Stuðningsmaður Liverpool nr. 1272 með lög og reglu sín megin

Staðlað

Á AnfieldHöfuðborgarbúar finna til öryggis þegar þeir vita af Dalvíkingum í yfirstjórn lögreglunnar sinnar. Áður var það Bjarki Elíasar, nú Lína Steins. Og svo á Stefán lögreglustjóri ættir að rekja til Hríseyjar. Það er næsti bær við Dalinn. Öllu er því óhætt í landnámi Ingólfs.

Hér bjó ég! Auðvitað hangir Svarfaðardalsmynd eftir Mats á kontórveggnum hjá Línu. Ljósmyndarinn hefur bara ekki gengið betur frá gripnum en svo að myndin fölnar hægt og bítandi í rammanum og litirnir eru orðnir ansi móskulegir .

Hér bjó ég! Auðvitað hangir Svarfaðardalsmynd eftir Mats á kontórveggnum hjá Línu. Ljósmyndarinn hefur bara ekki gengið betur frá gripnum en svo að myndin fölnar hægt og bítandi í rammanum og litirnir eru orðnir ansi móskulegir …

Lína hefur með öðrum orðum verið þremur af alls fjórum lögreglustjórum í Reykjavík innan handar frá því embættið var sett á laggir árið 1939! Einungis sá fyrsti, Agnar Kofoed-Hansen, naut ekki starfskrafta Dalvíkingsins, af þeirri einföldu ástæðu að Lína var ekki einu sinni orðin drög að hugmynd, hvað þá heldur fædd, þegar Kofoed-Hansen lét af embætti 1947 og gerðist flugvallastjóri og síðan flugmálastjóri.

Daginn áður en Sýslið heimsótti Línu á fimmtu hæð lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu/Hlemm komu þangað sendimenn kínverska alþýðulýðveldisins til að ræða málin við lögreglustjórann. Þá rifjaðist upp fyrir skrifara að einmitt í Kína lágu þræðir valds og áhrifa stundum í óvæntar áttir. Deng Xiaoping var til dæmis ekki með merkilegri vegtyllu innan kommúnistaflokksins en að vera formaður þorrablótsnefndar miðstjórnar eða eitthvað álíka. Samt var hann valdamesti maður ríkisins og milljarður manna bugtaði sig fyrir karlinum daginn langan.

Ritari þriggja lögreglustjóra í samfellt þrjá áratugi hlýtur líka að geta kippt í ýmsa valdaspotta, kæri hann sig um en hér er engu slíku til að dreifa. Lína er ekki Deng.

Það kemur á daginn að Lína sinnir mörgu fleiru en ritarar gjarnan gera svona strangt til tekið. Hún passar til dæmis upp á að flokka skjöl yfirstjórnarinnar til varðveislu og útdeilir erindum á þá borðalögðu og stjörnum prýddu á hæðinni. Allt eru þetta karlar, einungis mannauðsstjórinn er kona. Enginn fyrirmæli að ofan um að jafna mun kynja á tímum þegar meira að segja framhaldsskólanemar eru tilneyddir að koma á kynjakvótakerfi svo þeir fái heimild til að svara gáfulegum spurningum í Gettu betur. Lína kvartar hins vegar ekki, síður en svo.

„Það truflar mig bara alls ekki að hafa alla þessa karla í kringum mig. Mér finnst alveg geggjað að vera innan um þá og gæti ekki hugsað mér að fara héðan á einhvern kvennavinnustað. Þetta eru eins og bræður mínir, ferlega flottir strákar!“

–       Hvernig stóð á því að leiðin lá upplega að ritaraborði Sigurjóns lögreglustjóra í Reykjavík árið 1982?

„Ég hafði lokið stúdentsprófi, dvalið í Englandi í hálft ár og unnið á Bókhaldsskrifstofunni á Dalvík. Þá vildi svo til að Jón Stefánsson frá Brúarlandi, Jón Brúi, bað mig um að leysa sig af sem fulltrúa sýslumanns á meðan hann leitaði sér lækninga og það gerði ég. Þetta var löngu fyrir daga Vefsins og Fésbókarinnar, svo ég hafði fátt annað að gera til að drepa tímann, þegar rólegt var í vinnunni, en að lesa Lögbirtingarblaðið.

Lina11_ppEitt sinn var þar auglýst eftir ritara fyrir lögreglustjóraembættið í Reykjavík og tekið fram að umsækjendur skyldu hafa lokið stúdentsprófi. Það var frekar óvenjulegt. Ég sótti um og fékk starfið. Seinna var mér sagt að Bjarki Elíasson yfirlögregluþjónn hefði bent á það, þegar fjallað var um ritararáðninguna, að þarna væri umsækjandi frá Dalvík. Ég þekkti hann ekkert þá en kannski hefur ábending Bjarka og dalvískur uppruni minn skipt einhverju máli, ég veit ekkert um það. Hingað kom ég alla vega og hér er ég enn.

Gott var að vita af Bjarka þarna í upphafi og reyndar héldu margir að hann væri lögreglustjóri en ekki Sigurjón. Bjarki var svo áberandi maður í Reykjavík og landsþekktur, enda oft í fjölmiðlunum.“

Lína hefur brennandi áhuga á knattspyrnu og er eitilharður stuðningsmaður Liverpool í enska boltanum. Hún er félagi nr. 1272 í Liverpoolklúbbnum á Íslandi og hefur að sjálfsögðu farið á Anfield, heimavöll goðanna sinna í Bítlaborginni, til að sjá liðið spila.

Oft hefur  í seinni tíð ekki verið tekið út með sældinni að verja málstað Liverpool liðsins en gengi þess í upphafi yfirstandandi leiktíðar fær stuðningsmennina til að brosa nú breiðar en oft áður. 1-0 sigurinn yfir Manchester United á Anfield á dögunum gleymist þannig ekki strax á þeim kontórum á fimmtu hæðinni við Hlemm þar sem Púlara er að finna.

Unitedmenn á öðrum kontórum létu sér fátt um finnast en tóku heldur betur gleði sína ný þegar MU lagði Liverpool í deildarbikarnum heima í Manchester. Daginn eftir kom Lína aðeins seinna en venjulega til vinnu og sleppti morgunkaffinu. Hún lagði ekki á sig að hlusta á grobbið í Unitedmönnum þann daginn.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Lína ritari hans. Bæði gallharðir Púlarar ...

Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Lína ritari hans. Bæði gallharðir Púlarar …

„Mánudagsmorgnar eru heilagar stundir hér á vinnustaðnum. Þá er farið yfir leiki helgarinnar í enska boltanum. Við Stefán lögreglustjóri og Jón H.B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri erum gegnheilir Púlarar og skipum stuðningsdeild Liverpool. Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri, Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn og Jónmundur Kjartansson í innri endurskoðuninni eru hins vegar Unitedmenn.

Svo er hérna einn stuðningsmaður Tottenham, Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn, og einn fylgir Arsenal að málum, Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.  Þeir eru eru frekar einmana og úti á kanti!

Auðvitað er talað líka um íslenska fótboltann þegar hann er spilaður á annað borð. Lögreglustjórinn er harður KR-ingur og syngjandi glaður sem slíkur þessa dagana. Ég er hins vegar Grafarvogsbúi og gleðst yfir því að Fjölnir sigraði í fyrstu deild og spilar í efstu deild næsta sumar.

Eftir að ég flutti suður hélt ég reyndar fyrst með Fram, án þess að hafa hugmynd um hvers vegna. Held helst að mér hafi bara fundist búningar Framara flottastir! Og svo elti ég að sjálfsögðu Dalvíkingana, þegar þeir komu suður, og horfði á það spila, hvort sem var á höfuðborgarsvæðinu, á Selfossi eða á Suðurnesjum. Steini bróðursonur minn var í liðinu og ég vildi auðvitað fylgjast með honum sérstaklega. Fótboltinn kemur því oft við sögu hjá mér.“

Þetta var um Liverpool og fótboltann. Lína hefur talsvert saman við aðra brottflutta Dalvíkinga að sælda syðra, alla vega í Heiðmörk um helgar.

„Við hittumst stundum, stelpur frá Dalvík, og spjöllum saman á kaffihúsi; gerðum þó meira af því á árum áður. Þetta eru Helga Sigvalda (Bergljótar og Sigvalda), Helga Hjöra (Gerðu og Hjörleifs), Eygló Páls (Gógóar og Inga Lár), Sigga Jóns ( Nonna Tryggva), María Jónsdóttir (Maja í Árhóli), Silla Sverris (Gerðu og Sverris Sveinbjörns) og Rakel M. Óskars (Öbbu og Katós).

Svo er ég í gönguhópi Dalvíkinga og ýmissa viðhengja þeirra sem hittist í Heiðmörk á laugardagsmorgnum, labbar einn hring og fær sér morgunkaffi í Holtabakarí  í Grafarholtshverfi.

Haukur Sigvalda er upphafsmaður að þessu og lagði hart að mér sumarið 2006 að ganga með sér þarna. Ég sagðist vera með ég verki í mjöðm og þráðist lengi við en lét undan og kveið mjög fyrir andvökunóttum og mjaðmakvölum eftir fyrstu gönguna. Merkilegt nokk fann ég ekki fyrir neinu og svaf eins og engill.

Heiðmerkurgangan hefur haldið mér gangandi síðan þá og það fjölgaði fljótlega í hópnum. Mér finnst  þetta ómissandi þáttur í dagskrá vikunnar og um að gera að láta slæmt veður ekki stoppa sig.“

Lína með syni sínum, Jóni Aldari, á Anfield í Liverpool. Helgur staður Púlara, svona rétt eins og Mekka er fyrir múslimana.

Lína með syni sínum, Jóni Aldari, á Anfield í Liverpool. Helgur staður Púlara, svona rétt eins og Mekka er fyrir múslima.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s