Ótvíræður kvöldgalsi hljóp í hannyrðakonur sem Björk Ottósdóttir var með á námskeiði hjá Heimilisiðnaðarfélaginu í gærkvöld. Saumaskapur, sögur og hlátursrokur. Greinilega giska skemmtileg kvöldstund og lærdómsrík líka.Dalvíkingurinn Björk þeysist um landið og kennir útsaum. Hún var í Reykjavík í byrjun vikunnar og bætti við aukanámskeiði til að anna eftirspurn. Næst er það Borgarfjörður eystri og síðan Akureyri og Húsabakki í Svarfaðardal.
Upppantað er víst alls staðar en þó hugsanlegt að bæta við á Austurlandi. Námskeiðið þar er í uppgerðu frystihúsi sem Blábjörg heitir og gegnir núna hlutverki gistihúss. Alls staðar má bródera ef vilji er fyrir hendi, líka í fiskvinnsluhúsum í nýjum hlutverkum.
Fjallað var um Björk, list hennar, danska skólann sem hún kennir og um sumarnámskeiðin hennar á Íslandi, hér á Svarfdælasýsli á dögunum. Áhuginn fyrir umfjöllunarefninu leyndi sér ekki því á fyrsta sólarhringnum kíktu yfir þúsund manns á fréttina!
Meðfylgjandi myndir voru teknar með góðfúslegu leyfi í húsakynnum Heimilisiðnaðarfélagsins að Nethyl í gærkvöld, aðallega innandyra. Við sjáum líka hvernig hannyrðakonur við störf líta út ef horft er á þær í gegnum rúðugler af götunni …
Á daginn kom að þarna var hátt hlutfall Svarfdælinga og það hækkaði reyndar þegar betur var að gáð. Fyrst skal auðvitað fræga telja Björk sjálfa, leiðbeinandann og listamanninn. Svo nefnum við Sigrúnu, dóttur Ellu og Óskars; Eygló, dóttur Gógóar og Inga Lár og Rakel, dóttir Öbbu og Katós. Þannig ber að ættbókarfæra þær þannig að sem flestir nái áttum í ættfræðinni.
Í hópnum var líka Sæunn Óladóttir. Hún gerði réttilega kall til að teljast Svarfdælingamegin í hópnum og vísaði til niðjatals Hreiðarsstaðakotsættar, máli sínu til stuðnings. Það reyndist mikið rétt.
Fleirum í hópnum tókst ekki að bródera sig til ættar í Svarfaðardal með góðu móti en Ásta frá Vestmannaeyjum fær þrjú prik í kladdann fyrir að lýsa því yfir í vitna viðurvist að hún fari til Dalvíkur eftir verslunarmannahelgi og upplifi Fiskidaginn mikla í fyrsta sinn á ævinni. Slíkur ásetningur er að minnsta kosti á við fjarskyldleika við svardælskan ættstofn.
Það ber afsaka gagnvart þátttakendum á námskeiðinu að ekki tekst hér að nafngreina þá alla til fulls en samt sýnd viðleitni í þá átt.
Þarna var Sunna, fyrrum nemandi Bjarkar í hönnunar- og handmenntaskólann í Skals á Jótlandi. Þarna var líka Húsvíkingurinn Sigríður Ingvarsdóttir, sem einnig var um hríð í sama skóla. Þá eru ótaldar Fríða og Álfheiður.
- Sigrún Óskarsdóttir hefur ekki áður sótt námskeið hjá Björk en segist oft hafa heimsótt hana í Danmörku og komið í skólann hennar. Viðeigandi er að Sigrún slái botn í þennan pistil með umsögn sinni í símtali í dag:
Það er upplifun að koma heim til Bjarkar enda er þar allt handunnið og flott. Hún er mikill listamaður og flínkur hönnuður, fljót að vinna, hugmyndarík og útfærir í listsköpuninni flest sem henni dettur í hug.