Björk boðar fagnaðarerindi útsaumsins

Staðlað

IMG_0666.jpg„Útsaumur nærir sálina og jafnast á við hugleiðslu!“ segir Dalvíkingurinn Björk Ottósdóttir, kennari við hönnunar- og handmenntaskólann í Skals á Jótlandi, fáeina kílómetra frá Viborg, vinabæ Dalvíkur í Danmörku. Hún býr sig undir Íslandsferð og ætlar að kenna útsaum á námskeiðum á fimm stöðum á landinu núna í júlí, þar á meðal í heimabyggðinni sinni – að sjálfsögðu (sjá nánar neðst í fréttinni).

Ég kenni bæði klassískan og nútímalegri útfærslu útsaums á námskeiðunum, sem eru opin öllum, hvort heldur eru nýliðar eða reynsluboltar í hannyrðum. Þannig hefi ég alltaf haft það  hér í skólanum og utan skólans.

Björk útskrifaðist á sínum tíma úr Skals – höjskolen for design og håndarbejde, eins og skólinn hennar heitir upp á danska þjóðtungu. Skólastjórnendur vildu samt ekki sjá á bak henni eins og hverjum öðrum nemenda við skólaslit, heldur buðu henni kennarastarf. Síðan þá eru liðin nákvæmlega 20 ár.

Björk er dóttir Ottós heitins Gunnarssonar og Friðbjargar Jóhannsdóttur á Dalvík.

Björk er dóttir Ottós heitins Gunnarssonar og Friðbjargar Jóhannsdóttur á Dalvík.

Útsaumur er aðalkennslugrein Bjarkar og sérsviðið er útsaumur á messuskrúða presta og á skírnarkjólum (bródera nöfn barnanna í þá). Höklar í þónokkrum kirkjum í Danmörku eru með handverki hennar en engan slíkan er að finna í íslensku guðshúsi, ekki enn að minnsta kosti. Það hlýtur hins vegar að standa til bóta ef biskupinn yfir Íslandi skyldi nú lesa þessa umfjöllun hér á Sýslinu!

Svo kennir Björk nemendum að sauma hanska úr lambaskinni og að binda bækur inn í fínar kápur.

Dalvíska hannyrðakonan hefur kynnt verk sín á sýningum í Danmörku og víðar. Hún hefur áður efnt til námskeiða hérlendis en fer víðar um nú en áður, til dæmis til Borgarfjarðar eystri. Ef einhver einhver staður á Íslandi hentar vel til hugleiðsluástands við bróderingu, ja þá er það einmitt sá magnaði staður á Austurlandi.

Í skólanum er Björk með námskeið fyrir alla aldursflokka, meira að segja „ömmunámskeið“! Hún var núna í byrjun júlímánaðar að leiðbeina á alþjóðlegu sumarnámskeiði og í haust kemur hópur hollenskra kvenna til dvalar og saumaskapar í eina viku. Það er árlegur viðburður hjá þeim hollensku og mörg önnur dæmi eru um fólk sem kemur aftur og aftur.

Um páskana í ár var Björk í 10 daga í Japan að kenna útsaum á fimm námskeiðum og hefur þegið boð um að fara þangað á ný bæði 2014 og 2015. Hún boðar sem sagt fagnaðarerindi útsaumsins um heimsbyggðina eða svo gott sem.

Íslendingar setjast af og til á skólabekk í Skals, enda er skólinn bæði eftirsóttur og sér á báti á sínum sviðum í Danmörku; var reyndar tekinn fyrir fáum árum inn í lýðskólakerfið þar í landi. Núna eru til dæmis tvær íslenskar konur í skólanum.

Björk segir að greinilega hafi dregið úr aðsókn frá Íslandi eftir efnahagshrunið 2008, enda snarhækkuðu þá skólagjöldin í íslenskum krónum vegna gengisfalls krónunnar. Heldur hefur Íslendingum í Skals fjölgað á nýjan leik í seinni tíð.

Sú var tíðin að íslenska og danska krónan voru jafnsettar systur á alþjóðlegu gengismóti gjaldmiðla en nú er hin íslenska króna fallin niður í fjórðu deild, er haldið í göngugrind, og enn á niðurleið. Sú danska heldur hins vegar sínum sessi bara bærilega, takk.

  • Svo er það spurningin: Kviknaði þessi áhugi á handmennt og hannyrðum strax í æsku?

Já, ætli þetta hafi ekki byrjað sem áhrif frá ömmunum á Dalvík, Valrós og Rikku í Björk? Svo höfðu handavinnukennararnir í Dalvíkurskóla sín áhrif líka og eitt leiddi af öðru. Ræturnar eru þarna í öllum skilningi og alltaf er gaman að koma heim.

Ég hef áður verið með námskeið á Húsabakka, það er mjög spennandi og ég hlakka til að koma þangað aftur. Mér þætti líka afskaplega gaman að hitta sveitunga mína á höfuðborgarsvæðinu á námskeiðinu fyrir sunnan og annars staðar á landinu!

Margir spyrja hvort ég sé ekki orðin Dani eftir að hafa búið hér í aldarfjórðung eða svo. Ég svara því staðfastlega neitandi en tek auðvitað fram um leið að mér líki afar vel að búa í Danmörku. Ég verð alltaf Íslendingur en fyrst og fremst Svarfdælingur.

Sumarnámskeið Bjarkar á Íslandi 2013

  • Gamla Borg í Grímsnesi, 12. og 13. júlí, upplýsingar og innritun: burfell@simnet.is
  • Akureyri, 20. og 21. júlí, upplýsingar og innritun: karen@vma.is
  • Húsabakki í Svarfaðardal, 22. og 23. júlí, upplýsingar og innritun:  irk@mi.is
Skólinn hennar Bjarkar á Jótlandi.

Skólinn hennar Bjarkar á Jótlandi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s