Myndirnar hans Vigga voru upplifun dagsins hjá frönsku konunni sem rakst inn á Kaffi Loka í dag, einmitt þegar sveitungi vor opnaði þar málverkasýningu. Sú franska var frá sér numin af hrifningu og enn breikkaði brosið þegar Hrönn staðarhaldari benti henni á að listamaðurinn sjálfur væri á vettvangi. Þá var strax komið efni í óvænta ljósmynd úr Íslandsheimsókninni.
Vignir Þór Hallgrímsson, byggingarmeistari og myndlistarmaður á Dalvík, kom sem sagt suður með nokkur olíumálverk til að sýna á Kaffi Loka. Myndirnar verða til sýnis og sölu þar til loka ágústmánaðar. Þær eru málaðar í fyrra og í ár, sjálfur Svarfaðardalur er mótívið á þeirri nýjustu.
Þetta er ellefta sýning Vignis frá því árið 1995. Hann hefur einu sinni áður sýnt á Loka, vatnslitamyndir á árinu 2009. Hann útskrifaðist af listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri 2008 og hefur sótt fjölda námskeiða í myndlist, meðal annars í Myndlistarskóla Akureyrar og hjá Einari Helgasyni, Þorra Hringssyni og Guðmundi Ármanni.
Áður voru smíðarnar lifibrauðið og myndlistin aukabúgrein en í seinni tíð hefur Vignir sinnt listinni æ meira, ekki síst heilsunnar vegna. Hann veiktist alvarlega fyrir nokkrum árum og segir að listsköpunin hafi í raun verið hluti af endurhæfingarferlinu.
Glatt var á hjalla á Loka síðdegis þegar þangað streymdu ættingjar og vinir, margir af svarfdælskum rótum, til að heilsa upp á hann og samfagna í tilefni sýningarinnar. Sumir voru að drepa í fyrsta sinn niður fæti í þessu óformlega félagsheimili Svarfdælinga sunnan heiða og gátu því glaðst af mörgum ástæðum á einu bretti.
Séu enn finnanlegir Svarfdælingar á höfuðborgarsvæðinu, sem ekki hafa kynnst Loka af eigin raun, er sýning Vignis æpandi tilefni til að stíga skrefið núna í ágúst.
Loki er engum öðru veitingastað líkur og því engin tilviljun að útlendir gestir skrifi um hann heilu lofgjörðarbálkana á Vefnum.