Gangnamaður að hinstu stund

Staðlað

Fjölmenni kvaddi Villa Þór frá Bakka við afar sérstaka og eftirminnilega athöfn í Dalvíkurkirkju. Jarðsett var að Tjörn og Dalurinn rammaði inn kveðjustundina í birtu og blíðviðri. Svalt loft. Snjóföl niður undir byggð. Haust og vetur tókust á í fjallshlíðum og seinni göngur rétt handan við hornið.

Mynd: Orri Þórsson

Mynd: Orri Þórsson

Séra Dalla Þórðardóttir, prófastur í Skagafirði, jarðsöng. Villi Þór hafði lagt þeim hjónum, Döllu og Agnari H. Gunnarssyni, lið við bústörf í Miklabæ. Prestur vitnaði því öðrum þræði til eigin kynna sinna af Villa og dró upp skemmtilega karakterlýsingu af svarfdælskum vinnumanni sínum í tilefni  kveðjustundar.

Mynd: Orri Þórsson

Mynd: Orri Þórsson

Gangnamenn í Sveinstaðaafrétt sáu um allan söng við athöfnina og fóru bæði létt og skínandi vel með hefðbundna útfararsálma, svarfdælsk ættjarðarljóð og tónbókmenntir sauðfjárrekenda í Dalnum. Hápunktur athafnarinnar var þegar þeir mynduðu hring í kringum kistuna og sungu Skíðadalsstemninguna, ljóð eftir Tjarnarfeðgana Hjört E. Þórarinsson og Þórarinn Hjartarson við lag eftir Evert Taube.

Þessi þáttur útfararinnar var afar áhrifamikill og geymist skýr í minningu þeirra sem viðstaddir voru, eins og menn geta ímyndað sér við að horfa á myndina sem Sýslinu barst frá hinum knáa gestaljósmyndara sínum í Dalnum, Orra Þórssyni á Bakka. Smellið á myndirnar til að stækka þær!

3Það sem gerði athöfnina hins vegar alveg einstaka var að við hana fékk þriggja vikna gömul sonardóttir Villa Þórs nafnið Villa Ragna. Hún fæddist viku fyrir andlát afans og hann náði ekki að sjá hana. Meðfylgjandi eru meðal annars myndir af Villu Rögnu nýnefndri og móðurinni, Stellu.

Hestamenn mynduðu heiðursvörð við sáluhliðið Tjarnarkirkjugarðs. Fjöldi kirkjugesta fór fram í Tjörn og fylgdi Villa til grafar. Á krossinum á leiði hans eru tvær línur úr saknaðarstefi Þórarins á Tjörn og táknmyndir fyrir gagnamanninn gengna, ljúfmennið frá Bakka.

  • Viðauki að kveldi 20. september: Í myndasafnið bættust nú við myndir frá Orra á Bakka frá því fyrr í vikunni þegar kista Villa Þórs var flutt frá Akureyri til Dalvíkur með viðkomu heima á Bakkahlaði. Hestamenn fóru fyrir bílalest niður í Bakka og sungu eitt lag við húskveðjuathöfn sem séra Dalla Þórðardóttir annaðist.

Saknaðarstef, ort á heimleið úr afréttinni 8. september 2013.

Lágt eru kveðin ljóðin ný
og lágstemmd smalahrópin.
Hjörtun verða viðkvæm því,
það vantar einn í hópinn.

Nú er fyrir skildi skarð,
skorið var á strenginn.
Það sem enginn vildi varð,
Villi Þór er genginn.

  • Árni Hjartarson.

Villi sofnar síðsta blund
á Sveinsstaðahagans mjúku grund
með gangnamannsins geð og lund
gangnamaður að hinstu stund.

  • Þórarinn Hjartarson.

Skíðadalsstemmning

Sól á himni hlý
hellir geislum um víðan fjallasal.
Góðveðurs gullin ský
glitra yfir Skíðadal.
Hraðstreymin flúð og foss
fjörugt kliða við gróin tóftarbrot.
Hýrna við kveðjukoss
Krosshóll, Stafn og Gljúfrárkot.
Dalir og flóðlýst fjöll
faðminn breiða mót hverjum gömlum vin.
Jökulsins marlit mjöll
magnar hádagssólarskin.
Ó, öll sú dásemd og dýrð
dregur okkur ómótstæðileg til sín.
Og hvar sem þú bróðir býrð
brosir þessi mynd til þín.

Hljóðnar og hausta fer.
Hjartað lyftist í brjósti gangamanns.
Hásumarblærinn ber
blómailm að vitum hans.
Hugurinn sýnir sér
sauðahjarðir og hestamannaþing,
heyrir að hóað er
hátt í bröttum Almenning.
Hátt yfir fjöll og firrð
flæðir ljósið og sólin stendur kjur.
Standa í stoltri kyrrð
Steingrímsfjall og Ingjaldur.
Ó, öll sú dásemd og dýrð
dregur okkur ómótstæðileg til sín.
Og hvar sem þú bróðir býrð
brosir þessi mynd til þín.

Af himni sígur sól,
sést hve brekkurnar nýja liti fá.
Stend ég á háum hól,
horfi yfir Vesturá.
Rennur æ fleira fé
framan göturnar, koma þeir þá senn
og þar um síðir ég sé
sunnan ríða neðstu menn.
Loks eftir langa bið
lausan taum gef og klárinn tekur sprett.
Karlarnir hlið við hlið
halda norður, út að rétt.
Ó, öll sú dásemd og dýrð
dregur okkur ómótstæðileg til sín.
Og hvar sem þú bróðir býrð
brosir þessi mynd til þín.

  • Hjörtur E. Þórarinsson/Þórarinn Hjartarson.

Ein athugasemd við “Gangnamaður að hinstu stund

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s