Ýmsir hafa orðið til þess að víkja fróðleiksmolum um snjóflóðið á Auðnum að Svarfdælasýsli eftir umfjöllun um málið í tilefni af því að nákvæmlega 60 ár voru liðin frá slysinu. Þessar upplýsingar skýra atburðarásina og heildarmyndina.
Mikill fengur er að ítarlegu útvarpsviðtali við Friðbjörn Zohoníason, bónda á Hóli og þann sem fyrstur kom að Auðnum eftir að flóðið féll. Sú heimild um slysið er auðvitað ómetanleg og Sýslið fékk heimild til að birta viðtalið hér:
Kolbrún Pálsdóttir á Dalvík sendi texta um Auðnaslysið og telur að sé skýrsla sem séra Stefán Snævarr sóknarprestur hafi skrifað fyrir stjórn deildar Slysavarnafélagsins á Dalvík til að senda Slysavarnafélagi Íslands fyrir sunnan. Slysavarnafélagið starfrækti bæði karla- og kvennadeildir á Dalvík og sú fyrrnefnda stofnaði björgunarsveit árið 1951 en kvennadeildin starfaði líka með sveitinni eftir atvikum. Í skýrslunni segir:
Fljótlega eftir að björgunarsveitin var stofnuð var leitað til hennar með ýmiskonar aðstoð, t.d. í sambandi við flutning á sjúkum mönnum og særðum bæði á sjó og landi, í vondum veðrum og illri færð. Þau verk verða ekki hér talin, enda hvergi skráð og verða því ekki dagsett eða staðsett en hafa eigi síður haft mikla þýðingu fyrir byggðalögin hér og þá sem þeirra nutu.
Fyrsta stórverkefnið, sem sveitin fékkst við, var er snjóflóð féll á bæinn Auðni í Svarfaðardal.
Skrifari skýrslunnar lýkur henni með þessum orðum:
Af þessu mætti segja langa sögu en verður ekki gert hér. Þessi för var öllum þátttakendum mikil þrekraun og reyndi menn til hins ítrasta . Allir lögðu mikið á sig af mikilli fórnfýsi og einlægum vilja til að hjálpa og bjarga. Og það væri vel þess vert að saga þessara atburða væri betur rakin.
Kolbrún segist í tölvupósti aldrei gleyma föstudeginum langa 1953 og viðbrögðum föður síns, Páls Sigurðssonar málara, þegar tilkynning barst í Útvarpinu að ,,Dalvík væri beðin að svara Urðum strax.“ Páll spratt þá upp og sagði að nú hefði „eitthvað mikið komið fyrir í dalnum.“
Það kemur líka fram hjá Kolbrúnu að fjölskylda Rannveigar á Auðnum hefði komið austan frá Vopnafirði og gist heima hjá sér á Dalvík fyrir útförina á Urðum.
- Jón Ágústsson á Auðnum, unnusti Rannveigar, flutti til Selfoss eftir slysið og kom aldrei framar í Svarfaðardal. Hann sagði síðar frá lífsreynslu sinni í vinahópi syðra. Meðal annars er haft eftir honum að Rannveigu hafi dreymt fyrir snjóflóðinu sem varð henni og verðandi tengdaföður hennar að bana.
- Samantektin um Auðnaslysið á Sýslinu 30. mars hefur nú verið uppfærð í ljósi upplýsinga sem bárust í kjölfar birtingar hennar.
Fallegt viðtal og eftirtektarvert hversu vel máli farinn Friðbjörn er, ekki hefur þetta verið mikið undirbúið eða niðurskrifað.
Takk fyrir Atli Rúnar, vel að verki staðið að halda þessum gögnum saman.
Frábær samantekt hjá þér Atli Rúnar af snjóflóðinu á Auðnum 1953. Það vill svo til að ég skrifaði mína „stóru ritgerð“ í MA um snjóflóðið og tók ég viðtal við nokkra menn sem komu að björgunarstörfunum, m.a. þá feðga á Hóli. Þessi ritgerð birtist síðan í tímaritinu Súlum (norðlenskt tímarit) 1975 eða 1976. Ég var að reyna að googla hana en án árangurs – líklega hefur hún ekki ratað inn vefinn. Mér fannst mjög áhrifaríkt að hlusta á viðtölun við Einar og Peterínu. Takk fyrir að rifja þennan atburð upp fyrir okkur lesendum
Svarfdælasýsl.