Diplómat með Dalvíkurrætur

Staðlað

IMG_7658Aðsetur norrænu sendiráðanna í Berlín gat alveg verið sendiskrifstofa íslenska hestsins, hvert svo sem var litið innan eða utan dyra. Forsetinn væntanlegur í opinbera heimsókn og heimsmeistaramót íslenska hestsins handan við hornið. Kom svo ekki á daginn að rekstrarstjóri íslenska sendiráðsins er Húsvíkingur með dalvískar rætur en kallar sig Norðlending í nafni diplómatísks hlutleysis.

Hafrún Stefánsdóttir flutti til Dalvíkur þegar pabbi hennar, Stefán Jón Bjarnason, gerðist þar bæjarstjóri 1982 og gegndi því starfi til 1986. Hún var þá 11 ára, gekk í grunnskólann á Dalvík og síðar í Menntaskólann á Akureyri. Hún segist hafa eignast nokkrar af bestu vinkonum sínum á Dalvíkurárunum og nefnir til sögunnar Eyrúnu Rafnsdóttur, Ingu Dóru frá Jarðbrú, Steinu frá Brekku og Sögu frá Ingvörum.

Eftir menntaskóla lá leiðin í Háskóla Íslands og þar útskrifaðist Hafrún með BA-próf í rússnesku, sem síðar varð aðgöngumiði hennar að íslensku utanríkisþjónustunni. Í millitíðinni dvaldi hún reyndar í Kasakstan sem sérleg heimilishjálp hjá Þóri Guðmundssyni og Öddu Steinu Björnsdóttur. Þórir var þá að taka við starfi á vegum Rauða krossins þar í landi og er núna sviðsstjóri hjá Rauða krossi Íslands.

Eftir það sótti Hafrún um starf flutningsskylds ritara í utanríkisþjónustunni í von um að komast til starfa við sendiráð Íslands í Moskvu og fékk það. Þar var hún í 4 ár og síðan í 6 ár í Genf í Sviss. Eftir það var hún kölluð heim til starfa í utanríkisráðuneytinu sem ritari utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þá fór í hönd tími sem var í hæsta máta óvenjulegur, allt frá fyrsta degi.

Beint heim í hrun og pólitískan óróleika

„Ég byrjaði í ráðuneytinu 19. júní 2008 og skildi ekkert í mikilli ásókn fjölmiðlamanna sem vildu hafa tal af ráðherranum strax að morgni dags. Þá stóð yfir verkfall hjúkrunarfræðinga og bókaður var fundur ráðherra með forystu Bandalags háskólamanna vegna málsins, þar á meðal Ingibjargar Sólrúnar. Kjaradeilan var tilefni allrar fjölmiðlaathyglinnar, í tengslum reyndar líka við fortíð Ingibjargar Sólrúnar sem leiðtoga í kvennabaráttunni.

Næstu mánuði gekk auðvitað mikið á í þjóðfélaginu og í stjórnmálum, bæði í aðdraganda bankahrunsins og í hruninu sjálfu. Þar við bættust veikindi Ingibjargar Sólrúnar og ríkisstjórnarskipti. Ég færði mig í kjölfarið til innan ráðuneytisins og fór að sinna rekstrarmálum þess en var komin á viðskiptasvið að fást við Evrópusamskiptin þegar ég var send til starfa í sendiráðinu í Berlín haustið 2012.“

Öryggisráðstafanir svo eftir var tekið

Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra tók á móti okkur og sýndi okkur margt og mikið, meðal annars þennan hvíta gæðing sem reyndar tekur ekki þátt í heimsmeistaramótinu í Berlín í ágúst.

Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra tók á móti okkur og sýndi  margt og mikið, meðal annars þennan hvíta gæðing sem reyndar tekur ekki þátt í heimsmeistaramótinu í Berlín í ágúst.

Hafrún sinnir ræðismálum og aðstoðar Íslendinga í ýmsum málum sem upp á koma en er líka rekstrarstjóri sendiráðsins. Í nógu er að snúast núna um hásumarið, sem annars er yfirleitt frekar rólegur tími. Helstu skýringar á óvenju miklum erli er annars vegar opinber heimsókn forseta Íslands í Þýskalandi í júní síðastliðnum og hins vegar heimsmeistaramót íslenska hestsins í Berlín 4.-11. ágúst.

„Forsetinn var í opinberri heimsókn í Þýskalandi í eina viku og ferðaðist um landið. Slíkt verkefni er með því stærsta sem sendiráð fær til að sýsla með. Mitt hlutverk er að halda utan um rekstrarhlið málsins, semja um þjónustu af ýmsu tagi, sjá til þess að hlutirnir gangi fyrir sig eins og til er stofnað og gera upp að atburði loknum.

Auglýsingahross á lóð norrænu sendiráðanna. Íslenska sendiráðið er brúnt, fjærst á myndinni til vinstri.

Auglýsingahross á lóð norrænu sendiráðanna. Íslenska sendiráðið er brúnt, fjærst á myndinni til vinstri.

Heimsóknin gekk vel og fékk verulega umfjöllun fjölmiðla. Starfsmenn annarra norrænna sendiráða tóku líka eftir því að öryggisgæsla var meiri en þeir höfðu áður séð í heimsóknum norrænna þjóðhöfðingja, sem skýrist víst af hvalveiðum Íslendinga. Þýsk yfirvöld óttuðust miklar mótmælaaðgerðir vegna hvalveiðanna en lítið sem ekkert varð úr því. Forsetanum fylgdu 24 mótorhjól og 10 lögreglubílar. Það telst víst vel í lagt á norræna vísu en lítið miðað við öryggisgæsluna í kringum Obama Bandaríkjaforseta, sem var í opinberri heimsókn í Þýskalandi í vikunni á undan forsetanum okkar. Fjölmiðlamenn gerðu sér meðal annars mat úr því að bera saman mikið umstang í kringum Bandaríkjaforseta og tiltölulega lítið umstang í kringum forseta Íslands!“

Dorrit á hestbaki í Brandenburgarhliðinu?

Nú er sem sagt framundan heimshátíð Íslandshestsins í Berlín og búist við fjölda fólks að heiman til að fylgjast með. Það á vel við að efna til heimsmeistaramótsins í Þýskalandi því þar eru hvorki fleiri né færri en um 65.000 Íslandshestar og yfir 300 búgarðar vítt og breitt um landið þar sem menn fást aðallega við að rækta, temja og stússa við íslensk hross.

Sjálft sendiráðssvæðið í Berlín var undirlagt í kynningu á Íslandshestinum frá miðjum maí til byrjunar júlí, eins og sést á meðfylgjandi myndum. Svo hagar til að norrænu ríkin eru öll með sendiráð á sömu lóðinni og hafa sameiginlegan inngang, samkomusal og mötuneyti. Íslenski hesturinn átti þar sviðið vikum saman og dró að fjölda gesta til að skoða mynda- og listmunasýningu í móttökuhúsi sendiráðanna.

Hafrún á kontórnum sínum í Berlín.

Hafrún á kontórnum sínum í Berlín.

„Opnunarathöfn heimsmeistaramótsins mun vekja mikla athygli hér, ef að líkum lætur,“ segir Hafrún. „Skipulögð verður hópreið á 300-400 íslenskum hestum um 17. júní strætið í miðborginni og í gegnum Brandenborgarhliðið. Vonast er til að Dorrit forsetafrú verði þar í broddi fylkingar en það er óstaðfest. Engu að síður verður eftir þessu tekið hér í landi, engin hætta á öðru. Þjóðverjar eru almennt vel meðvitaðir um að íslenska hestakynið sé bæði sérstakt og merkilegt.“

Ekki í frásögur færandi að tala rússnesku! 

Nú dugar ekki að tefja þennan rússneskumælandi Norðlending lengur við skyldustörfin. Og vel að merkja, hún bregður fyrir sig rússnesku oftar en ætla mætti í höfuðborg Þýskalands.

„Rússar eru alls staðar á ferli í heiminum, til dæmis í hverfinu þar sem ég bý í gömlu Vestur-Berlín. Þar eru fjögur stór vistheimili fyrir aldraða og ég held helst að á tveimur þeirra séu aðallega Rússar. Ég fæ ekkert prik fyrir að tala móðurmál Rússanna, gefi ég mig á tal við þá. Þeir líta dálítið stórt á sig og telja það eðlilegasta hlut í heimi að allir tali rússnesku, svona rétt eins og okkur finnst að allir hljóti að kunna eitthvað í ensku. Rússum finnst ekkert merkilegt að hitta rússneskumælandi Vesturlandabúa!“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s