Þegar hendir sorg við sjóinn …

Staðlað

kransinnn Óhætt er að segja að við höfum fengið sýnishorn af mismunandi vetrarveðri þegar minnst var sjómanna sem fórust frá Dalvík í páskahretinu mikla, 9. apríl 1963 – fyrir réttum 50 árum. Eyjafjörðurinn skartaði sínu fegursta í logni, blíðu og sólstöfum þegar lagt var úr höfn á Dalvík kl. 13 í gær.

Á heimleiðinni fór að hreyfa ögn vind og snjóa. Snjókoman magnaðist mjög og þegar minningarsteinninn góði var afhjúpaður kl. 16 rigndi yfir gestina snjóflyksum sem sumar hverjar voru á stærð við mófugla. Það eru sem sé ekki skyrslettur á fólkinu á suðurgarði á myndunum heldur snjór af himnum ofan, sérstök sending í tilefni dagsins.

Flestir aðstandendur þeirra er fórust voru um borð í Húna II, þessum indæliseikarbát sem dugnaðarforkar í vinafélagi hans gera út til skemmti- og menningarsiglinga frá Akureyri. Tveir úr áhöfninni fengu það heiðurshlutverk að varpa kransinum í hafið úti á firðinum. Sú stund verður skýr í minningunni lengi lengi.

Þau voru öll um borð í Húna II og áttu það sameiginlegt að hafa misst föður 9. apríl 1963. Frá vinstri: Jóhanna Óladóttir, Guðrún Tómasdóttir, Óli Þór Jóhannsson, Haukur Sigvaldason og Jóhannes Bjarmarsson.

Frumkvæðið að minningarathöfninni á Eyjafirði og bautasteininum á Dalvík átti Sunnansvarfdælingurinn Haukur Sigvaldason. Hann missti bæði föður og föðurbróður í páskahretinu.

Frændi hans, Stefán, og bekkjarsystir hans úr Dalvíkurskóla, María, vinna svo með Hauki að hinum þætti þessa tvíþætta minningarverkefnis: heimildarkvikmynd um sjóslysin 1963. Um málið hefur áður verið fjallað hér á Sýslinu, bæði í nóvember 2012 og í mars 2013. Gleymum svo ekki þriðju fréttinni um málið sem fjallaði um fjárstyrk Kaffi Loka til verkefnisins í desember 2012!

svanfridurSvanfríður Inga Jónasdóttir bæjarstjóri ávarpaði þá sem viðstaddir voru afhjúpun bautasteinsins við höfnina. Ekkjur og aðrir aðstandendur þeirra er fórust afhjúpuðu síðan steininn.

Bæjarstjórinn flutti mál sitt bæði í bundnu og óbundu máli og fórst það afar vel. Ávarp Svanfríðar verðskuldar því að fylgja hér með í heilu lagi:

Föðurland vort hálft er hafið
helgað þúsund feðra dáð.
Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,
þar mun verða stríðið háð.

Þessi sjómannasálmur Jóns Magnússonar birtist í sjómannablaðinu Víkingi árið 1940 og lýsir vel viðhorfi og stöðu íslensks samfélags, bæði þá og nú.

Já, án sjávarnytja væri Ísland vart byggilegt. Án sjávarnytja hefði þetta byggðarlag tæpast tilverugrundvöll, það væri líklega ekki til. Við eigum þeim því mikið að þakka sem hafa sótt sjóinn og sækja hann enn.

En þó sjórinn sé gjöfull og grundvöllur afkomu okkar allra þá er hann einnig viðsjárverður og tekur sinn toll.

Föðurland vort hálft er hafið,
hetjulífi og dauða skráð.

Í dag minnumst við þess saman að 50 ár eru liðin frá hamfaraveðri sem skyndilega skall á þann 9. apríl 1963. Hamfaraveður sem hjó stór skörð í raðir íbúanna hér í þorpinu. Byggðarlagið missti sjö sjómenn af tveimur bátum frá Dalvík. Þessi atburður er eins og sár í sögu þessa byggðarlags. Fjölskyldur misstu eiginmenn, feður, syni, frændur og vini. Þegar þannig stendur á syrgja allir og trega, samhugurinn er heill og óskiptur.

Jón Magnússon orðar það líka vel í sjómannasálmi sínum:

Þegar brotnar bylgjan þunga
brimið heyrist yfir fjöll,
þegar hendir sorg við sjóinn,
syrgir, tregar þjóðin öll,

Sjómenn vinna erfið störf og áhættusöm í þágu okkar allra og dýrkeypt reynslan hefur kennt okkur að tryggja verður starfsöryggi þeirra eins og frekast er kostur.

Mér varð hugsað til þess í morgun þegar ég horfði á eftir smábáti skríða út úr höfninni að sá sem þar hélt um stýri vissi, sem betur fer, meira um möguleg veðrabrigði dagsins en þeir sem héldu úr Dalvíkurhöfn fyrir réttum 50 árum síðan. Tækni hefur fleygt fram og öryggi sjófarenda er meira en var.

Og sem betur fer höfum við líka lært sitthvað um það hvernig hægt er að vinna með sorgina og styðja við þá sem mest missa en í þeim efnum skorti  sannarlega mikið þegar bátarnir fórust árið 1963.

Þess vegna er framtak Hauks Sigvaldasonar varðandi þennan minnisvarða og athöfnina á eftir svo mikilvægt. Haukur, ég vil fyrir hönd íbúanna leyfa mér að þakka það allt.

Já, það er vel að afkomendur þeirra sem fórust í bálviðrinu fyrir 50 árum skuli standa að því að setja upp minnisvarða og taka þannig saman þær minningar sem bundnar eru við þennan atburð, en einkum þá sem þá fórust. Steinninn er sérvalinn úr hafnargarðinum hér á Dalvík og Jón Adolf Steinólfsson, tréskurðarmeistari og listamaður hefur klappað í hann lágmynd.

Þau afhjúpuðu bautasteininn. Frá vinstri: Bragi Jóhannsson, Sigríður Hermannsdóttir, Jóhanna Óladóttir, Hermanda Jóhannesdóttir, Valrós Árnadóttir og Haukur Sigvaldason.

 

Ein athugasemd við “Þegar hendir sorg við sjóinn …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s