Edrú gagnamenn árituðu bækur en svo reis landið á Loka

Staðlað

IMG_8531Aldrei hafa jafnmargir svarfdælskir gangnamenn verið jafnvandræðalega prúðir, stilltir og edrú og hjörðin sú sem steig út úr rútu við Mál og menningu föstudaginn 8. nóvember 2013. Komumenn voru eiginlega brjóstumkennanlega brjóstbirtulausir.

Siðameistari Gagnamannafélags Sveinstaðaafréttar, Doddi á Jarðbrú, hafði strax við brottför frá Dalvík að morgni dags sagt yfir söfnuðinn að útgáfa bókar væri svo mikið alvörumál að enginn mætti finna á sér fyrr en í fyrsta lagi að loknu hófinu við Laugaveg í Reykjavík og helst ekki fyrr en í næstu göngum. Svo minnti hann á þetta í rútunni af og til allt til Holtavörðuheiðar.

Þegar rútan svo stakkst ofan í Hvalfjarðargöngin hugkvæmdist einhverjum farþeganum að túlka orð siðameistarans „í næstu göngum“ sem svo að afmeyja mætti fleyg i Hvalfjarðargöngum en hvorki fyrr né síðar í suðurreisunni. Þetta uppgötvaðst bara svo seint að rútan var eiginlega að príla upp á suðurbakka Hvalfjarðar þegar gangnamenn lásu loksins í orðaleiki siðameistarans, enda leiðin undir fjörðinn einungis eins og frá Dalvík fram í Sundskála. Það er ekki viðlit að drekka sig fullan á 5,7 kílómetrum og því voru menn jafnedrú fyrir sem eftir Hvalfjörð.

Bjarni bóksali á Selfossi, sem gefur út Krosshólshlátur, hélt í stórum dráttum þræði siðameistara gangnamanna við að halda norðanmönnum þurrum með því að bjóða þeim rauðvínsdreitil í plastmáli. Það kann vel að vera að léttvín renni sæmilega ofan í sunnlenska gangnamenn en þeir sem eltast við kindur í Skíðadal brúka rauðvín aðallega til að bursta tennur þegar þeir ranka við sér úr roti að morgni réttardagsins.

Útgefandinn notaði samkomuna til að kynna barnabók um tröll og það var gert með tilþrifum. Svo forðuðu foreldrar sér með börn sín þegar kom að Krosshólshlátri á dagskránni. Hjörleifur frá Tjörn, bókarhöfundur, las upp úr bókinni og gangnamenn sungu yfir lýðnum af svölum Máls og menningar. Góður rómur var gerður að hvoru tveggja og rúmlega það. Engin bók hefur fengið slíka upphafskynningu á Íslandi og fær ekki, fyrr en þá að annað bindi frásagna úr Sveinsstaðaafrétt kemur út, gerist það á annað borð. Hjöri lét í það skína í ávarpi sínu að nóg efni væri til að aðra bók og ekki síðra en út væri komið nú þegar. Ef rétt reynist má það vera gott efni sem ekki hefur ratað á síður nýju bókarinnar en þessu verða menn að trúa. Ekki lýgur Hjörleifur.

Þetta var auðvitað alveg unaðsleg stund og hreinlega súrrealísk upplifun að hlýða á drykkjusöngva gangamanna á þessum stað á þessari stundu, hvað þá að horfa á Sigga í Brekku, Ómar, Steinar á Ingvörum og alla hina árita bækur hægri, vinstri í verslunarmusteri í miðborg Reykjavíkur. Hver hefði nú trúað því að óreyndu?

Svo barst leikurinn upp á Skólavörðuholtið, í Kaffi Loka, þennan dásamlega veitingastað og félagsheimili Sunnansvarfdælinga á höfuðborgarsvæði. Þar afbeislaði siðameistari Gangnamannafélagsins loksins sitt lið, enda ekki glæta að vera heftur að einhverju leyti þegar gestgjafarnir á Loka, Hrönn og Þórólfur, sýna sinn innri og ytri mann samtímis í mat og drykk. Þau báru á borð dýrindis snittur og síðan saltfisk og viti menn: Jólakalda með! Bruggararnir á Árskógsströnd fréttu af því hvað til stæði og hraðsendu suður eitt bretti af Jólakalda til að brynna gestum. Það stendur að vísu í lögreglusamþykkt Reykjavíkur að ekki megi brúka jólaöl fyrr en í fyrsta lagi á fimmtánda degi nóvembermánaðar ár hvert. En hvern andskotann varðar gangnamenn úr Svarfaðardal um reykvíska lagaskrá? Nákvæmlega ekki neitt, enda kláraðist allur lagerinn af Jólakalda fyrir miðnættið og þá var gerð atlaga að birgðum Loka af hinum hefðbunda Kalda sem rennur viðstöðulaust árið um kring. Gangnamannafélagið startaði þannig jólunum í Reykjavík ofan á allt annað og Þórólfur startaði reyndar áramótagleðinni líka með því að gefa koník á línuna.

Salurinn á efri hæð Loka var troðfullur, í orðsins fyllstu merkingu. Það var setið og staðið út úr dyrum í aldeilis magnaðri stemningu. Við lá að svitastraumar lækju niður veggi eins og gerist á réttarböllunum á Höfða. Ástandið var sums í samræmi við tilefnið og á neðri hæðinni lögðu útlendir ferðamenn frá sér hníf og gaffal þegar brast á með gangnamannasöng í upphæðum Loka. Aldrei hefði japanskur túristi geta látið sig dreyma um að hitta fyrir á sama blettinum kirkju Hallgríms, Kaffi Loka og Tungurétt en svo gerðist það í gærkvöld.

Júlli Jónasar var senuþjófur kvöldsins. Hann sýndi upptökur frá Tungurétt og af bæjum í sveitinni frá haustinu 1988. Gangnamenn og aðrir gestir á Loka kemmtu sér tryllingslega yfir myndum af sjálfum sér og öðrum, syngjandi og sprellandi. Þessar upptökur eru engu líkar, eins og reyndar má segja um allt þetta makalausa myndasafn sem Júlli fóstrar, myndir sem þeir feðgar, Júlli og Jónas á Bílaverkstæði Dalvíkur, tóku um árabil á Dalvík og í Svarfaðardal.

Síðasti hluti útgáfuuppákomunnar átti sér stað í rútubíl með Bóasi til Hafnarfjarðar á hótelið þar sem gangnamenn hölluðu sér í nótt, þeir sem á annað borð hreyfðu við sænguverum.

Einn ónefndur úr hópnum fór rakleiðis úr rútinni til næturvarðar í móttöku hótelsins og spurði hvort hann gæti vísað sér á Ölstofu Kormáks og Skjaldar.

„Hvaðan varstu að koma?“ spyr næturvörður.

„Af Kaffi Loka“, svarar Svarfdælingur.

„Þá hefði nú verið nærtækast fyrir þig að rölta bara þessa 50 metra á milli Loks og Ölstofunnar frekar en að taka þennan rútubílakrók til Hafnarfjarðar“, mælir  næturvörður.

„Gastu ekki sagt það strax?“ hreytir þá Svarfdælingur út úr sér. Svo fór hann á hótelbarinn og Ölstofa Kormáks og Skjaldar varð af umtalsverðum viðskiptum. Auðvitað er ekki ætlast til þess að gangamenn úr Svarfaðardal séu sérlega ratvísir í höfuðstaðnum og nágrenni. Það dugar þeim að rata til byggða úr afréttinni.

Myndband frá Máli og menningu:

Myndband frá Kaffi Loka:

Það er dálítið villt og galið að birta upptöku af upptöku en freistingin er meiri en svo að unnt sé að standast hana. Hér eru brot úr sýningunni hans Júlla Jónasar, afréttarstemning í Svarfaðardal árið 1988, takk fyrir! Þetta er aðallega gert til að útvarpa gleðilátunum á Loka. Gestum leiddist bara nákvæmlega ekki neitt …

Ein athugasemd við “Edrú gagnamenn árituðu bækur en svo reis landið á Loka

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s