Leiðin frá Bárugötu til sendiráðs Scanmar

Staðlað

IMG_6229Dalvíkingurinn Þórir Matthíasson sýslar við það daginn langan að kynna og selja nema fyrir veiðifæri togara, tæknibúnað sem gerir skipstjórnarmönnum mögulegt að horfa á trollið sitt og veiðiskapinn á sjónvarpsskjám í brúnni, í beinni og þráðlausri útsendingu úr djúpinu. Hann er sendiherra Scanmar á Íslandi en afhenti að vísu ekki trúnaðarbréf á Bessastöðum á sínum tíma, enda hefur forsetasetrið akkúrat ekkert að gera með trúnaðarsambandið við alla þá í íslenska flotanum sem eiga, kaupa og nota þessar fínu norsku græjur.

IMG_6238„Fjölskyldan flutti heim frá Bristol í Bretlandi árið 2006. Þar starfaði ég sem markaðsráðgjafi fyrirtækja, sem tengdust sjávarútvegi og hélt því áfram um hríð eftir heimkomuna. Efnahagshrunið setti heldur betur strik í þann reikning. Ótal dyr í viðskiptum lokuðust á einni nóttu en þegar slíkt gerist opnast oft nýjar dyr og nýir möguleikar birtast. Í september 2008 bauðst mér að gerast framkvæmdastjóri lítils félags, sem norska tæknifyrirtækið Scanmar AS á að öllu leyti, og hér er ég enn. Við kaupum inn nema/skynjara fyrir togveiðar frá norska móðurfélaginu, kynnum þá, seljum og höldum úti viðhaldsþjónustu fyrir búnaðinn. Við erum því í stöðugu sambandi við íslenskar útgerðir og skipstjórnarmenn og höfum líka mikil samskipti við erlenda togara sem hingað koma.“

Upplýsingaflóð úr undirdjúpum

Sendiherra Scanmar á Íslandi fer snarlega í kynningargírinn og efnir til sýnikennslu. Hann hampar til dæmis nema, sem kostar ríflega eina milljón króna. Græjan er fest á trollpokann og sendir upp í brú upplýsingar um aflann sem slæðist inn í veiðarfærið, um hita sjávar, halla á pokanum í sjónum og fleira og fleira.

Þessir merkilegu nemar eru af ýmsu tagi og ætlaðir til að hengja á toghlera, höfuðlínu, belg eða poka. Þeir senda til dæmis upplýsingar um bil á milli hlera, um strauma, straumhraða og straumstefnu. Þarna sannfærðist gestur, með upprunavottorð úr Tjarnarsókn, um brýna nauðsyn þess að vita hvort sjór flæðir beint eða á ská inn í troll á meðan togað er. Ef sjórinn kemur skakkt að veiðarfærinu minnkar veiðihæfni þess. Það er dægurljóst. Þá er gott að hafa nema á trollinu sem láta karlinn í brúnni vita og hann bregst við með því að breyta um togstefnu eða beita togvírum þannig að staða trollsins í sjónum breytist til batnaðar og aukinnar veiðihæfni.

Það þarf ekki að spyrja að því að þeir fiska sem róa og þeir fiska enn frekar sem búa við þessa tækni og kunna að notfæra sér möguleika hennar. Margir skipstjórnendur sökkva sér niður í tæknifræðin og læra til fulls á græjurnar sínar, aðrir ekki. Þetta er í raun sama sagan og með snjallsímana sem margir veifa en bara nokkrir leggja sig eftir því að læra á allt það sem símtækin hafa upp á að bjóða. Hinir láta duga að kunna að hringja og svara en lítið umfram það.

Sjávarútvegspólitík á silkitærri íslensku

IMG_6215Eðli máls samkvæmt fylgist Þórir afar vel með hræringum í sjávarútvegi og opinberum umræðum um atvinnugreinina. Þegar þar er komið sögu í spjallinu talar okkar maður hreina og tæra íslensku:

„Sjávarútvegsfyrirtækin búa við linnulausa óvissu ár eftir ár, skaðlegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, ofurskattlagningu og sérlega ómálefnalega umræðu í upphrópunarstíl og æsifyrirsögnum. Þeir sem þannig láta ættu að skammast sín fyrir að tala niður sjálfa undirstöðuatvinnugreinina. Afleiðing óvissuástandsins er sú að fyrirtækin endurnýja ekki skip eða hús; við erum að gera út þrítuga og jafnvel fertuga togara. Ótal verkefni eru í biðstöðu um allt land.

Fyrri ríkisstjórn tók U-beygju í ýmsum málum og nýja ríkisstjórnin ætlar líka að taka U-beygju, vonandi samt til góðs. Enginn atvinnurekstur getur hins vegar búið við svona sviptingar frá einu kjörtímabili til annars, það þarf frið og framtíðarsýn til lengri tíma. Margir í útlöndum fylgjast með gangi mála hér, hrista haus og skilja hvorki upp né niður í því sem gert er. Vinir okkar Norðmenn spyrja til dæmis í forundran: „Viljið þið enda í ríkisstyrktum sjávarútvegi eða hvað?“

Sjávarútvegsfyrirtækin greiða veiðigjald og eiga að gera það en gjaldheimtan er komin út fyrir mörk skynseminnar. Menn hafa þar gengið fram meira af kappi en forsjá og ég vænti þess að nýja ríkisstjórnin vindi eitthvað ofan af vitleysunni.

Svo má spyrja hvort ekki eigi eitt yfir alla að ganga? Fjöldinn allur af fyrirtækjum selur aðgang að auðlindum landsins og að landinu sjálfu án þess að greiða nokkurn skapaðan hlut fyrir það. Er ekki rétt að ræða heildarmyndina og framkvæma þá í samræmi við hana en ekki taka eina grein svona út fyrir sviga?

Þetta var hinn pólitíski hitaskúr samtalsins. Mál að kæla sig ögn niður og færa sig í huganum norður í land og allt að fimm áratugum aftur í tímann.

Hársbreidd frá bændaskóla

Viðmælandinn okkar er módel ‘63 og fagnar því fimmtugsafmæli í ár. Borinn og barnfæddur á Dalvík, sonur Matthíasar Jakobssonar úr Grímsey og Lorelei Gestsdóttur Hjörleifssonar söngstjóra. Hann upplýsir að bændaskóli hafi verið nærtækt næsta skref að loknu grunnskólanámi á Dalvík og það sætir vissulega tíðindum.

„Eiginlega munaði bara hársbreidd að ég færi í bændaskóla. Ég hafði verið í þrjú sumur á Hömrum í Reykjadal, þar sem voru hross og ég lærði að umgangast þau. Ég fékk hest í fermingargjöf og eignaðist fleiri hesta. Fósturfaðir minn, Stefán heitinn Steinsson, var með kindur á Dalvík og þegar allt þetta kom saman varð til áhugi á búskap. Við vorum fjórir skólabræður á Dalvík sem ætluðum í bændaskóla: Albert Reimarsson, Þorleifur Karlsson á Hóli, Víkingur Gunnarsson og ég. Þorleifur og Víkingur stóðu við fyrirheit um bændaskóla en við Albert fórum á sjóinn. Þar var ég í tvö ár og var svo í stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum 1982-1983.

Stýrimannadeildin á Dalvík var að byrja um þetta leyti en ég var búinn að bíta í mig að fara til Eyja og gerði það. Kannski hefur haft áhrif að Gestur bróðir var í Vestmannaeyjum en alla vega steig ég þarna gott og farsælt skref. Það var gaman og gagnlegt að kynnast Vestmannaeyjum og Eyjamönnum. Að því bý ég enn og umgengst vinnunnar vegna marga sem ég kynntist þá, til dæmis Sigurjón Óskars og Guðjón á Gullberginu.

Frá Eyjum lá leiðin til Dalvíkur og þar var ég á ýmsum bátum en tók svo við Bjarma EA, sem Bliki gerði út. Áhöfnin var ung að árum og fjörug eftir því, sá elsti var 22 ára og skipstjórinn, ég sjálfur, liðlega tvítugur!“

Konuefnið við næsta götuhorn

Nemarnir umræddu í röðum á kontór Þóris.

Nemarnir umræddu í röðum á kontór Þóris.

Sjómennskuannálnum lýkur svo með því að Þórir réði sig fyrir sunnan sem 2. stýrimann á Pétri Jónssyni á eina loðnuvertíð, aflaskipið mikla sem gert hafði verið út frá Dalvík og hét þá Loftur Baldvinsson. Raunveruleg ástæða þess að þetta skipsrúm varð fyrir valinu var það að kærastan og væntanleg eiginkona var kominn í nám að Bifröst í Borgarfirði, Dalvíkingurinn Dórothea Elva, dóttir Önnu Ara og Jóhanns heitins Haukssonar. Þau tóku upp þráðinn þegar hún var fimmtán ára og hann nítján. Hún bjó á horni Karlsbrautar og Bárugötu, hann að Bárugötu 3. Hjónabandsmarkaðurinn í þessu tilviki var talinn því í tugum fermetra. Þau gátu næstum því haldist í hendur án þess að fara út fyrir lóðarmörkin hvort á sínum stað.

„Það kom að því að ég ákvað að afla mér þekkingar og starfsréttinda til að nota í landi, skráði mig í Tækniskólann og útskrifaðist með próf í útgerðartækni og iðnrekstrarfræði vorið 1991. Þá hringdi Pétur Reimarsson, framkvæmdastjóri Sæplasts á Dalvík, og bauð mér starf sölumanns. Þangað fór ég og vann með Kristjáni Aðalsteinssyni, yfirmanni sölu- og markaðsmála. Hann varð síðar framkvæmdastjóri fyrirtækisins og ég tók þá við starfinu hans.

Fyrsta verkefnið var að selja trollkúlur hérlendis og erlendis, vöru sem framleidd var hjá Plasteinangrun á Akureyri. Sæplast hafði nýlega keypt það fyrirtæki. Síðan fór ég að selja plastkerin og þvældist um allan heim í þeim erindagjörðum í 120-150 daga á ári að jafnaði.

Í Sæplasti var ótrúlega góður mannskapur, samstilltur kjarnahópur sem enn er þar að hluta. Það voru uppgangstímar og mikið at; hrein forréttindi að fá að taka þátt í þessu ævintýri.“

Leikflétta í boði KEA & Samherja 

Fljótlegra er að telja upp Asíulönd sem Þórir hefur ekki komið til en löndin þar sem hann hefur drepið niður fæti eða dvalið um lengri eða skemmri tíma.

Fljótlegra er að telja upp Asíulönd sem Þórir hefur EKKI komið til en löndin þar sem hann hefur drepið niður fæti eða dvalið um hríð. Hér bendir hann á Kóreuskagann. Hann kom á sínum tíma til Suður-Kóreu.

„Tíminn í Sæplasti varði í nær 15 ár, þar af 4 ár þar sem ég starfaði annars staðar en sat í stjórn Sæplasts á meðan. Í því millibilsástandi, frá því í lok árs 1996, starfaði ég við að sameina og síðan reka félag sem varð til við sameiningu Blika á Dalvík og GBen á Ársskógsströnd, gamalgróinna sjávarútvegsfyrirtækja sem höfðu starfað í 35 ár (GBen) og 25 ár (Bliki).

Kaupfélag Eyfirðinga bauð okkur síðan að koma inn í útgerðar- og fiskvinnslurekstur sinn á Dalvík og eignast þar um fjórðungshlut. Það var samþykkt og ég tók við sem framkvæmdastjóri sameinaðs félags, BGB Snæfells ehf . Blekið á undirskrift samrunasamningsins var hins vegar varla þornað þegar ráðamenn KEA boðuðu fyrirvaralítið stjórnarfund og tilkynntu þá ákvörðun sína að skipta á hlutabréfum í Snæfelli og Samherja. Samherji eignaðist þar með 70% í Snæfelli og þar með félagið.

Þetta kom eins og þruma úr heiðskýru lofti og var satt að segja ofboðslega vel útfærð leikflétta þeirra sem stýrðu KEA og Samherja. Samherjamenn höfðu lengi haft augastað á GBen og vildu kaupa félagið en eigendur þess, Hermann Guðmundsson og félagar, vildu ekki selja. Svo var þetta allt í einu komið til Samherja á silfurfati. Þannig fór það og síðan þekkja menn söguna. Samherji rekur félagið á Dalvík af myndarskap, sem er auðvitað hið besta mál.“

Sviptingar í Sæplasti 

Nýir eigendur Snæfells á Dalvík buðu Þóri að starfa þar áfram en hann kaus að hætta og fara aftur til Sæplasts, í gamla starfið sem sölu- og markaðsstjóri. Þar var hann næstu tvö árin  og flutti til Bristol í Bretlandi 2003 til að sameina tvær markaðsskrifstofur fyrirtækisins þar í eina söluskrifstofu Sæplasts. Þau hjón voru ekki nema rétt búin að koma sér fyrir ytra þegar breytingar urðu í eigendahópi Sæplasts og nýr forstjóri, Geir Gunnlaugsson, hringdi með þau skilaboð að söluskrifstofa í Bretlandi samræmdist hvorki stefnu né sýn nýrra meirihlutaeigenda.  Þórir var kallaður heim en hann kaus frekar að segja upp í Sæplasti og dvelja áfram í Bretlandi næstu árin sem ráðgjafi á eigin vegum fyrir íslensk og erlend fyrirtæki.

„Okkur leið vel í Bretlandi og gátum hugsað okkur að vera þar áfram. Árið 2006 kom svo að ákveðnum kaflaskilum í skólagöngu dætranna og við urðum að gera upp við okkur hvort við flyttum heim til Íslands eða yrðum áfram ytra og festum rætur.

Ofan á varð að koma heim til að setjast að í Garðabæ og þar erum við enn. Ég starfaði sjálfstætt til að byrja með og réði mig síðan til Scanmar. Dórothea Elva hefur starfað sem fasteignasali hjá Fasteignasölunni Torgi í Garðabæ síðan 2006 og stundar nú nám við Háskóla Íslands til löggildingar fasteignasala.

Við eigum þrjár dætur, sem allar eru í námi, Sæunni nemur mannfræði við Háskóla Íslands, Kolfinna er í Menntaskólanum við Hamrahlíð og sú yngsta, Arey, klárar grunnskólann næsta vetur.

scanmar

IMG_6230

Skýringarmyndir af því hvar nemarnir eru festir á trollið og hvernig þeir virka …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s