Öðlingur kvaddur

Staðlað

IMG_5546Ingólfur Júlíusson frá Syðra-Garðshorni var kvaddur hinsta sinni í dag í salnum Silfurbergi í Hörpu, tónleika- og ráðstefnuhúsi. Það var einstök athöfn í alla staði og fjölmenn. Ingó fæddist 4. maí 1970. Útförin var með öðrum orðum á afmælisdeginum hans. Hann hefði orðið 43 ára í dag.Ingólfur var í Ásatrúarsöfnuðinum og útförin var að safnaðarsið undir stjórn Hilmars Arnar Hilmarssonar goða. Þetta er fyrsta athöfn sinnar tegundar í Hörpu og ætla má að margir viðstaddir hafi þarna upplifað útfararsamkomu ásatrúarmanna í fyrsta sinn. Þetta var einstaklega falleg, hátíðleg, hlýleg og eftirminnileg athöfn.

Goðinn kvað úr Völuspá og Hávamálum og flutti Ingólfi kveðjuorð. Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur, mágur Ingólfs, flutti vel valin minningarorð.

Mikið var sungið og spilað, unaðslega fallega og víða komið við, allt frá Rammstein til Griegs og Ibsens. Árni Daníel, bróðir Ingólfs, stjórnaði tónlistarvalinu en Anna Guðrún, systir þeirra, tók saman myndir sem sýndar voru við athöfnina. Þar var ævisagan dregin upp í sérlega skemmtilegri sýningu. Sendiboði Svarfdælasýsls stóðst ekki þá freistingu að mynda nokkrar veggmyndir til að láta fylgja hér með svo fleiri fái að njóta.

Kista Ingólfs stóð á sviðinu og á henni var pípuhatturinn hans og sverð úr vopnabúrinu. Drengur átti gott safn af vopnum og verjum og var í víkingafélaginu Einherjum. Jarðvist hans lauk með bálför.

Að athöfn lokinni var boðið til erfidrykkju á Hafnarloftinu, sem er eins konar félagsheimili sem hjónin Ásta og Valgeir Stuðmaður reka við Lækjartorg. Einmitt þarna héldu Svarfdælingar sunnan heiða þorrablót í vetur við mikinn fögnuð og gott atlæti.

Undir þessu sama þaki var í gær fjölmenn erfidrykkja að lokinni útför Júlíusar Agnarssonar, upptökustjóra og tæknistjóra Stuðmanna um árabil. Í dag gerðu veisluhaldarar ráð fyrir enn fleirum, allt að 800 manns. Þess vegna voru líka dekkuð borð úti, á sjálfu Lækjartorgi, auðvitað með leyfi lögreglustjórans í Reykjavík sem sjálfur er Hríseyingur með ættarvísa úr Svarfaðardal.

Svo dreif að mannskapinn úr Hörpu og brátt var þétt staðinn Svarfaðardalur úti og inni. Í boði var flatbrauð með hangikjöti, harðfiskur, pönnukökur með sykri, Mackintosh-konfekt úr 2,9 kg baukum. Ingó hélt víst mikið upp á Mackintosh. Svo var drukkinn gæðaölið Kaldi af Árskógsströnd með öllu saman, að sjálfsögðu. Sorgarathöfn breyttist í mannfagnað. Þannig hefði líka Ingó viljað hafa það.

Hilmar Örn goði minntist þess í kveðjuorðum sínum að þeir Ingó hefðu rætt um eilífðarmálin og velt fyrir sér hvert heiðnir menn færu að jarðvist lokinni, því engan eiga þeir ríkisborgararétt í himnaríki og kæra sig heldur ekkert um slíkt.

Ingó sá sig fyrir sér í einhverju fjalli, kletti eða steini, jafnvel kveðandi rímur. Sjálfsagt er hann nú að svipast um eftir slíkri fasteign til frambúðar í Svarfaðardal, hvort sem er í grennd við æskustöðvarnar í Syðra-Garðshorni eða annars staðar. Jafnvel er staðurinn fundinn nú þegar. Góður sonur Svarfaðardals hefur lokið jarðvist sinni og kannski er hann kominn heim á ný.

  • Svarfdælasýsl vottar  eiginkonu Ingólfs, Monicu Haug, dætrum þeirra, Hrafnhildi Sif og Söru Lilju og öðrum aðstandendum, dýpstu samúð og mælist til þess að lesendur minnist þessa góða drengs með því að leggja í menntunarsjóð dætranna:
  • 0301-18-988356, kt. 030901-2820. 

Deyr fé,
deyja frændr,
deyr sjálfr ið sama;
en orðstírr
deyr aldregi
hveim er sér góðan getr.

Ein athugasemd við “Öðlingur kvaddur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s