Til eru miklar og vel skráðar heimildir um fornleifarnar og um ýmislegt annað í fortíðinni, til dæmis um afleiðingar Svartadauða. Hólabiskup kom í Svarfaðardal árið 1429 og þá voru einungis sex bæir í byggð en tíu bæir í eyði í Urðasókn. Svona var ástandið í öllum dalnum, hann var að miklu leyti í auðn eftir þennan skelfilega og mannskæða faraldur.“

  • Er sagan öll komin fram?

„Nei, langt í frá. Það væri til dæmis áhugavert að kanna áhrif Svartadauða á gróðurfarið í dalnum. Þegar fólki fækkaði svona gífurlega, fækkaði líka skepnum og þar með snarminnkaði beitarálagið. Fróðlegt væri að sjá hvernig gróðurfar breyttist við þetta og slíkt er unnt að rannsaka. Ég er í hópi sem ætlar að kanna hliðstætt mál í Mývatnssveit og hef áhuga á að koma Svarfaðardal inn í þá rannsókn líka.“

  • Þú fjallar talsvert um túngarðana í Svarfaðardal og það rennur upp fyrir lesandanum að þeir eru mun merkilegri en margir heldur!

„Engin spurning. Hlaðnir túngarðar voru hluti af landnýtingunni. Með görðunum vörðu menn heimahaga og engjar fyrir ágangi og beit. Elstu garðarnir er frá því um 1000 og þeim var við haldið í Svarfaðardal fram yfir 1400, mun lengur en til dæmis í Þingeyjarsýslum. Lögbókin Grágás kvað á garðönn í tvo mánuði á ári, það er að segja að í apríl og maí skyldu menn dytta að túngörðum sínum eða reisa nýja.

Til tíðinda telst líka að hvorki meira né minna en 75 kílómetrar af túngörðum eru sjáanlegir dalnum og nærtækast að benda á alla garðana á Tungunum.

Það  er líka sérstakt að í Svarfaðardal má finna leifar af seljum nánast ofan við hvern einasta bæ!“

  • Og er þá ekki allt upp talið enn?

„Nei, ég get bætt við að stórbýlin í Svarfaðardal eru kafli út af fyrir sig. Vellir voru til dæmis ein af miðstöðvum katólsku kirkjunnar á Norðurlandi á miðöldum. Þar var skóli, fjölmenni í heimili og miklar byggingar. Stórbýlin eru rannsóknarefni. Á Hnjúki í Skíðadal eru líka bæjarrústir sem fróðlegt væri að kanna.

Það er margt órannsakað og margt ósagt um byggð og samfélag í Svarfaðardal.“

Stoltur höfundur með verkið sitt og hann hefur alveg efni á því að vera ánægður að verkalokum.

Stoltur höfundur með verkið sitt og hann hefur alveg efni á því að brosa breitt. Landbúnaðarsaga Íslands er stórvirki.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s