Krosshólshlátur hljómar stafna á milli í prentsmiðjunni Odda

Staðlað

IMG_8515Sjöundi nóvember er loksins kominn á spjöld mannkynssögunnar. Í dag útskrifaði prentsmiðjan Oddi hf. Krosshólshlátur, sagna- og söngvabrunn gangnamanna í Sveinsstaðaafrétt í Svarfaðardal, eftir að lokinni prentvinnslu. Höfundurinn, Hjörleifur Hjartarson frá Tjörn, var viðstaddur fæðinguna og brosti breitt eins og feður gjarnan gera á slíkum stundum.

Hjörleifur bókarhöfundur og Björn Víðir viðskiptastjóri Odda.

Hjörleifur bókarhöfundur og Björn Svanur, viðskiptastjóri Odda.

Af og til hefur þess verið minnst að Októberbyltingin í Rússlandi átti sér stað 7. nóvember 1918. Þennan dag var líka Jón Arason Hólabiskup gerður styttri með öxi á hlaðinu í Skálholti árið 155o og synir hans tveir sömuleiðis. Örfáir sagnanördar í pólitík muna líka að Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn formaður Alþýðubandalagsins þennan dag 1987 og Hjörleifi Guttormssyni varð svo mikið um að hann hljóp á dyr í Rúgbrauðsgerðinni sáligu, fór heim og settist yfir nýútkomna Gunnlaðarsögu Svövu Jakobsdóttur til að ná sér niður – sem aldrei tókst.

Nú er hins vegar upp runnið árið 2013 og allir smáir og stórir viðburðir 7. nóvember úr fortíðinni falla í skugga Krosshólshláturs. Við þau gleðilæti verður dagurinn alltaf kenndur hér eftir.

Bókin er auðvitað kjörgripur, hvernig svo sem á er litið. Í kaupbæti fá menn geisladisk með söng gangnamanna. Þar með eru bókareigendur komnir með huga og annan fót í Sveinsstaðaafrétt þegar þeir lesa og hlýða á í sömu andránni. Engum leiðist á meðan, svo  mikið er víst.

Krosshólshlátur kominn á færibandið í Odda þar sem plasti er vafið um bókina, hún síðan sett í kassa og afhent útgefandanum. Héreru Sigurður Ágúst Sigurðsson og Aileen C. A. Masas við vinnu sína í Odda í dag.

Krosshólshlátur kominn á færibandið í Odda þar sem plasti er vafið um bókina, hún síðan sett í kassa og afhent útgefandanum. Hér eru Sigurður Ágúst Sigurðsson og Aileen C. A. Masas við vinnu sína í Odda í dag.

Krosshólshlátur er bæði gefinn út innbundinn og sem kilja. Prentunin tókst sýnilega með ágætum og reyndar svo miklum að markaðsmenn Odda ætlar að nota bókina í kynningarstarfi sínu!

Notaður er gulleitur pappír í bókina og bókaútgefendur hafa hingað til hikað við að kaupa hann nema í bækur með svart-hvítum myndum. Nú kemur á daginn, eins og Oddamenn auðvitað vissu allan tímann, að litmyndir koma ljómandi vel út líka.

Björn Svanur Víðisson, viðskiptastjóri Odda, segist hlakka til að geta sýnt öðrum viðskiptavinum og mögulegum viðskiptavinum gangnamannabókina úr Svarfaðardal, einmitt vegna litmyndanna á gula pappírnum.

Ingvi á Bakka er til dæmis góður í lit og enn betri litprentaður þegar hann sýpur á stærsta gangna„fleyg“ Íslandssögunnar á einni blaðsíðunni. Nautnasvipurinn er þess eðlis að eira að segja lesandinn finnur á sér líka, líka sá sem aldrei hefur bragðað sterkara um dagana en messuvínsgutl á fjórtánda ári.

Hjöri glaðbeittur með afkvæmið, Björn Víðir og Aileen C. A. Masas.

Hjöri glaðbeittur með afkvæmið, Björn Svanur og Aileen C. A. Masas.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s