Dalvískur töframaður á tökkum

Staðlað

19Hafnfirðingar eigna sér hann, alla vega FH-hluti þeirra. Þeir um það en Atli Viðar Björnsson er og verður gegnheill Svarfdælingur. „Töframaðurinn frá Dalvík“ kölluðu þeir hann á dögunum, spekingarnir í Pepsí-mörkunum á Stöð 2 sport, og höfðu vart fulla stjórn á þvaglátum sínum af hrifningu yfir tilþrifum sveitunga vors með knöttinn.

Sveitungi vor fór á gullskó af Kaplakrikavelli í dag, að loknum leik FH og Stjörnunnar, eftir að heimamenn höfðu sigrað áhugalausa og annars hugar Garðbæinga furðu auðveldlega.

Gullmarkið!

Gullmarkið!

Atli Viðar skoraði í tvígang í 4-0 sigri FH í dag og varð markakóngur efstu deildar í ár með því að skora fjórða og síðasta mark liðsins. Sýslið náði að sjálfsögðu þessu sögulega marki á myndina hér til hliðar. Fleiri myndir af gullmarkinu og fleiri tilþrifum okkar manns í leiknum eru í albúmi neðst hér fyrir neðan. Leitið og þér munið finna.

Silfursæti FH og gullskór Atla Viðars léttu brún á stuðningsmönnum liðsins í stúkunni. Þeir fögnuðu innilega markakóngnum sínum, framherjanum sem skilað hefur FH fleiri mörkum í efstu deild en nokkur annar leikmaður liðsins frá upphafi.

Atli Viðar hefur aldrei fyrr gómað gullskóinn en verið nálægt því 2009 og 2011 (silfurskór bæði árin) og 2010 (bronsskór). Kominn var tími á gull og til hamingju með það.

Það er vel við hæfi að Sýslið heiðri manninn í gullskónum með umfjöllun í tilefni dagsins.

FH-ingurinn Atli Viðar Björnsson á fullri ferð á knattspyrnuvellinum fyrr  í sumar. Oft hefur framtak hans bjargað liðinu á lokamínútum leikja. Það eru ábyggilega töfrar í skóm Dalvíkingsins. Mynd: Sport Hero - með þökk fyrir leyfi til birtingar.

FH-ingurinn Atli Viðar Björnsson á fullri ferð á knattspyrnuvellinum fyrr í sumar. Oft hefur framtak hans bjargað liðinu á lokamínútum leikja. Það eru ábyggilega töfrar í skóm Dalvíkingsins. Mynd: Sport Hero – með þökk fyrir leyfi til birtingar.

Lífið er ekki bara fótbolti hjá Atla Viðari en svo gott sem. Alla vega koma íþróttir við sögu oft og víða. Hann hefur starfað sem sölustjóri í Sportlandi við Grensásveg í Reykjavík frá 2007 og annast meðal annars samningsbundin viðskipti við íþróttafélög og íþróttamenn, þar á meðal við Stjörnuna í Garðabæ. Sportland þjónar knattspyrnudeild Stjörnunnar og sér Garðabæjarfélaginu fyrir búningum og öðru tilheyrandi iðkun fótbolta, allt frá barnaflokkum upp í meistaraflokka beggja kynja. Atli Viðar var því í raun og veru að hrella viðskiptavini sína með því að senda boltann í net Stjörnumanna í dag en enginn er víst annars kúnni í leik …

Heimurinn er stundum lítill. Logi Ólafsson, núverandi þjálfari meistaraflokks Stjörnunnar, var til dæmis þjálfari FH árið 2000 og samdi þá við Atla Viðar um að flytja suður í Hafnarfjörð og spila með þeim svart-hvítu (Logi fékk líka Frey Bjarnason varnarjaxl til FH árið 200, sá lék síðasta leik sinn í dag og var kvaddur með blómum og tárum).

Logi var málkunnugur Birni Friðþjófssyni, framkvæmdastjóra Tréverks og pabba Atla Viðars, og hafði veður af því að í Dalvíkurliðinu væri leikmaður sem ætti erindi í efstu deild. Atli Viðar var þá í námi í íþrótta- og félagsfræði í Verkmenntaskólan um á Akureyri. Hann dreif sig suður og tók að sjálfsögðu kærustuna með sér, Evu Þórunni Vignisdóttur, ættaða úr Vestmannaeyjum. Þau búa sem sagt í Hafnarfirði og eru í þessum skrifuðu orðum að pakka niður í ferðatöskur til að verja næstu fjórum vikum sem ferðafólk í Bandaríkjunum.

 Eitt gigg enn 

Kúnni afgreiddur.

Kúnni afgreiddur.

Venjulegt sumarfrí er nokkuð sem knattspyrnuiðkendur þekkja ekki nema af afspurn en þegar sparktíðinni lýkur á haustin láta þeir sig gjarnan hverfa yfir hafið til austurs eða veturs, um líkt leyti og farfuglarnir, en koma vísu mun fyrr til baka.

Undirbúningur næsta keppnistímabils hefst fljótlega í nóvember og þá verður Atli Viðar mættur á ný í Kapakrika til æfinga og í Sportland til vinnu. Hann er nýbúinn að semja við FH um eitt gigg enn.

„Veruleikinn er sá að ég er orðinn 33 ára og telst „gamall“ í ákveðnum skilningi í fótboltanum. Þegar svo er komið semja menn oftast um eitt ár í einu og ég stefni á að bæta við enn einu tímabili hjá FH. Þegar samningar eru lausir á haustin er mikið hringt út og suður til að kanna hvort hreyfing sé á mönnum og hvort þýði að bjóða nýja samninga hjá öðrum félögum í öðrum héruðum. Ég hef oft fengið slíkar upphringingar en alltaf hefur samt orðið ofan á að semja á ný við FH.“

Svo bregðast krossbönd … 

Íslenska landsliðið í handbolta er þekkt víða um álfur fyrir frammistöðu sína á alþjóðavettvangi. Sportland þjónar HSÍ og selur m.a. keppnistreyjur landsliðsins. Þetta kaupa erlendir ferðamenn og hafa með sér sem minjagrip frá íslandi. Skilyrðið er að á treyjan sé rækilega merkt auglýsingum fyrirtækja, nákvæmlega eins og landsliðsmenn klæðast henni í leikjum.

Íslenska landsliðið í handbolta er þekkt víða um álfur fyrir frammistöðu sína á alþjóðavettvangi. Sportland þjónar HSÍ og selur m.a. keppnistreyjur landsliðsins. Þetta kaupa erlendir ferðamenn og hafa með sér sem minjagrip frá íslandi. Skilyrðið er að á treyjan sé rækilega merkt auglýsingum fyrirtækja, nákvæmlega eins og landsliðsmenn klæðast henni í leikjum.

Atli Viðar hefur átt góðu gengi að fagna með FH en ferillinn hans hefur samt ekki allur verið á rauðum dregli. Langt í frá. Hann hefur þannig orðið fyrir því í tvígang að slíta krossband í hné, fyrst 2001 og aftur 2006. Slíkt telst til alvarlegra íþróttameiðsla og þau kostuðu í bæði skiptin að okkar maður varð að láta eiga sig að sparka bolta í hátt í eitt ár.

Krossbandsslitin settu strik í reikning Atla Viðars að fleiru en einu leyti. Erlend knattspyrnulið hefðu örugglega sýnt honum meiri áhuga ef hann hefði ekki slitið krossband og það tvisvar. Gengi manna fellur óhjákvæmilega á markaðnum við áföll af því tagi. Svo töldu FH-ingar hann ekki hafa jafnað sig nægilega vel eftir meiðslin í seinna skiptið til að spila í Hafnarfjarðarliðinu við upphaf keppnistímabilsins 2007. Hann var lánaður til Fjölnis í Grafarvogi, sem spilaði í næstefstu deild, og var þar um sumarið.

Þegar kom fram á haust blasti við sá möguleiki að FH og Fjölnir mættust í úrslitaleik í bikarkeppni KSÍ, sem þótti með nokkrum ólíkindum en gerðist samt. Atli Viðar sá til þess að Fjölnir kæmist alla leið í úrslit með því að skjóta Fylki út úr bikarnum með minnisstæðri rispu og marki í framlengingu á Laugardalsvelli.

Þá gerðist það að forysta FH beitti sér gegn því að Atli Viðar spilaði með Fjölni  til úrslita gegn FH. Það þótti ýmsum býsna harkaleg viðbrögð stórveldisins í Hafnarfirði gagnvart neðri deildarliðinu úr Grafarvogi. Niðurstaðan varð samt sú að Dalvíkingurinn horfði úr stúku Laugardalsvallar á liðin sín tvö spila til úrslita, allt annað en sáttur með hlutskipti sitt. Eftir það fór hann „heim“ í FH og hefur verið þar óslitið síðan þá.

 Atli Viðar og Heiðar Helgu samtímis í landsliðinu

Stjörnumaður stendur á gólfi í Sportlandi, uppábúinn í keppnisgallanum.

Stjörnumaður stendur á gólfi í Sportlandi, uppábúinn í keppnisgallanum.

Atli Viðar hefur fjórum sinnum komið við sögu A-landsliðsins í knattspyrnu, í öll skiptin á árinu 2009. Hann var fyrst valinn í landsliðshópinn fyrir jafnteflisleik gegn Slóvakíu (1-1) á Laugardalsvelli og var síðan með í sigurleikjum gegn Georgíu (3-1) og Suður-Afríku (1-0), líka á Laugardalsvelli. Þá fór hann með landsliðinu til Írans, af öllum stöðum, í vináttulandsleik við heimamenn. Þar höfðu Íranir betur og sigruðu með einu marki gegn engu.

Atli Viðar kom inn á í öllum fjórum landsleikjunum og til tíðinda telst að Dalvíkingurinn Heiðar Helguson var líka í landsliðshópnum í þremur leikjum af þessum fjórum. Sveitungarnir Heiðar og Atli Viðar spiluðu báðir á sínum tíma með meistaraflokki á Dalvík en aldrei samtímis. Leiðir þeirra lágu ekki saman að því leyti fyrr en í landsliðinu löngu síðar eða árið 2009.

Súrt sumar

Töframaðurinn frá Dalvík er sáttur við gengi FH-inga í Evrópukeppninni núna sumarið 2013 en ekki líkt því jafn kátur með niðurstöðu Íslandsmótsins.

„Við erum einfaldlega súrir eftir sumarið, það er ekkert leyndarmál. Við vorum Íslandsmeistarar í fyrra og ætluðum að verja titilinn í ár en hlutirnir gengu ekki upp. Nú söfnum við liði og náum fram hefndum að ári. KR-ingar eru vissulega sterkir en fjarri því að vera ósigrandi. Hafnfirðingar ætla að gera betur næst!“

– Hvað tekur við þegar knattspyrnuferlinum lýkur? Þjálfun eða ??

„Eitthvað íþróttatengt, alveg örugglega. Ég er ekki sérlega spenntur fyrir þjálfun eins og er. Einu sinni hvarflaði að mér að fara í íþróttakennaranám en það gerðist ekki. Smiður verð ég alla vega ekki, smíðar liggja ekki vel við mér. Pabbi sér um þá deild.

Síðar meir gæti ég hugsanlega skipt mér af félagsmálum tengdum íþróttum en þar fer ég aldrei í fötin hans pabba, sem verið hefur á kafi í íþróttamálum heima á Dalvík og í forystu KSÍ árum saman. Margir njóta verka þeirra sem draga þannig vagninn í íþróttahreyfingunni með ómældu hugsjónastarfi og eljusemi en kastljósin beinast ekki að þeim á sama tíma heldur aðallega að okkur iðkendunum.“

Sölustjórinn í Sportlandi.

Sölustjórinn í Sportlandi.

FH-ingurinn sókndjarfi í faðmi stórfjölskyldunnar á Dalvík í den tid.  Í efri röð frá vinstri eru Helga Níelsdóttir, Björn Friðþjófsson, Atli Viðar Björnsson, Harpa Sigfúsdóttir og Þorsteinn Friðþjófsson.  Í neðri röð frá vinstri eru Andri Freyr Þorsteinsson, Kristín Gestsdóttir, Silja Þorsteinsdóttir, Guðrún Björnsdóttir, Friðþjófur Þórarinsson, og Kristinn Þór Björnsson,.

FH-ingurinn sókndjarfi í faðmi stórfjölskyldunnar á Dalvík í den tid.
Í efri röð frá vinstri eru Helga Níelsdóttir, Björn Friðþjófsson, Atli Viðar Björnsson, Harpa Sigfúsdóttir og Þorsteinn Friðþjófsson.
Í neðri röð frá vinstri eru Andri Freyr Þorsteinsson, Kristín Gestsdóttir, Silja Þorsteinsdóttir, Guðrún Björnsdóttir, Friðþjófur Þórarinsson, og Kristinn Þór Björnsson,.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s