Heiðmerkurrölt og jólaengill á grein

Staðlað

IMG_7569Hressandi rölt í góðra manna hópi, snemma að morgni laugardags í Heiðmörk, breytir tilverunni umtalsvert. Stóra spurningin í dag var hvort hegrinn væri mættur en ekki hvað Bjarni Ben. myndi segja í Garðabæ. Hegrinn lét ekki sjá sig við tjörnina þar sem hann heldur sig oftast. Hún var ísi lögð og það láta ekki einu sinni hegrar bjóða sér.

Hópur fólks af dalvískum uppruna og viðhengi hans hafa um árabil gengið hring í Heiðmörk á laugardagsmorgnum. Stundum mæta fáir, stundum margir. Það ræðst bara hverju sinni. Veður og árstími skipta ekki máli. Þetta er fastur liður og lagt er af stað kl. 8:15 hvað sem tautar og raular.

Hópurinn er orðinn hagvanur í Heiðmörk og reyndar svo mjög að stofnaði vinafélag um eitt ákveðið grenitré nálægt göngustígnum og skreytir það með viðhöfn í upphafi jólaföstu ár hvert, eins og fjallað var um hér á Svarfdælasýsli í vetur. Sú umfjöllun rataði alla leið í Ráðhús Reykjavíkur og Sýslið fékk tölvupóst frá skrifstofu borgarstjóra með hlýjum kveðjum til Heiðmerkurvina frá Dalvík.

Fjöldi fólks gengur og hleypur reglulega í Heiðmörk og kann vel að meta þetta uppátæki Norðlendinga að taka tré í fóstur og dubba upp í aðdraganda jóla. Það mátti glögglega sjá á trénu í morgun því þar hengu tvær jólakúlur á grein og engill líka kúlunum til samlætis. Þetta er hluti af skrautinu sem upphaflega var hengt á tréð í lok nóvember en fauk í einhverjum hríðarhvellinum. Þegar svo snjóa leysir finna fastagestir í Þórsmörk kúlur og engla og skila þeim á tréð, hið eina og sanna.

IMG_7586Þegar svo Jón Gnarr les hér þetta framhald sögunnar hlýtur hann að sannfærast um að hlýrri hjartarætur eru vandfundnari á höfuðborgarsvæðinu en einmitt í Heiðmörk. Og hjarta svæðisins er einmitt tré Dalvíkinganna, sem enn er reyndar jólatré nú þegar komið er fram í miðjan apríl.

Eftirmáli:

Þegar komið var í Nóatún til innkaupa vegna kvöldsins blasti við tilboð dagsins: lambaprime með Heiðmerkurkryddi. Gat ekki betra verið.

Heiðmörkin gengin að morgni og étin að kveldi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s